Atvinnubílstjórar …á ferðinni fyrir þig

Síðasta sumar fór ég margar ferðir frá Reykjavík til Akureyrar og til baka. Eftir eina ferðina hafði ég á orði að það vekti athygli mína hversu tillitssamir flutningabílstjórar væru upp til hópa í umferðinni. Þeir gæfu alltaf merki til að hleypa manni framúr auk þess sem þeir vöruðu mann við ef það var ekki óhætt að fara framúr. Ég var ekki orðin starfsmaður flutningasviðs SVÞ á þessum tíma og hafði engra hagsmuna að gæta – og það sem meira er – sagan er sönn! Ófáar ferðirnar hef ég farið með Norðurleið frá Reykjavík í Hrútafjörð og til baka. Í þessum ferðum voru sömu bílstjórarnir undir stýri áratugum saman. Maður þekkti þá og spjallaði við þá eins og kunningja sína. Ég var örugg – ég treysti þeim. Þeir þekktu leiðina og þeir þekktu bílinn. Sú staðreynd að þessir bílstjórar voru jafn reyndir og raun ber vitni skipti mig öllu máli.

Því er ég að skrifa svo persónulegan texta í blöð? Hvers vegna er ég að segja frá þessu? Ég geri það vegna þess að ég tel ástæðu til að benda á að það skiptir máli hverjir sinna starfi atvinnubílstjóra. Það skiptir okkur öll máli að þeir sem keyra stóra bíla, hvort heldur það eru flutningabílar eða rútur með farþega, byggi upp reynslu og þekkingu á akstri slíkra bíla. Það gerir okkur öll öruggari í umferðinni. Þess vegna skiptir það okkur öll máli að það að vera flutningabílstjóri sé eftirsóknarvert starf.

Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að nú hefur flutningasvið SVÞ hrundið af stað kynnningarátaki undir kjörorðinu …á ferðinni fyrir þig. Ímynd og ásýnd atvinnugreinar skiptir öllu máli. Það á við um flutningastarfsemi sem aðra starfsemi. Atvinnugrein með neikvæða ímynd er ekki eftirsóknarverð. Starf sem hefur á sér neikvætt orðspor er ekki eftirsóknarvert. Með þessu átaki viljum freista þess að breyta umræðunni og minna á að vöruflutningar eru nauðsynlegur hlekkur í gangverki samfélagsins. Það vill gleymast að traustir landflutningar eru forsenda þess að hægt er að halda uppi atvinnulífi og þjónustu um allt land sem nútíma íslendingar geta sætt sig við. Það er nauðsynlegt að almenningur líti ekki á vöruflutningabílana á þjóðvegunum sem óþægilega ógnun heldur sem samherja sem gera lífið í landinu þægilegra. Við viljum að vöruflutningabílstjórar geti áfram verið stoltir af starfi sínu og geti borið höfuðið hátt. Um leið hvetjum þá til að sýna gott fordæmi og vera til fyrirmyndar í umferðinni.

Undanfarin misseri höfum við öll heyrt sögur af mistökum flutningabílstjóra í umferðinni. Af umræðunni mætti ráða að atvinnubílstjórar séu upp til hópa vondir menn. Síðast var Staksteinum Morgunblaðsins varið í að gagnrýna þetta kynningarátak og bent á að flutningabílstjórar væru til vandræða í umferðinni. Það er slæmt fyrir heila atvinnugrein að sitja undir slíkum yfirlýsingum. Ég efast ekki um að í þessari stétt eins og öðrum megi finna einstaklinga sem eru ekki til fyrirmyndar. Ég er hins vegar sannfærð um að hinir, sem vanda sig og eru til fyrirmyndar í umferðinni, eru í miklum meirihluta. Það skiptir miklu máli að þessir menn fái að njóta sannmælis þannig að við getum áfram notið starfskrafta þeirra. Það er ekki síst þess vegna sem farið var af stað í átakið …við erum á ferðinni fyrir þig.