Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hérlendis í ágúst síðastliðnum alls 32,8 milljörðum króna og var 6,2% meiri en í sama mánuði í fyrra. Sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst, nam erlend greiðslukortavelta hérlendis alls 93,2 milljörðum kr., sem er 5,3% meiri velta en sömu mánuði sumarið 2016.
Ágúst var metmánuður í komum ferðamanna um Leifsstöð. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu komu 284.124 ferðamenn um flugvöllinn í ágúst, 17,6% fleiri en í ágúst í fyrra og 4,5% fleiri en í júlí síðastliðnum. Eins og sést á þessum tölum var vöxtur í fjölda ferðamanna mun meiri en vöxtur í kortaveltu þessara sömu ferðamanna þannig að hver ferðamaður ver því um 10% lægri upphæðum með greiðslukortum til kaupa á vöru og þjónustu en fyrir ári síðan.
Þó töluvert hafi dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu ferðamanna undanfarin ár er enn vöxtur í flestum útgjaldaliðum. Þannig var erlend kortavelta gististaða í ágúst

Kortavelta e. flokkum 08 2017
  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn
7,4 milljarðar kr. og jókst um 11,4% frá ágúst í fyrra. Þá er enn aukning í kortaveltu vegna ýmissa skipulegra ferða eins og hvalaskoðun, gönguferðum  og ferðum með leiðsögn.
Þeir útgjaldaliðir sem helst dragast saman á milli ára eru gjafa- og minjagripaverslun (-17,1%) og flokkurinn önnur verslun (-10,5%). Verslun í heild jókst þó um 3,3% frá ágúst í fyrra en mestur vöxtur í verslun varð í dagvöruverslun, eða 18,3%. Kenningar eru um að erlendir ferðamenn velji í auknum mæli að kaupa mat í dagvöruverslunum frekar en á  veitingahúsum. Það gæti verið fótur fyrir þessu, því vöxtur í erlendri kortaveltu veitingahúsa nam aðeins 4,8% í ágúst. Mestur vöxtur erlendrar kortaveltu í mánuðinum, var í flokki farþegaflutninga, 21,4% frá ágúst í fyrra og nam í mánuðinum 4,2 milljörðum, samanborið við 3,4 milljarða í fyrra.

Bretar skera sig úr
Athygli vekur að hver Breti hefur undanfarna fjóra mánuði greitt töluvert meira með greiðslukortum sínum en áður. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess hve veikt breska pundið er gagnvart krónunni. Á myndinni að neðan má sjá samanburð á greiðslukortaveltu hvers ferðamanns óháð þjóðerni í samanburði við greiðslukortaveltu hvers Breta. Ólíkt meðal-ferðamanninum sækja fleiri Bretar Ísland heim að vetri til en sumri og heldur færri breskir ferðamenn hafa komið hingað til lands í sumar samanborið við sumarið 2016. Þó erfitt sé að slá því föstu hvað veldur hærri greiðslukortaveltu Breta nú en áður má geta sér til að hluti ástæðunnar sé sú að fleiri breskir ferðamenn komi nú hingað til lands á eigin vegum en ekki fyrir tilstuðlan erlendra ferðaskrifstofa. Kortagögn RSV ná ekki til greiðslna erlendra ferðamanna til ferðaskrifstofa í heimalandinu. Mestur vöxtur greiðslukortaveltu Breta á tímabilinu er í gististarfsemi og styður það áðurnefnda tilgátu. Þá kann einnig að vera að í ljósi óhagstæðs gengis treysti eingöngu efnuðustu bresku ferðamennirnir sér í Íslandsferð en þeir sem minna hafa milli handanna velji aðra áfangastaði.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 115 þús. kr. í ágúst, eða 5,7% minna en í júlí. Það er um 10% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Ferðamenn frá Bretlandi greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 130 þús. kr. á hvern ferðamann. Athygli vekur að ferðamenn frá öðrum löndum en þau sem talin eru greiddu 146 þúsund á hvern mann í ágúst.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV