Upptaka af fyrirlestri um vellíðan á vinnustað

Upptaka af fyrirlestri um vellíðan á vinnustað

SVÞ og Fransk-íslenska viðskiptaráðið héldu í síðustu viku hádegisfyrirlestur með innanhússstílistanum Caroline Chéron hjá Bonjour. Fyrirlesturinn var vel sóttur og í honum fjallaði Caroline um ýmislegt varðandi hönnun vinnurýmist til að hafa áhrif á vellíðan starfsfólks og viðskiptavina. Hún fór m.a. yfir uppröðun í rýmum, liti, form og fleira gagnlegt og áhugavert.

Caroline vinnur bæði fyrir heimili og fyrirtæki og hefur unnið með fjölda fyrirtækja að því að bæta vinnurými til að auka vellíðan starfsmanna og viðskiptavina.

Þú getur séð myndir frá fyrirlestrinum hér á Facebook síðu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins og upptöku frá fyrirlestrinum hér fyrir neðan.

Fræðslufundur MAST: Breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti

Fræðslufundur MAST: Breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti

Matvælastofnun heldur fræðslufund um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti til Íslands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 13:00 – 15:00 í húsnæði stofnunarinnar að Dalshrauni 1b í Hafnarfirði.

Markmið fundar er að upplýsa um þær reglur sem brátt taka gildi um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og þær kröfur sem innflytjendur og dreifingaraðilar þurfa að uppfylla. Farið verður yfir viðbótartryggingar vegna salmonellu og sérreglur um kampýlóbakter.

Dagskrá:

  • Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands
  • Staðan á Íslandi og í Evrópu
  • Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Eftirlit og viðurlög

Fundurinn er ætlaður matvælafyrirtækjum, einkum þeim sem flytja inn og dreifa hráum dýraafurðum, og öðrum áhugasömum.

Tilefni fundar er afnám frystikröfu og leyfisveitingar á innfluttum hráum dýraafurðum í kjölfar EFTA dóms.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að sérreglum um kampýlóbakter í alifuglakjöti og öflun viðbótartrygginga vegna salmonellu í samstarfi við Matvælastofnun. Í upphafi ársins samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu kjúklinga- og kalkúnakjöti og eggjum. Viðbótartrygging vegna salmonellu í innfluttu svína- og nautakjöti var samþykkt á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar 25. október sl.

Fræðslufundurinn er opinn öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Honum verður streymt í gegnum Neytendavakt Matvælastofnunar á Facebook og upptaka gerð aðgengileg þar og á vef Matvælastofnunar að fundi loknum.

Upptaka: Mannlegi þátturinn mikilvægastur í netglæpavörnum

Upptaka: Mannlegi þátturinn mikilvægastur í netglæpavörnum

Skýrt kom fram í erindum á framhaldsfundi SVÞ um netglæpi að mannlegi þátturinn er mikilvægasta vörnin. Á fundinum, sem var beint framhald fyrri fundar SVÞ um tölvuglæpi 16. október þar sem fullt var út úr dyrum, héldu fulltrúar Íslandsbanka, Landsbankans og Deloitte erindi.

Miklu algengara er að tölvuþrótar komist inn í kerfi fyrirtækja í gegnum starfsfólk heldur en með tæknilegum leiðum í gegnum kerfin sjálf. Því er mjög mikilvægt að fyrirtæki þjálfi starfsfólk sitt í vörnum gegn netglæpum. Mörg fyrirtæki, einkum verslanir, hafa lengi þjálfað starfsfólk til varna gegn þjófnaði, en þjálfun gegn netglæpum er í raun enn mikilvægari því upphæðirnar sem um ræðir eru mun hærri. Þetta sést t.d. vel á tveimur nýlegum málum, en í haust birtust fréttir af því að Rúmfatalagerinn hafi tapað nærri 900 milljónum króna og HS Orka hátt í 400 milljónum vegna netglæpa. Upphæðir sem tapast vegna þjófnaða í verslunum fölna í samanburði við þessar tölur.

Auk þjálfunar starfsfólks kom einnig fram í erindunum að tveggja þátta auðkenning (e. two-factor authentication) væri lykilatriði til varnar netglæpum, en skv. rannsókn Deloitte eru einungis um 1/4 hluti fyrirtækja að nýta slíka auðkenningu.

Félagar í SVÞ geta nú séð upptöku af fyrirlestrunum og nálgast eintak af glærum þeirra Vilhelms Gauta Bergsveinssonar og Úlfars Andra Jónassonar frá Deloitte í lokuðum Facebook hóp SVÞ félaga hér. Athugið að til að fá aðgang þarftu að svara nokkrum spurningum svo við getum tryggt að þú sért starfsmaður aðildarfyrirtækis.