Anna Felländer sem er einn helsti sérfræðingur Svíþjóðar um áhrif stafrænnar tækni verður aðalræðumaður ársfundar SVÞ 23. mars 2017.  Anna hefur mikið rannsakað áhrif stafrænu byltingarinnar, m.a. hvaða áhrif hún mun hafa á verslun og þjónustu. Hún er ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar á sviði stafrænnar tækni og hefur veitt fjölda stofnana og nýsköpunarfyrirtækja ráðgjöf á þessu sviði.

Anna er leiðandi sérfræðingur á þessu sviði í Svíþjóð og þótt víðar væri leitar. Anna hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum, hún var m.a. aðalhagfræðingur Swedbank, þjóðhagfræðingur hjá sænska fjármálaráðuneytinu og yfirmaður fjármálagreiningar hjá áhættustýringardeild skrifstofu forsætisráðherra.

„Það er mikill fengur að því að fá Önnu Felländer til að flytja erindi á aðalfundi SVÞ. Stafræna byltingin hefur víðtæk áhrif á verslun og þjónustu. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu og verður fróðlegt að heyra einn helsta sérfræðing nútímans á því sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu.“ Segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ um áhrif stafrænnar tækni á verslun og þjónustu.

Viðtal við Önnu Felländer þegar hún var aðalhagfræðingur Swedbank.