Skólakerfi til framtíðar!

Skólakerfi til framtíðar!

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla skrifaði á Vísi um skólakerfi framtíðarinnar þann 7. nóvember sl.

Tveir áhugaverðir viðburðir um menntakerfið okkar voru haldnir í vikunni, árlegt skólaþing sveitarfélaganna og kynning Samtaka atvinnulífsins á áherslum samtakanna í menntamálum. Á skólaþingi sveitarfélaganna var verið að ræða hina einu sönnu spurningu: Hvað er menntun? Það gladdi okkur sem stöndum að Samtökum sjálfstæðra skóla að þingið sýndi það hugrekki í fyrsta sinn að hafa á dagskrá sinni erindi frá sjálfstætt reknum grunnskóla.

Erum við á réttu róli? var yfirskrift þingsins. Mikilvæg spurning og eins og oft áður er allt undir. Mikilvægi raungreina, styrk stoðþjónusta, vellíðan, sameining sveitarfélaga og allt þar á milli. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig skólakerfi við viljum þá eru allar spurningar mikilvægar. Sjálfstæði skóla og sjálfstætt starfandi skólar, breytt aldursbilsdreifing skólastiga, fækkun grunnskólaáranna um eitt ár, framhaldsskóli og háskóli í meiri samfellu. Sveitarfélög og ríki þurfa að móta samfelluna á milli grunn- og framhaldsskólans í rekstrarlegu tilliti. Allt eru þetta mikilvæg mál og miseldfim. Við höfum rætt þau oft áður, en án nokkurrar niðurstöðu eða aðgerða í kjölfarið.

En viljum við í raun einhverjar aðgerðir? Eða komum við einhvern tímann til með að sammælast um hvaða aðgerðir eru þær réttu fyrir blessað kerfið? Er það lengd grunnskólans? Árabilin á milli skólastiga? tenging á milli skólastiga eða jafnvel meiri stuðningur við fjölbreytt rekstrarform?

Samhljóminn var einna helst að finna í því að gera kerfið okkar betra.

Við gætum þokast í átt að lausn með því að vera opin og taka fjölbreytileika fagnandi. Samrekstur leik- og grunnskóla er ein leið til að skapa faglegan styrk, svo kerfið nái að mæta hverjum nemanda á hans forsendum. Þekking sérfræðinga á ólíkum aldursskeiðum vinnur saman og getur þokað okkur áfram með velferð og menntun barna í fyrirrúmi. Sjálfstætt starfandi skólar er önnur leið, innan þeirra vébanda eru litlir skólar með, óhefðbundna nálgun á nám og kennslu. Slíkt felur í sér nýsköpun í skólastarfi, þar sem hugmyndafræði afmarkast við ákveðna þætti eins og jafnrétti, vellíðan eða lestrarfræði. Og er nýr kostur fyrir börn, ungmenni og foreldra, en ekki síður kennara um annars konar starfsvettvang.

Um skólakerfið vitum við fyrir víst að þar eru nemendur með alls konar þarfir. Sumir geta farið hraðar yfir þá grunnmenntun sem grunnskólinn byggir á, en mætti þó efla og dýpka til að auka almennan lesskilning, bæta stærðfræði og raungreinakennslu og ekki væri verra ef verk- og listgreinar fengju um leið aukið vægi. Aðrir þyrftu að komast út fyrir hefðbundna kerfið og fá að spreyta sig í annars konar námi líkt og sjálfstæðir skólar og lýðskólar bjóða upp á. Enn aðrir þyrftu að eiga aðgang að skóla þar sem meiri áhersla er á verk- og listgreinar. Loks er svo hópurinn sem er sáttastur við hefðbundnu 10 ára grunnskólaleiðina.

Viðurkennum ólíkar leiðir og gerum þeim jafnhátt undir höfði í stað þess að togast endalaust á um hvort skólinn eigi að vera svona eða hinsegin. Því fyrst og fremst snýst þetta um menntun og líðan barna og ungmenna til að geta eflst, þroskast og fundið sinn tilgang í lífinu. Til þess þurfum við fjölbreytta skóla, sjálfstæða, litla og stóra.

Engin verður þróunin ef engir eru kennararnir. Síðast en ekki síst þurfum við fleiri öfluga, unga kennara. Kennara sem þora og vilja takast á við faglega þróun og færa menntakerfið okkar inn í framtíðina í sátt við væntingar okkar og þarfir.

Aðalfundur SSSK 2018

Aðalfundur SSSK 2018

Screen Shot 2018-04-25 at 13.17.25
Nýkjörin stjórn SSSK, frá vinstri: Ingibjörg Jóhannesdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður, Jón Örn Valsson, María Sighvatsdóttir, Guðmundur Pétursson, Sigríður Stephensen og Gísli Rúnar Guðmundsson.

Aðalfundur SSSK var haldinn þriðjudaginn 24. apríl í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Þar var Sara Dögg Svanhildardóttir, Arnarskóla, kjörin formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur voru kjörnir: Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri grunnskólans NÚ, Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn voru kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.

Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum fór Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Ársskýrsla SSSK 2017

Hér má lesa ársreikninginn í heild sinni: Ársreikningur SSSK 2017

Aðalfundur SSSK

Aðalfundur SSSK

Aðalfundur Samtaka sjálfstæðra skóla verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2018 milli kl. 15:00 og 16.30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Kviku, 1. hæð

Setning: Kristján Ómar Björnsson, formaður SSSK

Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnaskóla, stýrir fundinum.

Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:

  • Skýrsla stjórnar
  • Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
  • Umræður um skýrslu og reikninga
  • Félagsgjöld ársins
  • Kosning formanns og varaformanns
  • Kosning meðstjórnenda og varamanna
  • Kosning tveggja skoðunarmanna
  • Önnur mál

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.

Framboð til stjórnar þurfa að berast formanni stjórnar í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar. 

Fulltrúar rekstraraðila, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og aðrir stjórnendur eru hjartanlega velkomnir.

Skráning hjá aslaug@svth.is

 

SSSK leikskólastjórar hljóta tilnefningu til stjórnendaverðlauna

SSSK leikskólastjórar hljóta tilnefningu til stjórnendaverðlauna

Þann 28. febrúar sl. hlutu tveir leikskólastjórar innan SSSK tilnefningar til Stjórnendaverðlauna Stjórnvísis 2018 fyrir frammistöðu við að móta og stjórna afburða leikskóla Þeir eru; Lovísa Hallgrímsdóttir stofnandi, rekstraraðili og f.v. skólastjóri Regnbogans í Reykjavík en hún hlaut tilnefningu 2. árið í röð. Hinn skólastjórinn er Hulda Jóhannsdóttir stjórnandi Heilsuleikskólans Króks í Grindavík.

Samtök sjálfstæðra skóla óska þessum frábæru stjórnendum til hamingju með tilnefninguna.

Ráðstefna SSSK 2. mars – Fjölbreyttar leiðir til framtíðar

Ráðstefna SSSK 2. mars – Fjölbreyttar leiðir til framtíðar

Simon Steen, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla í Evrópu – Ecnais, verður aðalræðumaður á ráðstefnu SSSK þann 2. mars nk.

Simon mun fjalla um sterka stöðu sjálfstæðra skóla í Hollandi undir yfirskriftinni „Freedom of education in the Netherlands – From a right for the minority to an inspirational form of pedagogical entrepreneurship for the majority“.

NM86630 SSSK augl vegna ráðstefnu

Tillögur SSSK að úrbótum í íslensku menntakerfi

Birt á visir.is 12.10.2017

Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.

Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.

Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.

Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.

Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.

Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.

Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!

Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.

Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.

Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla