Bestu framkvæmdarreglur

Í upphafi ársins var settur saman vinnuhópur innan okkar raða sem hefur það eina markmið að setja saman svokallaðar bestu framkvæmdareglur (e.: best practice) varðandi frágang á farmi. Hópurinn samanstendur af öryggisstjórum aðildarfyrirtækja SVÞ í vöruflutningum á vegum. Ætlunin er að setja saman reglur sem miðast við það sem best gerist erlendis og að innleiða þær reglur innan atvinnugreinarinnar. Þannig vill landflutningageirinn gera kröfur til sjálfs og að hafa þessi mál í lagi. Vinnan er komin í fullan gang sem þýðir að greinin ætlar sér að taka þetta mál föstum tökum. Það er ljóst að þetta starf mun taka nokkurn tíma, en öllu máli skiptir að byrjað er að greina vandann og takast á við hann. 

Í grein í Mbl. í morgun er haft eftir mér að reglugerðin um frágang á farmi sé handónýt og má ætla af lestri hennar að atvinnugreinin hafi eingöngu tekið við sér vegna þess að reglugerðin segi ekki til um hvernig þetta skuli vera. Mér þykir mjög miður að málið sé lagt upp með þessum hætti. Við lítum ekki svo á að landflutningamenn geti fríað sig ábyrgð af málinu með því að fela sig á bak við gallaða reglugerð. Ábendingar blaðamanna og umfjöllun í blöðum á haustmánuðum urðu til þess að við kveiktum á perunni að eitthvað varð að gera í málaflokknum og það strax. Þess vegna var vinnuhópurinn skipaður, sem hlýtur að teljast jákvætt skref af hálfu greinarinnar.

Orðanotkunin handónýt reglugerð var óheppileg og ónákvæm og beðist er velvirðingar á því. Reglugerðin getur verið gölluð en það er ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að vandaður frágangur á farmi er atriði sem landflutningagreinin hefur ekki lagt nægilega áherslu á en nú stendur til að bæta úr því. Jafnframt þarf að skoða hvort ástæða er til að breyta einhverju í reglugerð um frágang farms í flutningum ef með því móti er hægt að auka öryggi í umferðinni. Reglugerðin þarf að vera einföld og skýr og snúast um aðalatriði þannig að störf bifreiðastjóra og lögreglu eða öðrum sem með eftirlit fara séu auðvelduð störf sín.

(Grein þessi birtist í Mbl. 4.02. 2007)