VISIR.IS birtir í dag eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Mikilvægasta verkefnið við þær kjaraviðræður sem nú standa yfir er að ná tökum á þeirri miklu verðbólgu og því háa vaxtastigi sem íslenskt samfélag hefur verið að glíma við undanfarin misseri. Bæði verðbólgan og vextirnir hafa komið hart niður á heimilum jafnt sem fyrirtækjum eins og alkunna er. Markmiðið er að klára sem fyrst kjarasamninga sem skapað geta grundvöll að fyrirsjáanleika og stöðugleika í hagkerfinu, nokkuð sem allir munu njóta góðs af, bæði heimili og fyrirtæki, ekki síst þau fyrirtæki sem eru lítil og meðalstór. Aðilar vinnumarkaðarins eru sammála í þessu efni og það eru stjórnvöld einnig þó að nokkur meiningamunur kunni að vera um hvaða leiðir eru bestar í þessu efni.

Ef þetta markmið á að nást þurfa allir að spila með, ekki síst opinberir aðilar. Af þeirri ástæðu verður að gera kröfu um að opinberar stofnanir haldi aftur af sér við breytingar á gjaldskrám sínum og styðji þar með markmið kjarasamninga. Ef marka má viðbrögð forsvarsmanna ríkis og sveitarfélagana finna opinberir aðilar mjög til ábyrgðar sinnar í þessu efni og er það vel.

Það er a.m.k. ein ríkisstofnun sem finnst hún undanþegin því að taka þátt í þessu sameiginlega verkefni, en það er Lyfjastofnun. Stofnunin hefur það hlutverk m.a að hafa eftirlit með starfsemi lyfjafyrirtækja, bæði á smásölu- og heildsölumarkaði og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar starfa þar „rúmlega 85 manns“.

Kostaður við rekstur Lyfjastofnunar er að verulegu leyti borin uppi af lyfjafyrirtækjunum, en gjaldskrá stofnunarinnar er mikil að vöxtum. Allar breytingar á gjaldskrá stofnunarinnar hafa því áhrif á lyfjaverð á Íslandi með beinum eða óbeinum hætti. Gjaldskrá Lyfjastofnunar hækkaði um 8,7% nú um áramótin, sem er langt umfram það sem telst ásættanlegt í viðræðum aðila vinnumarkaðarins um nýjan kjarasamning.

Ef víðtæk sátt á að nást í baráttunni gegn verðbólgu og háum vöxtum verða allir að leggja sitt af mörkum – einnig Lyfjastofnun.

Sjá grein inná VISIR.is