Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021 var haldinn 19. maí s.l. Gestur fundarins var Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Dagný Jónsdóttir, formaður SH hóf umræðuna með því að draga saman helstu staðreyndir um stöðu einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja innan heilbrigðiskerfisins. Vakti hún m.a. athygli á því að um þriðjungur árlegra heimsókna sjúklinga til læknis eru til þess hóps sem eru aðilar að Samtökum heilbrigðisfyrirtækja. Þau tækju hins vegar einungis til sín um 5% af því fjármagni sem hið opinbera ver til heilbrigðismála. Sérgreinalæknar og fyrirtækin sem þeir væru með á bak við sig væru því „þriðja stoðin“ í heilbrigðiskerfinu og hefðu því miklu hlutverki að gegna. Þá gerði Dagný að umtalsefni þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í viðræðum Læknafélags Reykjavíkur, f.h. sérgreinalækna, við Sjúkratryggingar Íslands, en þeir hafa verið samningslausir síðan haustið 2019.

Bjarni greindi frá þeim áherslum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt á þegar flokkurinn hefði farið með heilbrigðismálin. Vísaði m.a. í að Sjúkratryggingum Íslands var falið samingshlutverkið í tíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem heilbrigðisráðherra og þegar ákveðið var að fjármagn fylgdi sjúklingum í heilsugæslunni sem gert var í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Bjarni svaraði síðan fjölmörgum fyrirspurnum frá fundarmönnum sem allar litu með einum eða öðrum hætti að þeirri þröngu stöðu sem uppi er í samskiptum sjálstætt starfandi fyrirtækja í heilbrigðiskerfinu við hið opinbera.

Dagný Jónsdóttir var endurkjörin formaður SH til næsta starfsárs. Í stjórn til næstu tveggja ár voru kjörnir þeir Kristján Guðmundsson og Sigurður Ingibergur Björnsson, Varamenn í stjórn eru áfram þeir Stefán E. Matthíasson og Þórarinn Guðnason.