Atvinnubílstjórar deyjandi stétt?

nwb006551.jpg Forstöðumaður flutningasviðs SVÞ sat fund í Brussel í vikunni þar sem umræðuefnið var skortur á atvinnubílstjórum. Fundurinn var haldinn að frumkvæði flutningahóps BUSINESSEUROPE – Heildarsamtaka Atvinnulífsins í Evrópu. Talið var brýnt að kalla saman hóp hagsmunaaðila til að fjalla um þetta málefni sérstaklega þar sem skortur á atvinnubílstjórum er það málefni sem veldur flutningsfyrirtækjum í Evrópu mestum áhyggjum nú um stundir.

Menn hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála og nefnd voru dæmi annars vegar um fyrirtæki þar sem 40% af bílaflota fyrirtækja væru ekki í notkun þar sem bílstjórar fengjust ekki til starfa og hins vegar af fyrirtæki þar sem starfsmannavelta bílstjóranna var 100% á einu ári. Meðalaldur atvinnubílstjóra fer hækkandi í öllum löndum álfunnar og virðist staðan í greininni alls staðar vera sú sama. Þetta er að gerast á sama tíma og eftirspurn eftir atvinnubílstjórum eykst sífellt. Vöxtur í flutningum á alþjóðavísu er og hefur verið mikill um langa hríð og engin merki um annað en að sú þróun haldi áfram eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það segir sig sjálft að þetta tvennt fer illa saman, þ.e. gríðarlegur vöxtur í atvinnugreininni og þar af leiðandi aukin þörf fyrir atvinnubílstjóra á sama tíma og þeim fækkar sífellt sem vilja stunda þessa atvinnugrein.

Það kom berlega í ljós á fundinum að ástæður þessa telja menn ekki síst vera það lagaumhverfi sem Evrópusambandið hefur búið þessari stétt á undanförnum árum. Aksturs- og hvíldartímareglur voru tilnefndar sem ástæða af öllum fundarmönnum og augljóst að óánægja með þær reglur einangrast ekki við Ísland. Athygli vekur m.a. sú staðreynd, að aksturs- og hvíldartímareglur voru settar fyrst og fremst til að auka öryggi í umferðinni. Fátt er betur til þess fallið að auka umferðaröryggi hvað atvinnubílstjóra varðar en mannval og reynsla bílstjóra – ef reglurnar hafa orðið til þess að draga úr aðsókn í greinina og auka flótta úr henni virðist augljóst að reglurnar hafa þveröfug áhrif.

Það var niðurstaða hópsins að nauðsynlegt væri að rannsaka hver væri undirliggjandi ástæða þess að staðan er eins og hún er. Af hverju er svo erfitt sem raun ber vitni að fá bílstjóra til starfa? Fulltrúi IRU – Alþjóðasambands landflutninga sat fundinn og sagði hann samtökin hafa fullan hug á að hafa frumkvæði, – mögulega í samstarfi við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, um slíka rannsókn. Hann taldi augljóst að það væri mikil þörf á að efla ímynd atvinnugreinarinnar og sagði að til þess að snúa þessari þróun við og auka eftirspurn eftir bílstjórastarfi þyrfti bæði að horfa til stjórnvalda og ekki síður þyrftu flutningsfyrirtækin að endurskoða hlutverk bílstjóra innan flutningakeðjunnar. Það væri staðreynd að starf trukkabílstjóra hefði breyst mjög á undanförnum árum. Það væri áhugavert að velta því fyrir sér að til þess að verða pípulagningamaður, kokkur, bakari eða smiður þá þyrfti að fara í skóla, en engu slíku væri til að dreifa til að geta orðið bílstjóri. Hann taldi augljósa þörf á því að búa til menntastofnun fyrir atvinnubílstjóra því slík stofnun væri ekki til í Evrópu.

Samstarf SVÞ við BUSINESSEUROPE innan flutningahópsins er mjög áhugavert, ekki síst vegna þess að í ljós kemur að vandamálin sem greinin á við að etja hér heima eru nákvæmlega þau sömu og fyrirtækin í Evrópu eru að berjast við. Það leynist engum að sú gríðarlega aukning sem orðið hefur, og sem gert er ráð fyrir að haldi áfram í flutningum, hvort heldur er á vegum, sjó eða í lofti skapar mörg vandamál sem brýnt er að eiga viðræður um við stjórnvöld. BUSINESSEUROPE hefur beinan aðgang að Framkvæmdastjórn Evrópusambandins og með þessu samstarfi eygjum við möguleika til að hafa áhrif á laga- og reglugerðarumhverfið sem við fáum meira og minna yfir okkur sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. SVÞ munu fylgjast vel með þróun þessara mála og leitast við að koma sjónarmiðum aðildarfyrirtækja á framfæri sem víðast.

(Grein úr Fréttapósti SVÞ 31.08. 2007)