Eftirlit í þágu allra
Á tímum hagræðingar í ríkisrekstri er bæði sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera leiti leiða til að hagræða í rekstri sínum, ekki eingöngu til hagræðis fyrir opinberan rekstur heldur einnig til að lágmarka kostnað fyrir bæði atvinnulífið og neytendur. Með samkeppni á þeim sviðum sem er útvistað er kostnaði hins opinbera haldið í lágmarki án þess að slá af kröfum varðandi gæði og þjónustu. Í þessu samhengi ítrekast að einkaaðilar starfa undir ströngu eftirliti hins opinbera sem og staðfestum verklagsreglum og alþjóðlegum stöðlum. Með því að fela einkareknum aðilum tiltekin verkefni er því hvorki verið að slá af kröfum eða gefa afslátt á gæðum – þvert á móti má fullyrða að kröfur eru auknar frá því sem nú er. Sem dæmi um vel heppnaða framkvæmd á þessu sviði má nefna ökutækjaskoðun en vandfundir eru þeir aðilar sem telja heppilegt að snúa þeirri framkvæmd tilbaka í farveg bifreiðaskoðunar ríkisins.

Hins vegar má ráða að hið gagnstæða sé að meginstefnu til við lýði hjá hinu opinbera – þ.e. að verkefnum er haldið hjá ríkinu með ráðum og dáð. Þá eru þess dæmi að ýmis verkefni sem áður voru útvistuð eru tekin tilbaka þegar harðnar í ári í ríkisrekstri. Má í þessu samhengi nefna verkefni skoðunarstofa í sjávarútvegi sem í upphafi árs 2011 voru færð aftur til MAST og eru þess dæmi að í kjölfarið hækkaði kostnaður hjá eftirlitsskyldum aðilum um allt að 200% við innvistun þeirra verkefna.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST, þ.m.t. nýlegum áfellisdómi Hæstaréttar um starfsemi stofnunarinnar, og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda. Því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, hdl., lögmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Grein til útprentunar.