SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ hefur sent inn umsögn sem styður þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands styðja einnig tillöguna.

Samtökin leggja í þessu sambandi sérstaka áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag. Mikilvægi samningsins verða seint ofmetin enda er öllum ljós sú mikla og jákvæða breyting sem orðið hefur á samfélaginu öllu þann aldarfjórðung sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Samningurinn veitir, sem kunnugt er, Íslendingum aðgang að þeim 500–600 milljón manna markaði sem er innri markaður ESB- og EFTA-ríkjanna. Það skiptir afar miklu að þessu farsæla samstarfi verði ekki teflt í tvísýnu. Sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu um það mál sem hér er til umfjöllunar, er með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og vekja athygli á mikilvægi málsins.

SVÞ telja mikilvægt að hafa í huga að orkulöggjöfinni er ætlað að efla samkeppni á því sviði sem löggjöfin nær til. Slíkt styrkir stöðu orkukaupenda, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, gagnvart þeim sem framleiða og dreifa orku. Eins og á öðrum sviðum þar sem virk samkeppni er til staðar, kemur það öllum kaupendum til góða, hvort sem er í formi betri þjónustu eða lægra verði. Sterkar vísbendingar eru um að samþykkt tillögunnar muni hafa ábata í för með sér.

Þeir annmarkar á innleiðingu þriðja orkupakkans sem teflt hefur verið fram í almennri umræðu að undanförnu eru illa skilgreindir og óljósir að mati samtakanna. Verði ákvörðunartaka um samþykkt tillögunnar byggð á tilvist þeirra er ekki einungis hætt við að meiri hagsmunum verði fórnað fyrir minni heldur einnig að ríkum og skýrum hagsmunum verði fórnað fyrir óljósa, illa skilgreinda og í öllu falli takmarkaða hagsmuni. Þar með yrði skýrum heildarábata fórnað af þarfleysu. Þeir hagsmunir sem Ísland og íslenskt samfélag hefur af því að af innleiðingu verði, eru í öllu tilliti mun ríkari, enda tekur orkupakkinn ekki yfirráð yfir orkuauðlindunum úr höndum íslensku þjóðarinnar.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni

 

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Nýr Facebook hópur hefur verið settur á laggirnar í tengslum við Faghóp stafrænnar verslunar innan SVÞ. Hópurinn er fyrir félagsmenn SVÞ sem hafa áhuga á efni tengdu stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum. Tilgangur hópsins er einkum að geta með öflugri hætti deilt sérhæfðu efni sem tengist stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum og að skapa vettvang fyrir félaga til að ræða málefni tengd stafrænni verslun.

Við bjóðum SVÞ félaga velkomna. Vinsamlegast smellið hér og sækið um inngöngu. Gefa þarf upp nafn fyrirtækis sem er aðili að SVÞ og netfang viðkomandi hjá því fyrirtæki. Athugið að lesa leiðarljós hópsins, þegar inn er komið, og sérstaklega þau gögn sem vísað er í varðandi samkeppnismál.

Góð aðsókn í nýja stafræna viðskiptalínu við Verzlunarskóla Íslands

Góð aðsókn í nýja stafræna viðskiptalínu við Verzlunarskóla Íslands

Næstkomandi haust hefst í Verzlunarskóla Íslands ný stafræn viðskiptalína á framhaldsskólastigi. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaðinum og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og gefur þeim innsýn í þau störf og þá hröðu þróun sem á sér stað innan verslunar og þjónustu.

Miklar framfarir og vöxtur stafrænnar tækni kallar á auknar kröfur um menntun á því sviði. Um leið verður slík menntun nauðsynleg fyrir atvinnugreinar sem vaxa ógnarhratt hvort heldur sem er í formi vefverslana eða annarra stafrænna þjónustulausna. Séreinkenni námslínunnar er annars vegar falin í nýjum áföngum er tengjast stafrænum lausnum, greiningu á gögnum og notagildi samfélagsmiðla í markaðssetningu og hins vegar vinnustaðanámi. Með vinnustaðarnáminu fá nemendur innsýn og þjálfun í þeim nýju störfum sem skapast hafa og munu halda áfram að skapast innan verslunar og þjónustu í kjölfar þeirrar hröðu starfrænu þróunar sem á sér stað.

Einungis 25 nemendur verða teknir inn í námið í haust en um 40 verðandi nemendur við Verzlunarskólann sóttu um. Námslínan er samvinnuverkefni Samtaka verslunar og þjónustu, Verzlunarskóla Íslands, VR og Starfsmenntasjóðs verslunar og skrifstofufólks. Unnið hefur verið að undirbúningi námsins sl. tvö ár að frumkvæði Samtaka verslunar og þjónustu.

Jól Ólafur segir fyrirkomulag fasteignagjalda galið

Jól Ólafur segir fyrirkomulag fasteignagjalda galið

Jón Ólafur Halldórsson segir fasteignagjöld, eins og þau eru nú, fráleit og ekki hægt að bjóða atvinnulífinu upp á þau. Fyrirkomulagið sé galið. Fyrirkomulagið sé með allt öðrum hætti á hinum Norðurlöndunum, þar sem menn séu með varúðarfærslur sem ekki séu til staðar hér. Auk þess séu boðaðar lækkanir borgarinnar allt of langt undan.

Jón Ólafur ræðir einnig breytingar í verslun, bæði í miðborg Reykjavíkur en einnig almennt.

Hlusta má á viðtalið við Jón Ólaf hér (hefst á ca. 9:50). 

Fullt út úr dyrum á stafrænni vegferð

Fullt út úr dyrum á stafrænni vegferð

Fullt var út úr dyrum á fyrilestri um þær áskoranir sem stjórnendur standa frammi fyrir við þróun og innleiðingu stafrænna lausna og áhri þeirra á menningu fyrirtækja. Helga Jóhanna Oddsdóttir frá Strategic Leadership og Tómas Ingason frá Icelandair fóru yfir mikið af gagnlegum atriðum fyrir stjórnendur og líflegar umræður sköpuðust á fundinum.

Félagar í SVÞ geta séð upptöku af fundinum á lokuðum Facebook hóp fyrir SVÞ félaga, en þangað var honum streymt beint í morgun. Athugið að sækja þarf um inngöngu og svara nokkrum spurningum svo að sannreyna megi að viðkomandi starfi hjá félagi sem aðili er að samtökunum.

Við erum alls ekki hætt því við tökum upp þráðinn eftir páska og eru starfsmenn okkar í óða önn að ganga frá þeirri dagskrá svo hefja megi kynningarstarf. Við hvetjum ykkur því til að fylgjast með hér á vefnum, vera skráð á póstlistann og fylgjast með á Facebook, Twittter og LinkedIn svo þið missið ekki af neinu!