Að taka þátt í Evrópsku samstarfi

„Við … gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi: Með lögum þessum eru innleiddar í íslenskan rétt eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í … kafla  samningsins um Evrópska efnahagssvæðið…“ Þessi setning sést æ oftar í íslenskri löggjöf. Þróunin í íslenskri stjórnskipan er sú að innleiða tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins beint í íslenska löggjöf. Hvaða áhrif hefur slík þróun á þá sem undir löggjöfina heyra? Hvað þýðir það að stór hluti löggjafans á Íslandi er þannig ekki lengur til staðar í nánasta umhverfi heldur einhvers staðar á meginlandi Evrópu?

Fyrirtæki í flutningastarfsemi hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Æ fleiri lög og reglugerðir Evrópusambandsins sem innleiddar eru hér snerta þá starfsemi beint. Dæmi um þetta eru t.d. aksturs- og hvíldartímareglur atvinnubílstjóra, reglur um endurmenntun þeirra, reglur um ökurita, reglur um flugvernd og siglingavernd og svo mætti lengi áfram telja. Þegar málum er svo háttað veltir maður fyrir sér hvar á að bera niður til að hafa áhrif á lagaumhverfi atvinnugreinarinnar? Ef íslensk stjórnsýsla, – að ekki sé talað um íslenska stjórnmálamenn, telja sig þess ekki umkomna að hafa áhrif á lagaumgjörð starfsgreinarinnar hvert á hún þá að leita til að hafa áhrif? Þeirri spurningu verður ekki svarað hér, en lögð áhersla á að fyllsta ástæða er fyrir Íslendinga að velta fyrir sér þessari spurningu. Er það ásættanlegt fyrir okkur öll til lengri tíma að taka við löggjöf gagnrýnislaust erlendis frá? Löggjöf sem við getum ekki haft áhrif á til eða frá?

SA – Samtök atvinnulífsins bentu í byrjun ársins flutningasviði SVÞ á vettvang innan Evrópu þar sem hagsmunamál flutningsfyrirtækja væru til umræðu. Um er að ræða hóp sem kallar sig „Transport Group“ eða flutningahóp innan BUSINESSEUROPE – Samtaka atvinnulífsins í Evrópu. Þarna koma saman fulltrúar frá öllum greinum flutningastarfseminnar – á landi, lofti og á sjó og frá öllum löndum Evrópu til að ræða hagsmunamál sín og koma þeim á framfæri við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Á fyrsta fundi þar sem flutningasvið SVÞ tók þátt í febrúar sl. var óskað eftir sjálfboðaliða til að taka saman helstu áhersluatriði BUSINESSEUROPE fyrir væntanlega umræðu Evrópusambandsins um hafnarmál – „ports policy“. Fulltrúi SVÞ, sem þetta ritar, sá þarna möguleika á að afla sér þekkingar á mikilvægum málaflokki auk þess að eygja möguleika á því að hafa áhrif á frumstig umræðna innan Evrópusambandsins á málaflokki sem snertir hagsmuni aðildarfyrirtækja beint. Hún bauð sig fram og úr varð að fulltrúi Íslands tók saman helstu áhersluatriði Samtaka atvinnulífsins í Evrópu fyrir umræður Evrópusambandsins um hafnarmál. Því er bent á þetta hér, að þótt Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu er ekki þar með sagt að þeir séu útilokaðir frá því að hafa áhrif á allt sem þar gerist. Það eru ýmsir möguleikar til að koma hagsmunamálum Íslendinga á framfæri við Evrópusambandið með einum eða öðrum hætti og það er afar mikilvægt að halda því á lofti og að rækta þau tengsl eins og kostur er. Því verður ekki haldið fram að vettvangur eins og sá sem hér er kynntur, Transport Group innan BUSINESSEURPE, sé líklegur til að skipta sköpum í endanlegum niðurstöðum reglna Evrópusambandsins, en hann veitir þó alla vega aðgang að umræðunni og gefur möguleika á að koma hagsmunaáherslum íslenskra flutningsfyrirtækja á framfæri við Evrópusambandið. Að síðustu má koma fram að á síðasta fundi þessa hóps í september sl. var ímyndarátak flutningasviðs SVÞ sérstaklega kynnt af forsvarsmanni Cefic – Samtaka evrópskra fyrirtækja í efnaiðnaði – sem gott dæmi um átak sem evrópsk flutningsfyrirtæki gætu farið í til að freista þess að efla ímynd flutningagreinarinnar í Evrópu.

Á stuttum tíma hefur flutningasvið SVÞ þannig náð þeim árangri innan þessa hóps að setja annars vegar saman áherslupunkta til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í mikilvægum málaflokki og hins vegar að vera tekið sem dæmi um fyrirmynd að einhverju sem samtök flutningsfyrirtækja Evrópu gætu leikið eftir. Það skiptir máli og virkar örvandi að ekki skuli vera flóknara en raun ber vitni að komast að í umræðunni. Hagsmunamál íslenskra flutningsfyrirtækja eru í flestum tilfellum ekkert öðruvísi en hagsmunamál evrópskra flutningsfyrirtækja og það er mikilvægt fyrir lítil samtök eins og SVÞ með víðtæk hagsmunamál eins og flutningar á landi, lofti og á sjó eru – að finna einn vettvang sem tekur fyrir hagsmunamál þeirra allra.