Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla var á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember sl. ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.

Rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar og mál því tengd.

Sara Dögg bendir m.a. á að kjarasamningar kennara séu íþyngjandi að því leyti að þar sé of mikil stýring á
störfum kennara. Það skapi umhverfi með endalausum hindrunum fyrir framþróun og vexti skólastarfs og skortur sé á trausti milli sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara.

Hlusta má á þennan hluta þáttarins hér: https://www.visir.is/k/154a02c4-ae95-4ed0-bc5c-d27addf2b7d0-1575802502064

Sara Dögg í Brennslunni um sjálfstæða skóla

Sara Dögg í Brennslunni um sjálfstæða skóla

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, var í viðtali í Brennslunni á FM957 þann 6. desember sl. í kjölfar greinar sem hún skrifaði á Vísi 5. desember sl. Hún ræddi um hægagang menntakerfisins og hversu erfitt virðist vera að gera breytingar. Einnig ræðir hún m.a. þröngar tímaskorður í kjarasamningum kennara sem koma í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika, kerfið sem ver sjálft sig og að í þessum málum virðist gleymast að eiga samtalið við kennara. Sjálfstæðir skólar eru hlutfallslega mun fleiri í nágrannalöndunum, þ.á.m. á Norðurlöndunum, gefa fólki valkosti í menntakerfinu og reynslan af þeim er almennt mjög góð. Þrátt fyrir það eiga sjálfstæðir skólar á brattann að sækja í íslensku menntakerfi.

Hlusta má á viðtalið í upptöku af þættinum hér, og hefst viðtalið á ca. 54:35 mín: https://www.visir.is/k/617dc052-3d40-4dc1-82b7-20c0314c3ac7-1575626409684

Skólakerfið ferðast um á hraða snigilsins

Skólakerfið ferðast um á hraða snigilsins

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fimmtudaginn 5. desember sl. þar sem ræddar voru niðurstöður Pisa könnunarinnar, sjálfstæðir skólar og möguleikarnir sem í þeim búa til að auka fjölbreytileika, brjótast úr viðjum kerfisins og koma skriði á málin í skólakerfi sem ferðast á hraða snigilsins.

Þú getur hlustað á viðtalið hér: https://www.visir.is/k/1b0159f2-584f-4225-a404-4d8851f7e457-1575565879399

Pisa og skekkjan í skóla­kerfinu

Pisa og skekkjan í skóla­kerfinu

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, skrifar á Vísi fimmtudaginn 5. desember sl.

Niðurstöður í alþjóðlegu Pisa-könnuninni valda vonbrigðum. Enn á ný vefst lesskilningur, túlkun og ályktunarhæfni fyrir íslenskum nemendum. Skýringa er leitað og nefnt að ekki sé farið nógu djúpt í viðfangsefnin í skólanum; skólakerfið svamli um á yfirborðinu. Er það kannski svo að kerfið sjálft sé statt á endastöð einhvers konar sjálfskapaðrar tilvistarkreppu? Niðurnjörvað í úreltum kjarasamningum fortíðar, sem eru fyrir óralöngu hættir að ríma við nútímann? Mæling kennslustunda upp á mínútur hér og þar virðist upphaf og endir allra kjarasamninga. Ekkert flæði, ekkert svigrúm, engin nýsköpun í uppbyggingu skólanna. Allir skulu mótast í nákvæmlega sama mót. Allir grunnskólar á Íslandi, alls staðar, bjóða upp á allt eins.

Þessi lýsing er mögulega nokkuð harðorð í garð kerfisins en það er full ástæða til að taka djúpt í árinni. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum talað fyrir sveigjanleika, nýsköpun og frelsi til athafna og á okkur hafa sumir viljað hlusta en svo sannarlega ekki allir. Sjálfstæðir skólar þykja með einhverjum óskiljanlegum hætti ógna kerfinu. Þessu svifaseina kerfi, sem virðist að mörgu leiti komið í þrot.

Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla teljum mikilvægt að búa við fjölbreytta skóla. Skóla sem þora að fara út fyrir hefðbundinn ramma og gefa þannig foreldrum meira vald til ákvarðana. Raunverulegt val um hvað hentar börnum þeirra best hverju sinni. Í skólakerfinu, rétt eins og annars staðar, hentar ekki öllum að vera felldir í sama mótið.  Sjálfstæðir skólar hafa annars konar nálgun á menntun en hefðbundna skólakerfið. Sjálfstæðir skólar hafa sýnt frumkvæði og getu til breytinga og sýna það og sanna að nýsköpun og drifkraftur skiptir máli fyrir alla. Kennara jafnt sem nemendur. Og það er lykilfólkið í menntakerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft. Grundvallaratriði er að nemendum farnist vel og að kennurum sé skapað rými og tími til athafna. Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru afar fáir og miklu færri en þeir ættu að vera. Aðeins rúm 2% grunnskóla hér á landi eru sjálfstætt starfandi skólar, en svo lágt hlutfall er hvergi að finna í nágrannalöndum okkar, þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem útkoman í Pisa-könnunum telst góð.

Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru fámennir, faglegir og framsæknir. Allt gríðarlegir kostir þegar kemur að því að ná til allra nemenda, hafa yfirsýn og veita hefðbundna kerfinu einhvers konar viðmið eða samanburð. Sjálfstæðir skólar eru hvatning til annarra að fara nýjar leiðir til að breyta kerfinu til batnaðar og rjúfa vítahring endurtekninga.

Við þurfum fjölbreytni og frelsi svo foreldrar geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um skólaval. En ekki síður til þess að kennarar hafi val um ólíkt starfsumhverfi og geti hrist af sér þann doða sem getur svo auðveldlega skapast í kerfi sem er ætlað að vera eins fyrir alla.

Af hverju eru enn svo fáir sjálfstætt starfandi skólar? Við hvað erum við hrædd? Varla óttumst við lélega útkomu í Pisa-könnunum? Væri ekki nær að viðurkenna að við þurfum að rétta þá skekkju í skólakerfinu, sem veldur því að nemendur ná ekki allir að blómstra? Sjálfstæðir skólar geta uppfyllt þarfir þeirra, sem finna sig ekki í hefðbundnu skólakerfi. Og hver veit nema niðurstöður í Pisa-könnunum færu þá batnandi.

Skólakerfi til framtíðar!

Skólakerfi til framtíðar!

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla skrifaði á Vísi um skólakerfi framtíðarinnar þann 7. nóvember sl.

Tveir áhugaverðir viðburðir um menntakerfið okkar voru haldnir í vikunni, árlegt skólaþing sveitarfélaganna og kynning Samtaka atvinnulífsins á áherslum samtakanna í menntamálum. Á skólaþingi sveitarfélaganna var verið að ræða hina einu sönnu spurningu: Hvað er menntun? Það gladdi okkur sem stöndum að Samtökum sjálfstæðra skóla að þingið sýndi það hugrekki í fyrsta sinn að hafa á dagskrá sinni erindi frá sjálfstætt reknum grunnskóla.

Erum við á réttu róli? var yfirskrift þingsins. Mikilvæg spurning og eins og oft áður er allt undir. Mikilvægi raungreina, styrk stoðþjónusta, vellíðan, sameining sveitarfélaga og allt þar á milli. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig skólakerfi við viljum þá eru allar spurningar mikilvægar. Sjálfstæði skóla og sjálfstætt starfandi skólar, breytt aldursbilsdreifing skólastiga, fækkun grunnskólaáranna um eitt ár, framhaldsskóli og háskóli í meiri samfellu. Sveitarfélög og ríki þurfa að móta samfelluna á milli grunn- og framhaldsskólans í rekstrarlegu tilliti. Allt eru þetta mikilvæg mál og miseldfim. Við höfum rætt þau oft áður, en án nokkurrar niðurstöðu eða aðgerða í kjölfarið.

En viljum við í raun einhverjar aðgerðir? Eða komum við einhvern tímann til með að sammælast um hvaða aðgerðir eru þær réttu fyrir blessað kerfið? Er það lengd grunnskólans? Árabilin á milli skólastiga? tenging á milli skólastiga eða jafnvel meiri stuðningur við fjölbreytt rekstrarform?

Samhljóminn var einna helst að finna í því að gera kerfið okkar betra.

Við gætum þokast í átt að lausn með því að vera opin og taka fjölbreytileika fagnandi. Samrekstur leik- og grunnskóla er ein leið til að skapa faglegan styrk, svo kerfið nái að mæta hverjum nemanda á hans forsendum. Þekking sérfræðinga á ólíkum aldursskeiðum vinnur saman og getur þokað okkur áfram með velferð og menntun barna í fyrirrúmi. Sjálfstætt starfandi skólar er önnur leið, innan þeirra vébanda eru litlir skólar með, óhefðbundna nálgun á nám og kennslu. Slíkt felur í sér nýsköpun í skólastarfi, þar sem hugmyndafræði afmarkast við ákveðna þætti eins og jafnrétti, vellíðan eða lestrarfræði. Og er nýr kostur fyrir börn, ungmenni og foreldra, en ekki síður kennara um annars konar starfsvettvang.

Um skólakerfið vitum við fyrir víst að þar eru nemendur með alls konar þarfir. Sumir geta farið hraðar yfir þá grunnmenntun sem grunnskólinn byggir á, en mætti þó efla og dýpka til að auka almennan lesskilning, bæta stærðfræði og raungreinakennslu og ekki væri verra ef verk- og listgreinar fengju um leið aukið vægi. Aðrir þyrftu að komast út fyrir hefðbundna kerfið og fá að spreyta sig í annars konar námi líkt og sjálfstæðir skólar og lýðskólar bjóða upp á. Enn aðrir þyrftu að eiga aðgang að skóla þar sem meiri áhersla er á verk- og listgreinar. Loks er svo hópurinn sem er sáttastur við hefðbundnu 10 ára grunnskólaleiðina.

Viðurkennum ólíkar leiðir og gerum þeim jafnhátt undir höfði í stað þess að togast endalaust á um hvort skólinn eigi að vera svona eða hinsegin. Því fyrst og fremst snýst þetta um menntun og líðan barna og ungmenna til að geta eflst, þroskast og fundið sinn tilgang í lífinu. Til þess þurfum við fjölbreytta skóla, sjálfstæða, litla og stóra.

Engin verður þróunin ef engir eru kennararnir. Síðast en ekki síst þurfum við fleiri öfluga, unga kennara. Kennara sem þora og vilja takast á við faglega þróun og færa menntakerfið okkar inn í framtíðina í sátt við væntingar okkar og þarfir.

Aðalfundur SSSK 2018

Aðalfundur SSSK 2018

Screen Shot 2018-04-25 at 13.17.25
Nýkjörin stjórn SSSK, frá vinstri: Ingibjörg Jóhannesdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður, Jón Örn Valsson, María Sighvatsdóttir, Guðmundur Pétursson, Sigríður Stephensen og Gísli Rúnar Guðmundsson.

Aðalfundur SSSK var haldinn þriðjudaginn 24. apríl í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Þar var Sara Dögg Svanhildardóttir, Arnarskóla, kjörin formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur voru kjörnir: Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri grunnskólans NÚ, Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn voru kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.

Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum fór Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Ársskýrsla SSSK 2017

Hér má lesa ársreikninginn í heild sinni: Ársreikningur SSSK 2017