Rætt er við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ, í Viðskiptablaðinu þann 12. desember sl. um rétt til dráttarvaxta vegna ofgreiðslu opinberra gjalda, sem áætlað er að taki breytingum með nýrri heildarlöggjöf um innheimtu skatta og gjalda. Breytingin er m.a. studd þeim rökum að sumir gjaldendur átti sig ekki á því að rétturinn sé til staðar.

Í grein Viðskiptablaðsins segir m.a.: „Loku verður skotið fyrir það að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér það að leik að oftelja viljandi skattstofna með það að marki að gera síðan endurkröfu á ríkið og njóta ávöxtunar á féð í formi dráttarvaxta.“

„Benedikt bendir á að þegar núgildandi endurgreiðslulög voru sett hafi verið vangaveltur um það að dráttarvextir yrðu skilyrðislaust greiddir þegar ofgreiðsla hefði átt sér stað. Hins vegar hafi sú leið verið farin að gjaldendur þyrftu að setja fram kröfu um endurgreiðslu til að fyrirbyggja að ekki væri verið að oftelja að gamni sínu.

„Nú verður það stjórnvalda að ákveða hvenær ofgreiðsla virkjar rétt til dráttarvaxta. Það er ekki hægt að sætta sig við slíkt. Af skoðun á dómaframkvæmd má ráða að þeir sem eignast inneign samkvæmt dómum eru undantekningalaust gjaldendur sem hafa staðið rétt að greiðslu skatta og greitt þær kröfur sem yfirvöld hafa sett fram. Þessi hópur á ekki að lýða fyrir það bótalaust með því að fá ekki dráttarvexti á ofgreiðslur eða oftekin gjöld,“ segir Benedikt.“

Úrdrátt úr greininni má sjá á vef vb.is hér og greinina í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu sem út kom 12. desember sl.