Breyting á Evrópulöggjöf gæti haft áhrif á afslætti í desember

Breyting á Evrópulöggjöf gæti haft áhrif á afslætti í desember

Hinn 27. nóvember sl. staðfestu Evrópuþingið og ráðið tilskipun (EU) 2019/2161 sem inniheldur breytingar á Evrópulöggjöf og á að bæta framfylgd aðildarríkjanna á ákvæðum um neytendavernd. Ákvæði tilskipunarinnar snúa m.a. að viðurlögum við brotum á evrópskri neytendalöggjöf og ýmsum þáttum sem snerta netverslun bæði innan einstakra ríkja og milli ríkja á EES-svæðinu.

Athygli vekur að í 2. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem gæti með óbeinum hætti dregið úr svigrúmi verslunarmanna til að bjóða afslætti. Efnislega er í ákvæðinu kveðið á um þá meginreglu að í auglýsingum um tilboð eða afslætti skuli koma fram á hvaða verði varan hefur áður verið seld. Það verð sem þannig á að tilgreina sem fyrra verð er lægsta útsöluverð síðustu 30 daga.

Í Danmörku hafa fjölmiðlar og verslunarmenn velt því fyrir sér hvort slík regla muni takmarka eða jafnvel útrýma möguleikum verslunarinnar til þess að bjóða vörur á tilboði eða afsláttum í desember í ljósi sérstakra tilboðsdaga í nóvember, t.d. „Black-Friday“ eða „Singles-day“. Tilskipunin kemur til framkvæmda í ríkjum ESB hinn 28. maí 2022 en upptaka hennar í EES-samninginn er enn á skoðunarstigi á EES-EFTA ríkjunum.

Mikilvæg tilkynning varðandi falsaða seðla

Mikilvæg tilkynning varðandi falsaða seðla

Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu vill vekja athygli á eftirfarandi upplýsingum frá lögreglu:

Um helgina tókst nokkrum aðilum að koma nokkuð af evru seðlum í umferð. Aðferðin sem að þeir beittu var að fara með háa seðla, 100 og 200 evrur og versla lítið eitt með þeim.

Fljótt á litið eru þetta sambærilegir seðlar evrum. En þeir standast enga nánari skoðun ef vitað er hverju á að horfa eftir. Svo virðist sem það sé hægt að kaupa búnt af svona „ekki seðlum“ í Rússlandi.

Þegar seðlarnir eru skoðaðir er nauðsynlegt að horfa til eftirfarandi þátta sem eru útskýrðir nánar í skjalinu sem hlaða má niður hér fyrir neðan.

  • Letur seðlanna er á rússnesku og R ið í EURO er öfugt
  • Áferð seðlanna er ekki eins og venjulegir seðlar þ e pappírinn er annar
  • Alla öryggisþætti vantar í seðlana

Ef vart verður við þessa seðla skal tilkynna það til lögreglu á netfangið jokull@lrh.is

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ FÁ SKJAL MEÐ NÁNARI UPPLÝSINGUM FRÁ LÖGREGLUNNI – Þ.Á.M. MYNDUM SEM SÝNA HVAÐ BER AÐ VARAST

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Við setningu Læknadaga 2020 í Hörpu skrifuðu Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, undir uppfærðan samning um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. Siðareglurnar byggja á nýuppfærðum reglum EFPIA – Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Nokkur reynsla er komin á reglur sem þessar og hafa þær sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum framleiðenda lyfja og heilbrigðisstarfsfólks. Samkomulagið sem nú hefur verið uppfært og undirritað byggir á grunni fyrra samkomulags frá árinu 2013.

Sjá má umfjöllun um málið á Hringbraut/Fréttablaðinu hér.

Upptökur frá menntamorgni um rafræna fræðslu

Upptökur frá menntamorgni um rafræna fræðslu

Þann 22. janúar var haldinn Menntamorgunn atvinnulífsins þar sem haldið var áfram að fjalla um rafræna fræðslu.

Kolbrún Magnúsdóttir, fræðslu- og starfsþróunarstjóri Bláa Lónsins fór yfir vegferð Bláa Lónsins í stafrænni fræðslu, hvert fyrirtækið er komið, hverju það hefur breytt og þau tækifæri sem þau sjá búa í rafrænni fræðslu.

Sigurjón Hákonarson, framkvæmdastjóri Taekninám.is ræddi helstu áskoranir og lærdóm sem fyrirtækið hefur dregið af því að framleiða stafrænt námsefni síðustu tvö ár.

Og að lokum var erindi Ingu Steinunnar Björgvinsdóttur, markaðsstjóra Promennt og Bryndísar Ernstdóttur, ráðgjafa á mannauðssviði Advania þar sem fram komu hugleiðingar og hagnýt atriði í gerð rafræns fræðsluefnis.

Upptöku frá fundinum má sjá hér fyrir neðan: