Aukinn kaupmáttur og vaxandi væntingar er jafnan ávísun á aukna kaupgleði. Þess sjást meðal annars merki í neyslu á mat og drykk. Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar eykst velta í dagvöruverslunum jafnt og þétt. Í febrúar var velta dagvöruverslana 3% meiri en í sama mánuði í fyrra og að jafnaði hefur velta dagvöruverslana aukist um 6% síðustu 12 mánuði. Þar sem verð á matvælum fer lækkandi er magn þess sem keypt meira en velta í krónum gefur til kynna. Velta áfengisverslunar vex einnig og var 8% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra.
Athygli vekur að í hinum mikla hagvexti, sem að nokkru er drifinn áfram af aukinni neyslu, skuli velta í fataverslun dragast saman. Velta fataverslana var 12,4% minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á þessu tólf mánaða tímabili lækkaði samt verð á fötum um 7,3%.  Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar. Veltutölurnar byggja á upplýsingum frá öllum stærstu verslunarkeðjum, sem selja föt hér á landi. Sumar þeirra hafa lokað hluta af fataverslunum sínum.
Ætla má að hluti skýringar á minnkandi verslun með fatnað sé aukin netverslun frá útlöndum auk þess sem sterkar vísbendingar eru um að landsmenn kaupi stóran hluta fata þegar þeir ferðast til útlanda. Þetta á hins vegar ekki við um skóverslun því hún jókst um 23,7% í febrúar. Verð á skóm í síðasta mánuði var 6,1% lægra en í sama mánuði í fyrra.
Hraður vöxtur er jafnframt í húsgagnaverslun, sem jókst um 13,9% á tólf mánaða tímabili, og byggingavöruverslun, sem jókst um 14,2% frá febrúar í fyrra. Verð á húsgögnum fer lækkandi en verð á byggingavörum hækkaði lítillega í árssamanburði.
Eftir langt tímabil vaxtar í raftækjaverslunum og verslunum með skyldar vörur, virðist sem heldur hafi dragið úr vextinum. Sala á minni raftækjum, svokölluðum brúnum vörum, jókst vissulega um 10,3% í febrúar frá febrúar í fyrra en velta stærri heimilistækja var svipuð og í fyrra.
Greiðslukortavelta heimilanna innanlands var 57,2 milljarðar kr. í febrúar. Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 16,8 milljarðar kr. sem er næstum 30% af innlendu veltunni. Tölur um einstaka útgjaldaliði erlendar kortaveltu hér á landi sýnir að langstærstu upphæðir sem fara til verslana er til kaupa í dagvöruverslunum. Hins vegar virðist sem dragi úr vexti veltu á kaupum útlendinga á útivistarfatnaði, sem e.t.v. má rekja til styrkingar krónunnar að undanförnu. Athygli vekur að debetkortavelta Íslendinga í útlöndum jókst um 54% frá febrúar í fyrra, samkvæmt tölum Seðlabankans.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 8% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í febrúar um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í febrúar síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,4% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 7,3% lægra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 23,7% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 31,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 25% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 6,1% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 13,9% meiri í febrúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 19,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 12,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,8% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 14,2% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 14% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,1% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá minnkaði velta gólfefnaverslana um 1,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í febrúar um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 13,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 10,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 0,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.