Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 15.2.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Enn á ný er til umfjöllunar á Alþingi sem og á samfélags- og fréttamiðlum frumvarp til laga þar sem lagðar eru til breytingar á smásölu áfengis. Eins og oft áður þegar mál þetta er til skoðunar er opnað á miklar og heitar umræður þeirra aðila sem taka afstöðu með eða á móti slíkum breytingum. Skoðanaskipti um mál sem okkur varða eru mikilvæg og til þess fallin að draga fram sjónarmið ólíkra skoðana og aðstoða okkur við taka upplýsta ákvörðun í þeim málum. Hins vegar er mikilvægt að öll sjónarmið nái fram að ganga og tekið sé tillit til þeirra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Í umræðunni um boðaðar breytingar hefur verið áberandi m.a. það sjónarmið að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki varðandi eftirfylgni með ströngum skilyrðum um sölu áfengis. Sem afleiðing þessa muni áfengisneysla aukast vegna aukins aðgengis og meinta tilslökun á smásölu og afhendingu á áfengi. Hagsmunagæsla mismunandi sjónarmiða er því mikil varðandi þetta mál. Greina þarf þó á milli gagnrýni sem annars vegar grundvallast á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar tvískinnungs hagsmunaaðila sem telja að aukin samkeppni ógni einokun þeirra á vöruhillum og útstillingum ríkisins.

Verslunin telur mikilvægt að virða þær opinberu og lagalegu kröfur sem gerðar eru til hennar á hvaða sviði sem það er og væri áfengi þar engin undantekning á. SVÞ bendir á að nú þegar hefur einkaaðilum undanfarna áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, hvort sem það er sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heilindi til að sinna þessum verkefnum og hafa þessir aðilar staðið undir þeirri ábyrgð.

Í þessari umræðu má einnig bera saman þróun varðandi sölu og notkun á annarri vöru sem gjalda þarf varhug við út frá lýðheilsusjónarmiðum, þ.e. tóbak. Tóbak hefur um áratugi verið selt í verslunum samkvæmt ströngum reglum um þá sölu. Þrátt fyrir aukið aðgengi að þeirri vöru hafa opinberar upplýsingar sýnt fram á að reykingar hafa dregist verulega saman hér á landi og eru reykingar hér á landi hvað minnstar í Evrópu. Þessu til stuðnings vísast m.a. til Talnabrunns – Fréttabréfs landlæknis um heilbrigðismál (9. árg. 5. tölublað. Maí 2015). Taka verður undir það sem fram kemur í umræddu fréttabréfi að þennan árangur má rekja til öflugs tóbaksvarnarstarfs. Verður að draga þá ályktun að sömu sjónarmið hljóta að eiga við um aðra vöru, s.s. áfengi, að þar skipti mest máli að halda úti öflugu forvarnarstarfi og fræðslu um skaðsemi vörunnar og skiptir það jafnvel meira máli en hver sölustaðurinn er hverju sinni. Því ber að fagna þeirri tillögu frumvarpshöfunda að leggja til aukið fjármagn í lýðheilsusjóð og að Lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna.

SVÞ telja því mikilvægt að upplýst ákvörðunartaka um hvort smásala á áfengi eigi að færast frá hinu opinbera yfir til einkaaðila verði að grundvallast á öðrum þáttum en eingöngu þeim sjónarmiðum að versluninni sé ekki treystandi að annast þá sölu. Með skýrum skyldum á verslunina og öflugu forvarnarstarfi er unnt að viðhalda skýrri lýðheilsustefnu í áfengismálum og mun þar tilfærsla á smásölustöðum ekki hafa úrslitaáhrif varðandi neysluhegðun er viðkemur áfengi. Verslunin er tilbúin að taka á sig þá ábyrgð og virðingu gagnvart almannaheill sem smásala áfengis hefur í för með sér. Hefur verslunin þegar tekið á sig ábyrgð varðandi aðra viðkvæma vöruflokka og gengið til þeirra verka af fullum heilindum.

Morgunblaðið 15.2.2016 – Ábyrgð fylgir frelsi