Aukum kaupmáttinn

Aukum kaupmáttinn er kynningarherferð á vegum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu til að vekja athygli á þeirri miklu útgjaldalækkun fyrir heimilin sem myndi fylgja einföldum breytingum á skattaumhverfi verslunar í landinu.

Herferðin hefur farið fram með ýmsum hætti. Seldar voru vörur í Melabúðinni um páskana, á því verði sem gæti orðið veruleiki eftir kosningar. Jafnframt er hafin veggspjaldaherferð  í öllum matvöruverslunum landsins þar sem verð nokkurra vara er sýnt með og án tolla og vörugjalda. Einnig hafa forystumenn SVÞ skrifað greinar í blöð og átt viðræður við fjölda fólks um land allt. Skemmst er frá að segja að viðbrögðin hafa verið afar jákvæð.

Hagur heimilanna í kastljósi Alþingiskosninganna 27. apríl
Tímasetning herferðarinnar er engin tilviljun. Alþingiskosningar fara fram þann 27. apríl næstkomandi. Hagur heimilanna er í kastljósinu og það er núna sem forgangsröðun verkefna næsta kjörtímabils er ákveðin. Eftir kosningar verður afnám úreltra innflutningshafta, flókinna vörugjalda og gamaldags tolla að vera meðal fyrstu mála á dagskrá. Heimilin geta ekki beðið lengur.

Lægri matarútgjöld – aukinn kaupmáttur – meiri velta
Veruleg kaupmáttaraukning almennings getur ekki orðið að veruleika miðað við núverandi hagvaxtarspár – nema tekið sé á óhagræði í kerfinu og verndarkerfi sérhagsmuna, sem fjármögnuð eru af almenningi í formi síhækkandi matarverðs, verði lögð af.

Ríkur vilji þvert á flokka – tími aðgerða runninn upp
Við höfum ekki efni á frekari aðgerðarleysi – allra síst í þeirri stöðu sem við erum í nú. Ríkur vilji og skilningur virðist ríkja innan allra helstu stjórnmálaflokka til að taka þessi mál til endurskoðunar. Áfram má standa vörð um þær landbúnaðargreinar sem samstaða er um að vernda. Við þurfum öfluga matvælaframleiðslu á Íslandi. Hana þarf þvert á móti efla enn frekar og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu eru tilbúin til viðræðna um hvernig það sé gert, án þess að það sé á kostnað almannahagsmuna og heimilanna í landinu.

Frelsi er ekki ógn – höft og innflutningshindranir eru hin sanna ógn
Reynslan sýnir að það þarf ekkert að óttast það þó að íslenskir neytendur njóti frelsis og meira vöruvals í verslunum. Innlendur iðnaður sem starfaði í skjóli hafta fyrir nokkrum áratugum síðan, en þar voru miklar efasemdir um   innleiðingu frjáls innflutnings á þeim tíma, stendur í miklum blóma í dag.

Óháðir aðilar einróma um afnám tolla og innflutningshafta
Allir þurfa að kaupa í matinn. Að lækka verð á nauðsynjavörum er aðgerð sem kemur öllum til góða. Óháðir aðilar eins og Samkeppniseftirlitið hafa beinlínis hvatt til þess að verndartollar verði lækkaðir eða afnumdir og telja það myndu hafa jákvæð áhrif á lækkun matarverðs. Í skýrslu eftirlitsins frá árinu 2012 kemur í ljós að breytingar sem gerðar voru á skattaumhverfi matvæla árið 2007 skiluðu sér að fullu í auknum kaupmætti almennings á þeim tíma. Einnig má rifja upp skýrslu formanns matvælanefndar forsætisráðherra frá árinu 2006 þar sem fram kom að afnám tolla og annarra innflutningshafta sé besta leiðin til að lækka matvælaverð á Íslandi.

Tökum skrefið
Markmiðið með herferðinni Aukum kaupmáttinn er að koma þessu brýna hagsmunamáli heimilanna á dagskrá stjórnmálanna. Á fjögurra ára fresti er hægt að taka nýja stefnu og leggja til hliðar aðferðir og kerfi sem ekki virka. Umbætur í skattkerfi og aukið frelsi í innflutningi með afnámi úreltra innflutningshafta, flókinna vörugjalda og gamaldags tolla er svo sannarlega tímabær aðgerð og hana er hægt að framkvæma strax að loknum kosningum.

AUKUM KAUPMÁTTINN –  kjósum lægra vöruverð