Breytt fyrirkomulag styrkja gæti hægt á rafbílavæðingu – SVÞ varar við ófyrirséðum afleiðingum

Breytt fyrirkomulag styrkja gæti hægt á rafbílavæðingu – SVÞ varar við ófyrirséðum afleiðingum

Tillögur um breytingar á stuðningi við kaup á rafbílum, sem kynntar voru í frétt á Vísi í dag, gætu haft óvæntar neikvæðar afleiðingar fyrir framgang orkuskipta. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir þar á mikilvægi þess að styrkjakerfið styðji við raunverulegan árangur, ekki aðeins réttlætissjónarmið.

Í fréttinni á Visir.is er fjallað um endurskoðun stjórnvalda á því hvernig styrkir til rafbílakaupa eru veittir. Ný úttekt sýnir að stuðningurinn hefur að mestu runnið til tekjuhærri hópa og þeirra sem eru yfir miðjum aldri. Nú stendur til að færa stuðninginn nær tekjulægri og yngri kaupendum.

„Tilfærsla á styrkjum til hópa í lægri tekjutíundum og yngra fólks mun því ekki skila losunarsamdrætti en gæti hins vegar dregið úr kaupum eldra fólks og fólks í efri hluta tekjutíundanna. Þar með mundi draga úr hraða orkuskipta, að minnsta kosti að sinni,“ segir Benedikt.  Hann varar við því að ef styrkirnir verða eingöngu sniðnir að hópi sem sjaldnar kaupir nýja bíla, gæti það dregið úr innflutningi og þannig takmarkað framboð á notuðum rafbílum til framtíðar.

SVÞ leggja áherslu á að orkuskipti krefjist stefnumótunar sem tekur mið af markaðsvirkni, hagkvæmni og raunhæfum aðstæðum neytenda. Nauðsynlegt er að styðja við þá sem raunverulega geta hrundið breytingum af stað. Þá hvetur SVÞ stjórnvöld til samráðs við hagaðila áður en breytingar eru gerðar á styrkjakerfinu.

Markmiðin verða að vera skýr: að flýta orkuskiptum og tryggja að rafbílavæðing Íslands verði bæði hraðari og sanngjörn.

Aðalfundur og 20 ára afmæli Sjálfstæðra skóla

Aðalfundur og 20 ára afmæli Sjálfstæðra skóla

Aðalfundur Sjálfstæðra skóla fór fram 3. apríl síðastliðinn. Að fundi loknum héldu samtökin upp á tímamót – 20 ár liðin frá stofnun samtakanna. Í tilefni dagsins var litið um öxl og farið yfir vegferðina fram að deginum í dag.

Margrét Pála Ólafsdóttir, Margrét Theódórsdóttir og Lovísa Hallgrímsdóttir, sem skipuðu fyrstu stjórn Sjálfstæðra skóla, rifjuðu upp upphafsárin og sögðu frá þeirri hugsjón og eldmóði sem lagði grunn að starfi samtakanna.

Villi Naglbítur lét gleðina ráða för með söng og gamanmálum sem vöktu hlátur og góðar undirtektir. Þá heilsaði Steinn Jóhannsson, nýr sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, gestum og færði samtökunum velfarnaðaróskir.

Að lokinni dagskrá nutu félagsmenn samverunnar yfir góðum veitingum, veigum og ánægjulegum samræðum.

Afmæliskveðja til Tjarnarskóla

Afmæliskveðja til Tjarnarskóla

Sjálfstæðir skólar óska Tjarnarskóla innilega til hamingju með 40 ára afmælið!

Tjarnarskóli hefur í fjóra áratugi verið einstakur vettvangur þar sem nemendur fá að blómstra í hlýlegu og hvetjandi umhverfi. Frá stofnun skólans árið 1985 hafa Margrét Theodórsdóttir, María Solveig Héðinsdóttir og allt starfsfólk lagt metnað sinn í að skapa skólasamfélag þar sem hver og einn nemandi fær stuðning við að vaxa og dafna, bæði í námi og persónulegum þroska.

Einkunnarorð skólans, „Allir eru einstakir“ og „Lítill skóli með stórt hjarta“, endurspegla þann kærleika, virðingu og fagmennsku sem einkenna starf skólans. Áhersla á einstaklingsmiðað nám, vellíðan og uppbyggjandi samskipti hefur gert Tjarnarskóla að mikilvægu og dýrmætu samfélagi fyrir fjölda nemenda í gegnum tíðina.

Við hjá Sjálfstæðum skólum viljum nota þetta tækifæri til að þakka Tjarnarskóla fyrir ómetanlegan stuðning og framlag til skólasamfélagsins í gegnum árin.

Við óskum Tjarnarskóla, kennurum, starfsfólki, nemendum og foreldrum hjartanlega til hamingju með tímamótin og óskum þeim velfarnaðar á komandi árum.

Til hamingju með afmælið!

Sjálfstæðir skólar
______
Mynd: Frá vinstri, Lovísa Hallgrímsdóttir
stofnandi Regnbogans,Margrét Theodórsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Tjarnarskóla og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Ísaksskóla

Aðalfundur SVÞ 13. mars 2025

Aðalfundur SVÞ 13. mars 2025

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR SVÞ – SAMTAKA VERSLUNAR OG ÞJÓNUSTU

Við minnum á aðalfund SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hinn 13. mars 2025 kl. 11:00 á Parliament Hotel Reykjavík, Gamli Kvennó – Blái salur 2. hæð, Thorvaldsen stræti 2–6, 101 Reykjavík.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Ræða formanns SVÞ
2. Skýrsla stjórnar SVÞ fyrir liðið starfsár
3. Reikningar SVÞ fyrir liðið reikningsár
4. Lýst kosningu formanns SVÞ
5. Lýst kosningu meðstjórnenda í stjórn SVÞ
6. Lýst kosningu í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
7. Kosning löggilts endurskoðanda SVÞ
8. Breytingar á samþykktum SVÞ
9. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál

RÁÐSTEFNA SVÞ 2025 – UPPBROT: FÓLK – TÆKNI – SAMKEPPNI

Einnig minnum við á ráðstefnu samtakanna sem haldin er í kjölfar aðalfundar, kl. 13:00 á Parliament Hotel Reykjavík. Ráðstefna SVÞ er stærsta ráðstefna fólks og fyrirtækja í verslunar- og þjónustugreinum.

Ráðstefnan í ár fjallar um þær umbreytingar sem móta verslun og þjónustu á Íslandi í dag, undir þremur lykilþemum: FÓLK – TÆKNI – SAMKEPPNI. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér: https://svth.is/radstefna2025

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Jón Ólafur Halldórsson
Formaður SVÞ