Erlend uppskrift tilboðsdaga hefur afgerandi áhrif á verslun Íslendinga.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ Samtaka verslunar og þjónustu sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að tilboðsdagar að erlendri uppskrift hafi haft afgerandi áhrif á það hvernig Íslendingar versla fyrir jólin.

„Stærri og stærri hluti af jólaverslunar landans fer fram á þessum dögum. Og það er bara í takt við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Þetta kemur kannski meira afgerandi fram hjá okkur en sums staðar annars staðar,“ segir hann.

Allt bendi til þess að tilboðsdagar líkt og svartur föstudagur og stafrænn mánudagur sem nú eru í gangi hafi orðið til þess að stór hluti jólaverslunar landsmanna hafi færst inn í nóvember. Þetta sé þróun sem sé komin til að vera.

„Það er allt sem bendir til þess og þróunin hefur eindregið verið þannig undanfarin ár. Mælingin sem við gerum reglulega sýnir það afgerandi að fyrir kannski sjö, átta árum var eiginlega öll jólaverslun í desember“, segir Andrés.

„Undanfarin ár hefur þetta verið að þróast í þá átt að jafnvel helmingur af allri jólaverslun fer fram á þessum dögum.“

Sjá nánari frétt á RÚV.is