Rannsóknasetur verslunarinnar og Kaupmannasamtök Íslands hafa gefið út Árbók verslunarinnar 2016 þar sem farið er yfir þróun og stöðu íslenskrar verslunar í tölum og texta. Þetta er níunda árið í röð sem Árbók verslunarinnar er gefin út.  Að þessu sinni er sérstakur kafli helgaður verslun í Reykjavík, en auk þess er farið yfir umfang smásölumarkaðarins á síðasta ári og þróun hans á undanförnum árum.

Árbók verslunarinnar 2016

Árbók verslunarinnar er ætlað að veita þeim sem reka verslun nytsamlegar upplýsingar sem nýtast við stjórnun og ákvarðanatöku. Bókin nýtist einnig þeim sem stunda hagrannsóknir, stjórnvöldum og öðrum þeim sem þurfa á að halda upplýsingum um stöðu og þróun verslunar.

Í Árbók verslunarinnar 2016 kemur fram að:
•    á árinu 2015 var heildarvelta smásöluverslunar án virðisaukaskatts tæpir 400 milljarðar króna samanborið við 376 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu frá fyrra ári var því 5,8% og hefur ekki verið meiri á milli ára frá hruni.
•    stærsti einstaki vöruflokkur smásöluverslunar 2015 var í flokknum „dagvara og stórmarkaðir“. Velta í þeim flokki nam um 208 milljörðum kr.
•    ytri skilyrði verslunar hafa sjaldan verið betri. Kaupmáttur launa Íslendinga var í lok 2015 í sögulegu hámarki og hafði aukist um 8% á einu ári. Einkaneysla jókst um 5% á milli ára. Skuldir heimilanna dragast saman.
•    fjöldi skráðra smásöluverslana í landinu voru 2.258 í lok ársins 2015, sem er nánast sami fjöldi og árið áður. Af þessum verslunum voru flestar í flokki fataverslana. Mest fjölgun var hins vegar í flokki netverslana, eða um 6%.
•    hlutur verslunar í landsframleiðslu var 9,6% árið 2015 og hefur lítið breyst á milli ára. Framlag verslunar í landsframleiðslu er svipað og sjávarútvegs annars vegar og hefðbundins iðnaðar hins vegar.
•    erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum fyrir vörur í íslenskum verslunum árið 2015 fyrir 22,7 milljarða kr. sem er um 6% af heildarveltu íslenskra smásöluverslana. Erlend kortavelta í verslunum jókst um 23% frá árinu áður. Mest keyptu ferðamennirnir í dagvöruverslunum.
•    alls störfuðu 23.800 manns við verslun árið 2015 sem er um 13% af heildarvinnuafli landsins. Starfsmönnum í verslun fjölgaði um 600 frá árinu áður. Karlar sem störfuðu við verslun voru 2.700 fleiri en konur í greininni.
•    áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um 5 milljarðar króna og aukist um 27% frá árinu áður.
Í Árbók verslunarinnar er auk þessa ítarleg greining á ýmsum lýðfræðilegum þáttum eftir landssvæðum. Þar koma meðal annars fram breytingar á fjölda íbúa eftir landssvæðum,
aldursskiptinu og kyni.