Við minnum á að nú má ekki lengur gefa burðarpoka

Við minnum á að nú má ekki lengur gefa burðarpoka

Frá og með 1. september nk. verður verslunum alfarið óheimilt að gefa viðskiptavinum burðarpoka. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og ekki skiptir máli úr hvaða efni þeir eru. Koma verður fram á kassakvittun hvert endurgjaldið er.

Nokkurs ruglings hefur gætt um þær breytingar sem eru að eiga sér stað því eftir rúmlega eitt og hálft ár, þ.e. hinn 1. janúar 2021, tekur gildi algert bann við afhendingu burðarpoka úr plasti jafnvel þó endurgjald verði innheimt fyrir afhendingu þeirra. Frá og með þeim tíma verður hins vegar heimilt að afhenda burðarpoka úr öðru en plasti, en þá eingöngu gegn endurgjaldi.

Með burðarpoka úr plasti er átt við alla burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts. Bannið nær ekki til lífbrjótanlega poka úr maís sem ekki innihalda plast eða poka úr pappír. Slíka poka má afhenda gegn endurgjaldi frá og með 1. september nk. og það mun ekki breytast.

Skyldan til að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær aðeins til burðarpoka, þ.e. poka sem eru afhentir neytendum á sölustað, hvort sem þeir eru með eða án halda. Þetta hefur ekki áhrif á poka sem t.d. eru seldir á rúllum, í pökkum eða öðrum sölueiningum í verslunum, s.s. ruslapoka, poka fyrir gæludýraúrgang eða klakapoka.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman afar gagnlegar upplýsingar um málið sem gott er að glöggva sig á: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=f178b0cc-2b5a-4861-9c4c-cc446b1a6443

Máltækni – hvaða máli skiptir hún fyrir fyrirtæki?

Máltækni – hvaða máli skiptir hún fyrir fyrirtæki?

Manneskjan er í sífellt auknum mæli farin að tala við allskonar tól og tæki. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði á síðasta ári samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar. Markmið áætlunarinnar er að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar.

En hvaða máli skiptir þetta fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu?

Við fáum til okkar Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms sem segir okkur frá verkefninu eins og það snýr að fyrirtækjum. Erindið ber yfirskriftina Rödd fólksins – máltækni í daglegu lífi.

Einnig kemur til okkar Arnar Gísli Hinriksson, frá netmarkaðsstofunni DigiDo. Leit á netinu fer sífellt meira fram með röddinni og nauðsynlegt er orðið fyrir fyrirtæki að leitarvélarbesta með það í huga. Það sem meira er, niðurstöður leitarinnar eru og verða í sífellt meira mæli veittar með raddskilaboðum frá aðilum eins og Siri, Alexa, Google Home og fleiri og eru svörin þá almennt bara það eina efsta sem kemur upp í leitinni. Þetta mun hafa sífellt meiri áhrif fyrir íslensk fyrirtæki í samkeppni við stóra erlenda risa á leitarvélunum. Arnar mun ræða þessa stóru áskorun, hvort eitthvað er til ráða og þá hvað.

Hvenær: Fimmtudagur 29. ágúst 2019

Hvar: Hylur, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

SKRÁNING HÉR:

 

* indicates required
Fylgstu með!

Hamingjuóskir með skólasetningu náms í tölvuleikjagerð hjá Keili

Hamingjuóskir með skólasetningu náms í tölvuleikjagerð hjá Keili

Menntaskólinn á Ásbrú var settur við hátíðlega athöfn þann 19. ágúst en þar er í fyrsta skipti á Íslandi boðið upp á nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð. Tæplega eitt hundrað nemendur sótt um í námið og þeir 45 sem fengu skólavist hófu námið núna.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra setti skólann formlega, Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú kynnti námið og Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis hélt ávarp. Menntaskólinn á Ásbrú er hluti af Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, en Keilir er aðili að Samtökum verslunar og þjónustu.

Við óskum Keilisfólki innilega til hamingju með þennan frábæra áfanga! Við vonum að þetta sé vísir af því námsframboði sem koma skal innan íslensk menntakerfis sem tengir saman menntastofnanir og atvinnulífið á öflugan hátt okkur öllum til heilla.

Þórdís Kolbrún gestur 200. stjórnarfundar SVÞ

Þórdís Kolbrún gestur 200. stjórnarfundar SVÞ

200. stjórnarfundur SVÞ var haldinn fyrir skömmu og var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra gestur þess fundar. Ráðherra fór vítt og breytt yfir sviðið og ræddi þau málefni sem hæst ber í hagsmunum verslunar- og þjónustufyrirtækja. Meðal þeirra málefna sem rædd voru á fundinum voru skattmál, samkeppnisstaða í breyttu viðskiptaumhverfi, útvistun verkefna frá ríki til einkaaðila, fjórða iðnbyltingin og allar þær áskoranir sem henni fylgja.

Ráðherra gaf sér góðan tíma með stjórn samtakanna og urðu á fundinum bæði góðar og málefnalegar umræður um bæði málefni sem snúa beint að hagsmunum fyrirtækja innan SVÞ og að atvinnulífinu almennt. Lýstu stjórnarmenn yfir mikilli ánægju með heimsókn ráðherra og vonuðust eftir góðu á nánu samstarfi við hana og ráðuneyti hennar í framtíðinni.