Framsækið miðstýrt menntakerfi eru refhvörf

Birt á visir.is 11.10.2017

Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.

Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.

Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.

Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.

Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.

Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.

Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).

Skortur á stefnu og heildarsýn í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum

Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).

Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.

Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en  á bensíni.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir  útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.

Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI)  fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.

Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.

Samantektina má nálgast hér.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu

Íslensk verslun í alþjóðlegu umhverfi

Blaðagrein birt undir Skoðun á visir.is
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Verslun á Íslandi hefur óumdeilanlega búið við mikla erlenda samkeppni í gegn um tíðina, enda þekkt að stór hluti af ferðum Íslendinga til útlanda eru gagngert farnar til þess að kaupa ýmis konar varning. Þessa mánuðina er landinn einmitt að slá metið í ferðalögum en á fyrri hluta þessa árs innrituðu 290 þúsund Íslendingar sig í flug út í heim frá Keflavíkurflugvelli.

Nýjar áskoranir
Burtséð frá þessu horfist íslensk verslun nú í augu við nýjar og meiri áskoranir en áður þekkist. Annars vegar hlýtur koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem þegar hafa tekið ákvörðun um að halda innreið sína inn á hinn litla íslenska smásölumarkað, óhjákvæmilega breyta því starfsumhverfi sem greinin hefur búið við. Hins vegar er eðli verslunar sem slíkrar að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hluti hennar fer fram á netinu, þar sem neytendur hafa val um að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja hvar sem er í heiminum. Þróun þessi er mjög hröð um þessar mundir og allt eins líklegt að verslun eins og við þekkjum hana í dag muni ganga í gegn um meiri breytingar á næstu fimm árum en nokkru sinni fyrr.

Starfsumhverfið hefur breyst til batnaðar, en…
Stór skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að gera starfsumhverfi íslenskrar verslunar sem líkast því sem það er í samanburðarlöndunum. Þar stóð síðasta ríkisstjórn vel að verki. Þar vegur þyngst afnám almennra vörugjalda og afnám tolla á öðrum vörum en ýmsum tegundum landbúnaðarvara. Og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Niðurfelling tolla hefur ekki náð til þeirra landbúnaðarvara sem mestu skipta og verða íslenskir neytendur því að óbreyttu áfram að sætta sig við að kaupa þessa nauðsynjavöru á mun hærra verði en neytendur í flestum nágrannalöndum okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta einmitt sá stóri munur sem enn er á starfsumhverfi íslenskrar verslunar og verslunar í samanburðarlöndunum.

Ávinningurinn skili sér til neytenda
Allt bendir til þess að núverandi stjórnvöld hafi vilja til að jafna þann aðstöðumun sem íslensk verslun býr enn við að þessu leyti, neytendum til hagsbóta. Fyrri hluta næsta árs kemur til framkvæmda nýr samningur íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins, sem m.a. fjallar um aukinn tollfrjálsan innflutning landbúnaðarvara til landsins. Það skiptir öllu máli að neytendur fái notið ábatans af þeim samningi til hins ýtrasta.

Rangar og villandi fullyrðingar
Því miður er það svo að ýmsir stjórnmálamenn sjá sér enn hag í því að tortryggja verslunina og sumir þeirra hafa haldið því blákalt fram að skattkerfisbreytingar síðustu ára hafi ekki skilað sér til neytenda. Slíkt er firra eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á undanförnum mánuðum og misserum. Verra er þó þegar þessir sömu stjórnmálamenn halda því fram að felldir hafi verið niður tollar af landbúnaðarvörum, án þess að innistæða sé fyrir slíkum fullyrðingum. Það hlýtur að vera hægt að gera kröfu um að ekki sé farið rangt með staðreyndir, ekki síst hjá þeim sem besta þekkinguna eiga að hafa.

Er verslunin á villigötum?

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.6.2017
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Íslensk verslun stendur nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á hinn litla íslenska markað hefur þegar haft áhrif  á smásölumarkaði, sem  gætu allt eins orðið meiri á næstu mánuðum.  Neytendur hafa tekið þessum breytingum fagnandi og hafa á undanförnum vikum staðið fyrir meiri og víðtækari umfjöllun um hagsmuni neytenda en dæmi eru um. Þessu ber að fagna, enda á verslunin allt sitt undir ánægðum neytendum og verslunin á Íslandi verður að standa sig í aukinni samkeppni.

Eins og oft gerist þegar breytingar sem hér um ræðir ganga yfir, þá falla stór orð í umræðunni. Margir eru óhræddir við að fella dóma. Sá sem harðast hefur gengið fram í þessari umræðu er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Í grein sem birtist eftir hann í DV um s.l. helgi hefur hann uppi stór orð um félaga sína í hópi kaupmanna, en þar heldur hann því blákalt fram að íslensk verslun hafi stundað okur, hækkað verð fyrir útsölur og blekkt fólk.

Á meðan framkvæmdastjóri IKEA gerir ekki nánari grein fyrir því til hverra úr hópi kaupmanna hann beinir þessum orðum sínum, liggur allur sá stóri hópur „undir grun“. Þórarinn er því hér með hvattur til að stíga fram og segja með skýrum og ótvíræðum hætti við hverja hann á. Með því móti einu gefst þeim sem þessum orðum er beint til, möguleiki á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þórarinn hefur oft sýnt það að hann hikar ekki við að segja það sem honum býr í brjósti. Það verður því varla hik á honum að upplýsa þetta. Framkvæmdastjóri IKEA hefur einnig sýnt það að hann er prýðilegur rekstrarmaður, um það vitna nýbirtar afkomutölur um rekstur IKEA, en framlegð þar er með því allra hæsta sem sést í smásöluverslun á Íslandi í dag.  Hann hefur einnig stigið fram í ræðu og riti og talað um hærra verð í IKEA verslun sinni en sambærilegum IKEA verslunum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og gert það vel.  Verslun hans er til fyrirmyndar á erfiðum íslenskum örmarkaði, eykur á fjölbreytileikann á markaðnum eins og þessar verslunakeðjur gera sem eru að koma nýjar á markaðinn.

Íslensk verslun er ekki á villigötum þó hún takist nú á við stærri viðfangsefni en oft áður. Fjölbreytnin og samkeppnin er að aukast og því ber að fagna.  Umræða um íslenska verslun er hins vegar á villigötum á meðan hún er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur. Atvinnugreinin sem slík og þeir 26.000 einstaklingar sem hafa atvinnu sína af verslun eiga skilið málefnalega umræðu, þar sem tekist er á með rökum en ekki með sleggjudómum.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu

Verslunin er miðpunktur í grænum skiptum

Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.
Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi.  Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.

Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak  á sviði umhverfismála.  Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænu skiptum:

• Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og  meðhöndlun úrgangs)
• Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
• Hvetja til grænnar neyslu

Naumur tími
Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við .  Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.

Mikilvægi hringhagkerfisins
Hringhagkerfi styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfi snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.

Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að ná, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn.  Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni.  Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.

Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda
Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m.  getur verslun boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt.  Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig.  Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti  nýtt til að skapa samkeppnisforskot.  Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.

Að endingu
Smásalar gegna lykilhlutverki í að  hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra. Smásalar eru nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr  matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.

Á næstu vikum munu samtökin birta fleiri og ítarlegri samantektir um einstaka þætti í hringhagkerfinu.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.

Námskeið SVÞ og Rauða krossins auka tækifæri flóttamanna

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 12.6.2017 Viðtal við Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðing SVÞ

Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi stóðu nýlega fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.
Á örnámskeiðinu var farið yfir hvernig væri best að gera ferilskrá, hvernig flóttafólk geti sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri séu í boði, hvernig íslensk vinnustaðamenning sé og hvernig þessum hópi gangi almennt. Guðríður Hjördís Baldursdóttir, mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi, og Guðjón Sveinsson, ráðgjafi frá Hagvangi, voru með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins komu með innlegg.

Tenging við íslenskt atvinnulíf
Að sögn Ingvars Freys Ingvarssonar, aðalhagfræðings hjá SVÞ, kviknaði hugmyndin að námskeiðinu þegar horft var til þess hvernig hægt væri að tengja flóttamenn við íslenskt atvinnulíf og auka tækifæri þessa hóps hér á landi. „Við ákváðum í framhaldinu að tala við Rauða krossinn sem tók strax mjög vel í hugmyndina en þar er mjög mikil þekking og reynsla á málefnum flóttafólks,“ segir Ingvar Freyr.

Ágætisþátttaka var á námskeiðinu og voru flestir frá Mið- Austurlöndum. Að sögn Ingvars Freys höfðu þátttakendur mjög mismunandi bakgrunn og reynslu. „Til dæmis var einn með masterspróf í verkfræði sem hafði starfað í Kína. Það er því mjög mikilvægt að við horfum til þeirrar þekkingar sem er í hópnum og veitum þeim ólík tækifæri. Þessi hópur skiptir íslenskt atvinnulíf máli.“

Hópurinn heimsótti Eimskip þar sem vinnustaðurinn var kynntur og starfsemi hans.

Ingvar Freyr segir að SVÞ sjái fram á áframhaldandi samstarf við Rauða krossinn. „Þetta heppnaðist alveg rosalega vel, mikil ánægja var í hópnum og það sköpuðust miklar umræður.“