Nýr formaður og fjórir nýir stjórnarmenn hjá SVÞ

Nýr formaður og fjórir nýir stjórnarmenn hjá SVÞ

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í dag á Hilton Nordica. Alls bárust sjö framboð um almenna stjórnarsetu en kosið var um fjögur sæti fyrir kjörtímabilið 2019-2021.

Á fundinum var lýst kjöri fjögurra meðstjórnenda, en þeir eru Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts, Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint ehf., Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar og Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku ehf. Elín Hjálmsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðssviðs Eimskips og Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri Samkaupa sitja áfram í stjórn.

Á fundinum lét Margrét Sanders af störfum sem formaður SVÞ. Nýr formaður er Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís en Jón Ólafur hefur setið í stjórn SVÞ sl. 2 ár.

„Ég er stoltur og þakklátur það traust sem mér er sýnt af aðildarfyrirtækjum SVÞ.”, segir Jón Ólafur Halldórsson, nýr formaður. „Ég hef undanfarin ár starfað á vettvangi stjórnar SVÞ að málefnum sem snúa að hagsmunum verslunar og þjónustu. Það eru miklar áskoranir framundan í stafrænni verslun og sjálfvirknivæðingu og ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum og taka þátt í þeirri vinnu sem er að móta umhverfi verslunar og þjónustu til næstu framtíðar. Samtök verslunar og þjónustu hafa á undanförnum árum barist fyrir mörgum stórum hagsmunamálum fyrir neytendur s.s. afnám vörugjalda og tolla. Ég mun leggja áherslu á að samtökin haldi áfram á þeirri braut að auka frelsi í viðskiptum, draga úr opinberum umsvifum og að þeim verkefnum verði útvistað í auknum mæli til einkafyrirtækja og ekki síst, að berjast gegn félagslegum undirboðum og svarti atvinnustarfsemi”.

Örráðstefna: Bylting í stjórnun – hamingja@vinnustað

Örráðstefna: Bylting í stjórnun – hamingja@vinnustað

Það er óumdeilanlegt að menning fyrirtækja og hamingja á vinnustað fela í sér mikinn ávinning – en samt reynist það áskorun fyrir mörg fyrirtæki að þróa menningu sína og skapa hamingju á vinnustað til leysa úr læðingi þann ávinning sem henni fylgir.

Hvers vegna að setja fókus á menningu fyrirtækja og hamingju á vinnustað?

Hvað er hamingja á vinnustað?

Hvernig er hægt að vinna að því að skapa sveigjanleika, nýsköpun og hamingju á vinnustað?

Manino, Festa, VIRK og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sameina krafta sína í að fjalla um málefnið og við fáum reynslusögu úr atvinnulífinu um þróun hamingju á vinnustað.

 

Dagskrá: 

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdstjóri Festu: Á morgun verður í dag í gær – hamingja á tímum fjórðu inðbyltingarinnar

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK: Getum við öll verið VelVIRK?

Maríanna Magnúsdóttir, Manino: Bylting í stjórnun! – Hamingja@vinnustað

Pétur Hafsteinsson, fjármálastjóri Festi: Reynslusaga um þróun hamingja@vinnustað

Skráning hér:

* indicates required
Greg Williams í viðtali í Markaðnum

Greg Williams í viðtali í Markaðnum

Markaðurinn birtir í dag, 13. mars, viðtal við Greg Williams aðalritstjóra tímaritsins WIRED, í tilefni af komu hans til Íslands. Greg verður aðalræðumaður á opinni ráðstefnu SVÞ undir yfirskriftinni Keyrum framtíðina í gang! sem haldin verður á Hilton Nordica, á morgun, 14. mars kl. 14:00.

Í viðtalinu ræðir Greg m.a. um hvernig tæknibreytingar nútímans hafa það í för með sér að stórfyrirtæki verði fallvaltari, og bendir m.a. á í því samhengi að á markaði þar sem bandaríski risinn Honeywell hafi áður verið allsráðandi séu nú hátt í 70 fyrirtæki í samkeppni. Einnig leggur hann áherslu á að landfræðilegar breytingar séu að hverfa og að „við lifum ekki lengur í heimi þar sem fólk ber okkur saman við jafningja. Það er verið að bera þig saman við þá bestu sama í hvaða bransa þú ert.“ Hvoru tveggja hefur mikil áhrif á íslensk fyrirtæki, þar sem tækifæri opnast á nýjum mörkuðum, en jafnframt standa þau frammi fyrir aukinni alþjóðlegri samkeppni.

Viðtalið má lesa í heild sinni á bls. 9 í Markaðnum í dag og hér má nálgast blaðið á PDF formi.

Opin ráðstefna SVÞ, Keyrum framtíðina í gang!, verður haldin á Hilton Nordica á morgun kl. 14:00-16:00. Þar mun Greg halda fyrirlestur en einnig verður erindi frá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Köru connect ehf., Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra mun ávarpa ráðstefnuna ásamt Margréti Sanders, fráfarandi formanni SVÞ. Fundarstjóri verður Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um nýsköpunarstefnu Íslands. Skráning fer fram hér: https://svth.is/keyrum-framtidina-i-gang/

Þorbjörg Helga vill keyra framtíðina í gang!

Þorbjörg Helga vill keyra framtíðina í gang!

Í tilefni af opinni ráðstefnu SVÞ á morgun, fimmtudaginn 14. mars, var Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Köru connect ehf., í viðtali hjá Heimi og Gulla Í bítinu á Bylgunni í morgun.

Óhætt er að segja að Þorbjörg hafi látið íslenskt atvinnulíf og opinbera geirann heyra það. Benti hún m.a. á skort á starfrænni stefnu fyrir Ísland og sagði okkur ekki vera eins framarlega og við höldum.

Viðtalið má heyra hér.

Ráðstefnan ber yfirskriftina Keyrum framtíðina í gang! og mun Þorbjörg Helga stíga á stokk, en aðalræðumaður er Greg Williams, aðalritstjóri tímaritsins WIRED. Frekari upplýsingar og skráning er hér: https://svth.is/keyrum-framtidina-i-gang/

Margrét Sanders í viðtali í Viðskiptablaðinu

Margrét Sanders í viðtali í Viðskiptablaðinu

Mynd: Haraldur Guðjónsson fyrir Viðskiptablaðið

Í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag, 28. febrúar, birtist veglegt viðtal við fráfarandi formann SVÞ, Margréti Sanders. Sjá má viðtalið í heild sinni í blaðinu en einnig hafa verið birtar greinar úr viðtalinu á vb.is. Hér fyrir neðan finnurðu hlekki í þær:

Verslunin nútímavæðist. Fráfarandi formatður SVÞ er ánægð með árangurinn í tollamálum en hefði viljað lækka launatengdu gjöldin.

Ný verslunarbraut í Verzló. Aukin menntun verslunarfólks og þjónusta er svar við erlendri samkeppni netrisa, að sögn fráfarandi formanns SVÞ.

Margrét Sanders hættir formennsku í SVÞ. Eftir að hafa verið formaður Samtaka verslunar og þjónustu frá árinu 2014 býður Margrét sig ekki fram á aðalfundi 14. mars.

Sveigjanleiki þýðir ekki hringl. Margrét Sanders fráfarandi formaður SVÞ segir aukinn sveigjanleika í vinnutíma starfsfólk jafna fjölskylduábyrgð foreldra.