Formaðurinn í Markaðnum: Drögumst aftur úr í stafrænni þróun

Formaðurinn í Markaðnum: Drögumst aftur úr í stafrænni þróun

Þann 11. mars sl. birtist áhugavert viðtal við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, í Markaðnum í Fréttablaðinu.

Í viðtalinu ræðir Jón Ólafur sterkar vísbendingar um að íslenskt atvinnulíf sé að dragast aftur úr þegar kemur að stafrænni þróun og þar með að missa samkeppnishæfni sína á alþjóðlegum vettvangi. Hann ræðir einnig tillögur SVÞ í málunum.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA VIÐTALIÐ

>> Smelltu hér til að lesa tillögur SVÞ sem kynntar voru fyrir ráðherra í febrúar

 

Stafræn tækni og nýtt hugarfar er einmitt umfjöllunarefni ráðstefnu SVÞ sem haldin verður þann 12. mars kl. 14:00 og hefur verið færð á netið vegna kórónavírussins. Allt um hana á www.svth.is/radstefna-2020

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, mætti Í bítið á Bylgjunni á þrettándanum til að ræða breytingar í verslun, greiðslumiðlanir og stafræna þróun. Þróunin hérlendis fylgir erlendri þróun þar sem aukning er í netverslun og verslunarrými breytast, bæði hvað varðar stærðir og tilgang, en við erum þó seinni til. Greiðslumiðlanir eru í auknum mæli að færast frá greiðslukortum yfir í smáforrit (öpp) og risar á borð við Facebook, Google og Apple eru ýmist komin inn á greiðslumiðlunarmarkaðinn eða í startholunum. SVÞ fylgist náið með þessum málum sem og öðru sem fylgir stafrænni þróun s.s. breytingum á eðli starfa og upplýsir og styður við fyrirtæki innan sinna raða.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum 29. desember sl.:

Það er sama hvert við horfum í atvinnulífinu, til lítilla fyrirtækja jafnt sem stórra, innan verslunar og þjónustu, ferða- og fjármálaþjónustu, stafræn tækni er að innleiða gríðarlegar breytingar. Allt frá litlum fyrirtækjum með heimasíður, og tímabókanir á netinu til stórfyrirtækja með vöruhús í umsjón vélmenna eða bálkakeðjutækni í flutningum, ekkert fyrirtæki er ósnortið af stafrænni tækni. Íslensk fyrirtæki eru þarna ekki undanskilin. Eins og staðan er í dag eiga íslensk fyrirtæki hinsvegar verulega á hættu að dragast aftur úr og verða ósamkeppnishæf í nútímaumhverfi. Fyrsta skrefið er að átta sig á að nauðsyn þess að taka þátt í þessari þróun af fullum þunga – hið nauðsynlega skref er hugarfarsbreyting.

Stafræn þróun snýst um mun fleira en kaup á tölvum, tækjum og forritum. Stafræn þróun á erindi við alla innan fyrirtæksins, ekki eingöngu tölvudeildina. Stafræn þróun snýst um grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst viðskipti. Virðiskeðjur og viðskiptamódel eru að taka gagngerum breytingum og mörkin milli vöru og þjónustu verða sífellt óskýrari. Stafræn þróun kallar á breytingar sem ganga í gegnum fyrirtækið allt og því þarf stjórnun, menning, þróun ferla og uppbygging á hæfni að taka hana með í reikninginn á öllum stigum. Þetta snýst um algjörlega breytt hugarfar þar sem fyrirtæki hugsa alla starfsemi sína út frá viðskiptavininum og því að nýta stafræna tækni alls staðar þar sem hún á við. Viðskiptavinirnir gera kröfur sem alþjóðlegir samkeppnisaðilar okkar mæta og mæta þeim vel. Viðskiptavinir vilja fá lausnir sniðnar að persónulegu þörfum sínum, þeir vilja skjóta afgreiðslu og framúrskarandi þjónustu. Þeir vita að þetta er allt hægt – þau fá þetta frá Amazon, Aliexpress og Asos! Þessi og sambærileg fyrirtæki eru þau sem íslenskar nútímakynslóðir alast upp við að eiga viðskipti við. Þetta er samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja – einnig þeirra sem eru aðeins með þrjá starfsmenn og ætla sér ekki að þjónusta annað en sitt nærumhverfi. Staðreyndin er sú, að til þess að vera samkeppnishæf verða íslensk fyrirtæki að hafa getu til og vera tilbúin til að aðlaga starfsemi sína að þörfum og óskum viðskiptavina í sama mæli og öll önnur fyrirtæki. Þau verða að finna leið til að keppa við alþjóðlegu risana.

Öll þau lönd sem við horfum hvað helst til hafa markað sér stefnu í stafrænum málum. Stór þáttur í þeirri stefnumörkun eru aðgerðir til að efla fyrirtæki í stafrænni þróun svo að þau geti verið samkeppnishæf. Svíar og Danir hafa sett sér skýr markmið um að vera í fremstu röð í stafrænum heimi. Stefnumörkun í þessum málum er ekki síður mikilvæg en stefnumörkun í nýsköpun sem nýlega hefur verið sett fram af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem ráðist verður í á grunni nýsköpunarstefnu og stefnu í stafrænum málum verði á margan hátt samþættar og styðji hvor við aðra.

Þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þýðir það ekki að við getum ekki tekist á við þessar áskoranir. Færa má rök fyrir því að einmitt þess vegna séum við betur í stakk búin til að mæta þeim þar sem boðleiðir eru styttri og ákvarðanataka hraðari. Eistland, svo dæmi sé tekið, er með rúmlega 1,3 milljónir íbúa og með skýrri stefnu og markvissri ákvarðanatöku hafa þeir raðað sér fremst í flokk í stafrænni stjórnsýslu. Við íslendingar gætum allt eins markað slíka stefnu og fylgt henni eftir.

Stóru áskoranirnar í stafrænum heimi eru þekking og fjármagn. Nágrannalönd okkar eru þegar farin að vinna að þessum málum með fjárhagslegum stuðningi við stafræna þróun í formi styrkja, lána og eflingu þekkingar bæði innan almenna menntakerfisins en ekki síður með sí- og endurmenntun.

Ljóst er að miklar breytingar verða á ýmsum störfum á allra næstu árum, sem þarf ekki að vera neikvætt eða nokkuð sem ástæða er til að óttast. Stafræn þróun skapar störf um leið og hún gerir önnur störf óþörf. Áskorunin felst í því að gera fólk fært um að sinna þessum nýju störfum.

Mikilvægast af þessu öllu er samt sem áður hugarfarið. Með breyttu hugarfari erum við í stakk búin til að takast á við hinn nýja veruleika og taka honum fagnandi og sjá tækifærin sem í honum felast. Við verðum að marka okkur stefnu og grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í hinum alþjóðlega stafræna heimi. Það eina sem hægt er að ganga að sem vísu eru breytingar – sífellt hraðari breytingar.

SVÞ mun á næsta ári hafa forgöngu um vinnu sem nauðsynleg er til að íslensk fyrirtæki verði í stakk búin til að keppa í heimi nýrrar stafrænnar samkeppni.

Smelltu hér

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Nýr Facebook hópur hefur verið settur á laggirnar í tengslum við Faghóp stafrænnar verslunar innan SVÞ. Hópurinn er fyrir félagsmenn SVÞ sem hafa áhuga á efni tengdu stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum. Tilgangur hópsins er einkum að geta með öflugri hætti deilt sérhæfðu efni sem tengist stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum og að skapa vettvang fyrir félaga til að ræða málefni tengd stafrænni verslun.

Við bjóðum SVÞ félaga velkomna. Vinsamlegast smellið hér og sækið um inngöngu. Gefa þarf upp nafn fyrirtækis sem er aðili að SVÞ og netfang viðkomandi hjá því fyrirtæki. Athugið að lesa leiðarljós hópsins, þegar inn er komið, og sérstaklega þau gögn sem vísað er í varðandi samkeppnismál.

Faghópur um stafræna verslun stofnaður

Faghópur um stafræna verslun stofnaður

Stofnfundur Faghóps um stafræna verslun var haldinn mánudaginn 12. nóvember sl. í Hyl, Húsi atvinnulífsins.

Farið var yfir hvernig faghópar innan SVÞ starfa og þann ramma sem þarf að skapa til að tryggja að farið sé eftir lögum og reglum. Einnig var farið var yfir þau mál sem rædd voru á stofn-undirbúningsfundi hópsins þann 29. október og talið er að verði helstu verkefni hópsins. Þar má helst nefna:

 • Hvernig jafna megi samkeppnisstöðu íslenskra netverslana við erlenda samkeppnisaðila.
 • Aðgengi íslenskra netverslana að greiðslugáttum sem auðvelda samkeppni við erlenda aðila.
 • Flutninga- og sendingamál og hvort mögulegt sé að jafna samkeppnisstöðu íslenskra netverslana gagnvart erlendum samkeppnisaðilum í þeim málaflokki.
 • Afnám niðurgreiðslna á póstsendingum frá Kína.
 • Tolla- og skattaumhverfið með því tilliti að auðvelda íslenskum netverslunum samkeppni við erlenda samkeppnisaðila og auðvelda íslenskum netverslunum að selja og senda á erlenda markaði.
 • Aðgengi að nýsköpunarsjóðum fyrir verslunar og þjónustufyrirtæki.
 • Eflingu menntunar og þekkingar á sviði stafrænnar verslunar.

Var Braga Þór Antoníussyni, markaðsstjóra Elko, falið að fara með formannsembættið til bráðabirgða þar til stjórn verður formlega skipuð. Formlegur stofnfundur þar sem stjórn verður skipuð og gengið verður frá gögnum í kringum stofnun hópsins mun fara fram miðvikudaginn 5. desember kl. 13:30 í Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Rvk.

Þátttaka í hópnum er heimil félagsmönnum og aðildarfyrirtækjum SVÞ.

Stofnun Faghóps um stafræna verslun

Stofnun Faghóps um stafræna verslun

Undirbúningsfundur að stofnun faghóps um stafræna verslun var haldin í Húsi atvinnulífsins 29. október sl.  Rætt var um í hvers konar málefnum slíkur hópur gæti beitt sér og ákveðið að stefna að formlegum stofnfundi mánudaginn 12. nóvember næstkomandi. 

Helstu mál sem talið var að faghópurinn gæti beitt sér í voru: 

 • Slæm samkeppnisstaða íslenskra netverslana gagnvart erlendum samkeppnisaðilum 
 • Hár flutnings- og sendingarkostnaður sem hamlar dreifingu 
 • Þjónustugæði flutnings- og sendingarþjónustu 
 • Afnám niðurgreiðslna póstflutninga frá Kína vegna alþjóðlegra samninga 
 • Tolla- og virðisaukaskattsmál í tengslum við stöðu íslenskra verslana gagnvart erlendri samkeppni 
 • Flækjustig tollamála og annarrar pappírsvinnu við útflutning, þ.e. fyrir sölu úr íslenskum vefverslunum inn á erlenda markaði 
 • Skortur á aðgengi að sjóðum sem styrkt geta nýsköpun í stafrænni verslun 
 • Nauðsyn þess að efla menntun á sviði stafrænnar verslunar 

SVÞ hvetur alla þá sem koma að einhverju leyti að stafrænni verslun til að taka þátt í starfinu; vefverslanir, tæknifyrirtæki sem þjónusta stafræna verslun, flutningageirinn, markaðsfyrirtæki og aðrir. 

Stofnfundurinn verður haldinn mánudaginn 12. nóvember nk. kl. 13:30 í Hyl, Húsi atvinnulífsins.

Þátttökurétt hafa allir þeir sem eru aðilar að SVÞ. Skráningarsíðu samtakanna má finna hér.  

Þeir sem sækja ætla fundinn eru beðnir um að skrá sig hér fyrir neðan:

* indicates required