Menntaverðlaun atvinnulífsins 2024 – opið fyrir umsóknir

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2024 – opið fyrir umsóknir

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu miðvikudaginn 14. febrúar 2024.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Athugið að einungis má tilnefna skráð aðildarfélög SA.

Tilnefningar berist í gegnum skráningarsíðu eigi síðar en þriðjudaginn 23. janúar.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtækis ársins eru:

 • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
 • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
 • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
 • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

 • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
  samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins .

SMELLTU HÉR TIL AÐ TILNEFNA ÞITT FYRIRTÆKI! 

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins & framtak ársins 2023

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins & framtak ársins 2023

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Landsvirkjun en framtak ársins á sviði umhverfismála á Carbon Recycling International.

Landsvirkjun

Umhverfisfyrirtæki ársins 2023

Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik.

Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni.

Fyrirtækið tekur hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gengur lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína í loftslags vegferðinni. Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP.

Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum.

Þar að auki hefur Landsvirkjun nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja. Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum.

Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023.

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist fyrir umfangsmikið starf Landsvirkjunar í umhverfis- og loftslagsmálum. „Í umhverfismálum þurfum við öll að vinna saman enda er ávinningurinn okkar allra og komandi kynslóða,“ sagði Jóna.

Meðfylgjandi er verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Landsvirkjun verðlaunin

Carbon Recycling International

Umhverfisframtak ársins 2023

Carbon Recycling International (CRI) hefur síðastliðin 15 ár skapað sér sérstöðu sem frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu. Emissions-to-liquid (ETL) tækni félagsins umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.

Carbon Recycling International gangsetti nýlega nýja efnaverksmiðju í Kína sem hefur þann möguleika að endurnýta 150.000 tonn af koltvísýring á ári. Íslenskt hugvit og verkfræðileg hönnun CRI mun stuðla að einni bestu orkunýtni í þessari tegund iðnaðarframleiðslu og framleiða um 100.000 tonn af sjálfbæru metanóli á ári.

Framleiðslutæknin var þróuð og sannreynd í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið var þá fyrsta fyrirtækið í heiminum til að framleiða og selja vottað rafeldsneyti. Þrautseigja og framsýni Carbon Recycling. International hefur skilað áhrifum út fyrir landsteina og framtak þeirra mun leggja til í baráttu á heimsvísu við samdrátt í losun koltvísýrings.

Meðfylgjandi er verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti CRI verðlaunin:

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til umhverfisverðlauna Samtaka atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður, Elma Sif Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason.

SVÞ og VR/LÍV undirrita tímamótasamning um aukna hæfni og þekkingu starfsfólks í verslun og þjónustu.

SVÞ og VR/LÍV undirrita tímamótasamning um aukna hæfni og þekkingu starfsfólks í verslun og þjónustu.

Formaður VR og LÍV, Ragnar Þór Ingólfsson og formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Jón Ólafur Halldórsson, undirrituðu í gær, fimmtudaginn 16. mars 2023 samstarfssamning um að vinna markvisst að hæfniaukningu í verslun og þjónustu til ársins 2030.

Samningurinn felur í sér þrjú meginmarkmið. Fram til ársins 2030 er stefnt að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu. Námið fari fram með reglulegri sí- og endurmenntun samkvæmt nánari þarfagreiningu sem VR/LÍV og SVÞ vinna að í sameiningu hverju sinni. Markmiðið er að tryggja að starfsfólk fyrirtækja í verslun og þjónustu eigi ávallt kost á því námi sem gerir þeim kleift að takast á við þau verkefni sem vinnumarkaður í örri umbreytingu gerir kröfu um. Einnig að fyrirtæki í verslun og þjónustu hafi á hverjum tíma aðgang að hæfu starfsfólki.

Þá verður sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að 80% þessa hóps búi árið 2030 yfir hæfni B12 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio).

Í þriðja lagi er stefnt að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins. Það felur í sér að viðurkennd vottun eða fagbréf verði veitt fyrir starfsgreinar og hæfnisnám/þjálfun starfsfólks í verslun og þjónustu og að fyrirtæki fái viðurkenningu þegar 80% starfsmanna eru árlega í virkri sí- og endurmenntun.

Með samningnum vilja VR/LÍV og SVÞ sýna að það er sameiginlegt viðfangsefni samtaka launafólks í verslunar- og þjónustugreinum og samtaka atvinnurekenda að tryggja að menntun og hæfni starfsfólks sé í takt við þarfir eins og þær eru hverju sinni.

Smellið hér til þess að sjá samninginn í heild sinni.

Ný stjórn SVÞ 2023-2024!

Ný stjórn SVÞ 2023-2024!

Ný stjórn SVÞ kjörin á aðalfundi samtakanna

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í morgun, fimmtudaginn 16.mars í Hyl, Húsi atvinnulífsins.

Á fundinum var kosið um sæti formanns sem og þrjú sæti meðstjórnenda. Alls bárust sjö framboð til meðstjórnenda og tvö framboð til formanns.

Réttkjörinn formaður SVÞ til næstu tveggja starfsára er Jón Ólafur Halldórsson, Marga ehf.

Réttkjörin í stjórn SVÞ til tveggja starfsára eru eftirtalin: Egill Jóhannsson, Brimborg hf., Guðrún Jóhannesdóttir, Kokku ehf., og Hinrik Örn Bjarnason, Festi hf.

Stjórn er því skipuð eftirfarandi aðilum starfsárið 2023-2024:
 • Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Marga, formaður SVÞ
 • Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan ehf
 • Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs og samskiptasviðs Eimskips
 • Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar
 • Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku
 • Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa
 • Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Nánari upplýsingar veitir:

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500

________________

SMELLIÐ HÉR FYRIR Úrslit kosninga 2023

SMELLIÐ HÉR FYRIR FULLTRÚARÁÐ SVÞ Í SA 2023-2024

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ NÁLGAST ÁRSSKÝRSLU STJÓRNAR 2022-2023

Aðalfundur SVÞ 2023

Aðalfundur SVÞ 2023

Til aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
BOÐUN AÐALFUNDAR SVÞ – SAMTAKA VERSLUNAR OG ÞJÓNUSTU

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hinn 16. mars 2023 kl. 08:30 í fundarsalnum Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

– Ræða formanns SVÞ
– Skýrsla stjórnar SVÞ fyrir liðið starfsár
– Reikningar SVÞ fyrir liðið reikningsár
– Lýst kosningu formanns SVÞ
– Lýst kosningu meðstjórnenda í stjórn SVÞ
– Lýst kosningu í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
– Kosning löggilts endurskoðanda SVÞ
– Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál

Rétt er að athuga að á aðalfundi SVÞ 2022 var samþykkt tillaga stjórnar samtakanna um sameiningu Bílgreinasambandsins (BGS) og SVÞ. Samhliða og til bráðabirgða var samþykkt tillaga um að einum meðstjórnanda, hinum sjöunda, skyldi bætt við stjórn samtakanna starfsárið 2022/2023 sem yrði skipaður fulltrúa BGS og var fulltrúi sambandsins lýstur meðstjórnandi í stjí stjórn SVÞ á aðalfundinum. Frá og með aðalfundi 2023 verður stjórn SVÞ að nýju skipuð formanni og sex meðstjórnendum.

Kjörnefnd SVÞ 2023 yfirfer framkomin framboð til stjórnar SVÞ og fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins.
Framboðsfrestur rennur út 23. febrúar 2023.

Berist nefndinni fleiri en eitt framboð til formanns SVÞ, fleiri en þrjú framboð til stjórnar SVÞ eða fleiri framboð til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins en sem nemur fulltrúasætum SVÞ munu kjörgögn væntanlega verða senda aðildarfyrirtækjum 24. febrúar 2023.

Kosningarnar verða rafrænar og er áætlað að þær hefjist 28. febrúar 2023 og þeim ljúki 14. mars 2023 kl. 12:00.

SKRÁNING Á AÐALFUND ER HAFIN!
SMELLIÐ HÉR! 

Er þinn tími kominn? Leitað er tillagna um þrjá meðstjórnendur og formann í stjórn SVÞ

Er þinn tími kominn? Leitað er tillagna um þrjá meðstjórnendur og formann í stjórn SVÞ

…ER ÞAÐ EKKI ALVEG KJÖRIÐ

LEITAÐ ER TILLAGNA UM ÞRJÁ MEÐSTJÓRNENDUR OG FORMANN Í STJÓRN SVÞ OG FULLTRÚA SVÞ Í FULLTRÚARÁÐ SAMTAKA ATVINNULÍFSINS

Kjörnefnd SVÞ leitar að áhugasömum stjórnendum til setu í stjórn samtakanna.

Þrír stjórnarmenn og formaður taka sæti til næstu tveggja starfsára.

Þá er leitað eftir fulltrúum til setu í fulltrúaráði SA til eins árs.

Við hvetjum þig til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir kl. 12:00 hinn 17. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út 23. febrúar.
Aðalfundur verður haldinn 16. mars nk.

Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.

Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2023/2024:

 • – Gunnar Egill Sigurðsson, Samkaupum
 • – Edda Rut Björnsdóttir, Eimskip Ísland ehf.
 • – Brynjúlfur Guðmundsson, Artasan ehf.

Þrír meðstjórnendur skulu kosnir til setu í stjórn SVÞ fyrir næstu tvö starfsár. Formaður er kosinn fyrir næstu tvö starfsár.

Tilnefningar til formanns SVÞ, stjórnar samtakanna og fulltrúaráðs SA skulu sendar til SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík, merktar „Kjörnefnd SVÞ“ eða á netfangið: kosning@svth.is

Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 16. febrúar 2023.

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að gefa kost á sér í stjórn SVÞ og í fulltrúaráð SA.

Kjörnefnd SVÞ