Fundur sem haldinn var í byrjum þessa mánaðar um nýgerða búvörusamninga leiddi vel í ljós hversu illa var staðið að undirbúningi þeirra samninga. Að þessum fundi stóðu fjölmörg hagsmunasamtök, bæði atvinnurekenda og launþega, m.a. SVÞ. Viðræður, milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um gerð nýrra búvörusamninga höfðu þá staðið yfir allt frá því s.l. haust. Lengst af bárust litlar fréttir af gangi viðræðnanna og var það raunar ekki fyrr en skömmu fyrir áramót, að hópur hagsmunaaðila óskaði eftir því að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þegar stjórnvöld hófu að gefa upplýsingar um efni og innihald væntanlegra samninga kom í ljós að nær ekkert var tekið tillit til annarra hagsmuna en bænda eingöngu. Þrátt fyrir að þarna væri verið að véla um gífurlega langan samning sem snérist um háar fjárhæðir, þótti ekki ástæða til að kalla aðra aðila að málinu, þó ekki væri nema til ráðgjafar.

Sú bylgja gagnrýni sem fór af stað í þjóðfélaginu eftir að nýir búvörusamningar voru undirritaðir í lok febrúar, sýndi og sannaði að málið er stærra í sniðum en svo að unnt sé að líta á það sem einkamál stjórnvalda og bændaforystunnar. Málið snýst fyrst og fremst um hagsmuni neytenda. En eins og fram kom í máli Daða Más Kristóferssonar, lektors við HÍ á umræddum fundi, eru hagsmunir neytenda að engu hafðir í þessum samningum. Tækifærið, sem stjórnvöld höfðu til að hefja undirbúning að kerfisbreytingu á fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn, var ekki gripið. Að óbreyttu munu það áfram verða neytendur sem bera skarðan hlut frá borði.

Staðan á málinu nú er sú að samningarnir eiga eftir að koma til kasta Alþingis. Þeir öðlast því ekki gildi fyrr en nauðsynlegar lagabreytingar sem þeir kalla á, hafa verið samþykktar af Alþingi. SVÞ, sem og fjölmörg önnur hagsmunasamtök, hafa sent umsagnir sínar um búvörusamningana til þingsins, jafnframt því að fara á fund fjárlaganefndar til að skýra viðhorf sitt til þeirra. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið verður að gera ráð fyrir því að komið verði til móts við þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið og samningunum breytt, og/eða að samhliða verið gerðar ráðstafanir til að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur, neytendum til hagsbóta.

Frá fundi um búvörusamningana.