Horfðu á upptökuna! Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði

Horfðu á upptökuna! Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði

Í tilefni af aðalfundi SVÞ var frumsýndur þátturinn Uppfærum Ísland – stafræn umbreyting eða dauði, fimmtudaginn 18. mars kl. 10:00.

Stafræn þróun, ásamt þróun til aukinnar sjálfbærni, er stærsta umbreytingaverkefni sem íslenskt atvinnulíf og vinnumarkaður standa frammi fyrir. Nauðsynlegt er að íslenskt samfélag í heild taki sig saman til að styðja þá umbreytingu, þar sem samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæði okkar allra eru undir. Í þættinum var fjallað um áhrif stafrænnar umbreytingar, þau tækifæri og áskoranir sem í henni felast, stöðu íslensks atvinnulífs á því sviði og það verkefni sem við eigum fyrir höndum að uppfæra Ísland.

Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar um áhrif stafrænnar umbreytingar fyrir íslenskt atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag, hlutverk stjórnvalda í stuðningi við atvinnulífið á þessari vegferð og hvað íslensk stjórnvöld hyggjast gera á því sviði. Einnig var rætt við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og forstjóra Olís um stöðu íslensks atvinnulífs í stafrænni umbreytingu og nauðsynlegar aðgerðir.

Frændfólk okkar á Norðurlöndunum eru undantekningarlaust í topp 10 sætunum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Í þættinum skyggndumst við inn í hvernig hlutirnir eru gerðir þar og ræddum við fulltrúa Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um mikilvægi stuðnings stjórnvalda við atvinnulífið, hvað verið er að gera í viðkomandi landi o.fl. Viðmælendur okkar frá Norðurlöndunum  voru: Hanna Marttinen-Deakins, Senior Director, Digitalisation, Business Finland Jan Damsgaard, Professor við stafrænu deildina í Copenhagen Business School, fulltrúi í danska Disruption ráðinu á vegum stjórnvalda og stjórnarmaður í SMV:Digital Lena Carlsson, Deputy Director General, Regeringskansliet, Infrastrukturdepartmentet (innviðaráðuneytið), Digital Society Division í Svíþjóð. Lena fer fyrir stafrænum stefnumálum sænsku ríkisstjórnarinnar. Paul Chaffey, Statssekretær, Kommunal- og moderniseringsdepartmentet, helsti ráðgjafi ráðherra stafrænna mála í Noregi

Fagnám fyrir starfandi verslunarfólk

Fagnám fyrir starfandi verslunarfólk

Hefur þú kynnt þér fagnám verslunar- og þjónustu við Verzlunarskóla Íslands fyrir þitt starfsfólk?

Námið er 90 einingar og er blanda af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjunum. Umsækjendum stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga og styttingar á námi sínu. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.

 

Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar

Metþátttaka á vefverslunarráðstefnu og aðgangur opnaður enn frekar

Metþátttaka á vefverslunarráðstefnu og aðgangur opnaður enn frekar

Vel yfir 600 manns eru skráðir á vikulanga ráðstefnu SVÞ og KoiKoi fyrir vefverslanir sem nú stendur yfir og vakið hefur mikinn áhuga.  

Netverslun hefur aukist gríðarlega í kjölfar COVID-19. Fulltrúar SVÞ hafa áður lýst ánægju sinni með þróunina en jafnframt áhyggjum af gæðum netverslunar þegar margir flýta sér í þá vegferð sökum ástandsins. Því var ákveðið, í samstarfi við vefverslunarsérfræðingana í KoiKoi að efna til veglegrar vefverslunarráðstefnu sem opin yrði öllum endurgjaldslaust á netinu með því markmiði að efla gæði íslenskrar netverslunar. Innan SVÞ er fjöldi aðildarfyrirtækja með sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum sem tengjast netverslun og því hæg heimatökin að fá góða aðila til að fjalla um þessi mál.  

„Það er ljóst að ímynd íslenskrar netverslunar byggist á gæðum allra netverslana hérlendis, smárra sem stórra, og sú ímynd hefur áhrif á upplifun viðskiptavina af íslenskri vefverslun og þar með velgengni hennar í heild. Það er því ekki nóg fyrir okkur að fræða félagsmenn okkar um þessi mál, heldur þurfum við að breiða boðskapinn víðar, og þetta er ein leiðin til þess.“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ. Hún bendir á að þetta sé þó aðeins lítið brot af því sem samtökin geri til að efla íslenskar verslanir, þó að þetta sé mikilvægt innlegg. 

„Íslensk verslun mætir síharðnandi samkeppni frá erlendum netverslunarrisum og eina leiðin til að mæta því er með því að efla íslenskar netverslanir svo að innlendir neytendur sjái þær sem vænlegan kost. Okkur er því ljúft og skylt að styðja við greinina í heild, enda hagsmunir íslenskrar verslunar, og fjölda starfa innan hennar, í húfi.“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna. 

Ráðstefnan stendur yfir út vikuna. Skráningu lauk um helgina en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að opna ráðstefnuna líka fyrir þeim sem ekki náðu að skrá sig í tíma. Upplýsingar má finna á www.svth.is/voxtur-og-bestun-vefverslana