Leiðtogi nóvember mánaðar stefnir á að fækka kaffibollunum!

Leiðtogi nóvember mánaðar stefnir á að fækka kaffibollunum!

Leiðtogi nóvember mánaðar hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu er Berglind R Guðmundsdóttir, innkaupastjóri ELKO.

En hver er Berglind og hvað er hún að sýsla þessa dagana?  Við báðum Berglindi um að gefa okkur innsýn inní líf innkaupastjóra ELKO og byrjuðum á því að spyrja útí starfið hennar. 

Starfið er mjög skemmtilegt, fjölbreytt og ótrúlega lifandi. Ég leiði innkaupasvið ELKO en undir það fellur allt sem snýr að innkaupum og vörustýringu; frá pöntunum, flutningi, tollun og innsetningu allra vara sem eru til sölu í ELKO á vef. Undir sviðið fellur einnig að finna nýjar og spennandi vörur til að bjóða viðskiptavinum og koma til móts við þarfir viðskiptavina enda er það sem skiptir þig máli skiptir okkur máli sem er loforð ELKO og við höfum það að leiðarljósi ásamt stefnunni sem er að hjálpa öllum að njóta ótrúlegar tækni. 

Hvað er skemmtilegast við starfið?

Hversu lifandi það er og enginn dagur er eins, líkt og öll sem eru í smásölugeiranum þekkja. Svo eru að sjálfsögðu öll frábæru samstarfsfélagarnir sem eru jafn ólík og þau eru mörg sem gera starfið skemmtilegt og gefandi en eins og öll vita þá gerast töfrar þegar teymi vinna vel saman.

Nú vitum við að það skiptir miklu máli að hafa ástríðu fyrir starfinu sínu. Hvað hefur þú gert til að viðhalda ástríðunni fyrir starfinu þínu?  

Með því að sækja mér meiri þekkingu í gegnum nýjar áskoranir og vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem þau gera.

Segðu okkur frá þínum staðlaða vinnudag? 

Enginn dagur er eins, en flesta daga eru fundir með fólki innan ELKO, innan Festi og svo með birgjum. Hef gaman af því að hafa nóg að gera og vera með góða yfirsýn yfir þau verkefni sem liggja fyrir. Finnst best að byrja vinnudaginn á kaffibolla með samstarfsfólki og léttu spjalli áður en dagskrá dagsins hefst, er yfirleitt búin að renna hratt yfir tölvupóstinn og helstu atriði áður en ég mæti á skrifstofuna.

Hvaða vana eða venju langar þig til að breyta?

Er ekki viss um að það sé einhver vani sem ég myndi vilja breyta, kannski fækka kaffibollunum á daginn.

Ef þú værir bíll, hvernig bíll værir þú?

Já það er nú það, kannski bara Audi; traust, áreiðanleg og nýjungagjörn.

Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu þessi misserin?

Hlusta töluvert á hlaðvörp, t.d. Athafnafólk með Sesselju Vilhjálmsdóttur, er í FKA til að bæta við tengslanet og þekkingu. Læri einnig mjög mikið af samstarfsfólkinu sem og fjölskyldu og vinum sem öll hafa mismunandi þekkingu og reynslu til að deila. Sæki auk þess námskeið reglulega til að auka færni og bæta þekkingu.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á áætlun næsta árs ásamt undirbúningi útsölunnar sem hefst strax á milli jóla og nýárs. Einnig er undirbúningur talningar sem er í janúar hafinn og svo eru önnur verkefni sem snúa að því að einfalda og betrumbæta innkaupaferla ásamt öðrum spennandi verkefnum sem koma ný inn þessa dagana.

Stafræn þróun, sjálfbærni og símenntun og endurmenntun er mál málanna í dag.  Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi? 

Sjálfbærni, samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið hafa verið ofarlega á baugi hjá ELKO síðustu ár og munu verða það áfram. ELKO hefur í gegnum árin sett aukna áherslu á umhverfismál þar sem kappkostað er við að draga úr kolefnisspori með markvissri flokkun úrgangs, móttöku og endursölu á notuðum búnaði, rafrænum reikningum, flokkun og orkusparnaði svo dæmi séu tekin.

ELKO er ábyrgt fyrirtæki sem leggur metnað í störf sín með skilvirkni og framsýni að leiðarljósi og hefur fyrirtækið sett sér stefnu til framtíðar um að leggja áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.

Stafræn þróun er okkur í ELKO hugleikin en með nýjum vef hefur upplifun viðskiptavina á að versla á vefnum tekið stakkaskiptum. Það sem snýr að innkaupasviði þá hafa ferlar verið einfaldaðir og gerðir stafrænir, minnkuðum alla pappírsnotkun um 95% á síðustu tveimur árum, leitumst við að finna og bjóða vörur sem eru betri fyrir umhverfið að því leiti að þær eru úr endurunnum efnum sem og bjóða hringrásarvörur, þeas vörur sem eru endurunnar, t.d. iPhone símar og Apple úr.

Varðandi símenntun  og endurmenntun þá stendur öllu starfsfólki ELKO til boða að sækja rafræn námskeið hjá Akademias, fyrirlestra hjá Dokkunni og Stjórnvísi sér að kostnaðarlausu og vet ég folk til að nýta sér þetta ásamt því að það er veittur sveigjanleiki í vinnu ef fólk er að sækja sér meiri menntun.

_______

Um ELKO:

ELKO er stærsta raftækjaverslun landsins en verslunin opnaði þann 28. febrúar árið 1998 og varð strax leiðandi á sínu sviði á Íslandi. ELKO rekur sex verslanir sem staðsettar eru í Lindum, Skeifunni, Granda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Akureyri og Vefverslun elko.is. Starfsmenn félagsins eru yfir 200 og er fyrirtækið 100% í eigu Festi hf. Frá fyrsta degi hefur ELKO keppt á forsendum þess að bjóða þekkt vörumerki raftækja á lægra verði ásamt góðri þjónustu sem til dæmis samanstendur af 30 daga skilarétti, framlengdum skilarétti á jólagjöfum og fermingargjöfum (allt að 105 daga skilaréttur) og 30 daga verðöryggi á vörum ELKO sem keyptar eru í ELKO. 

ELKO hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2008.

_______

Hver er að gera góða hluti í þínu umhverfi?

SVÞ leitar af fólki innan samtakanna sem er að gera góða hluti.  Hver er leiðtoginn þinn?
Smelltu hér til að tilnefna þinn leiðtoga.

 

Leiðtogi októbermánaðar finnst mikilvægt að lifa í núinu og finna jafnvægi í hlutunum

Leiðtogi októbermánaðar finnst mikilvægt að lifa í núinu og finna jafnvægi í hlutunum

Leiðtogi október 2022 hjá SVÞ Samtökum verslunar og þjónustu er Aldís Arnardóttir, sviðsstjóri verslanasviðs 66°Norður.

Á sama tíma og við óskuðum Aldísi til hamingju með tilnefninguna fengum við hana til að svar nokkrum spurningum.

Aldís, segðu okkur frá starfinu þínu, hvað einkennir starfið þitt?

Ég hef síðastliðin 11 ár leitt verslanasvið fyrirtækisins. Tekjuhæsta og jafnframt fjölmennasta svið fyrirtækisins. Á Verslanasviði starfa um 100 starfsmenn, á íslandi og erlendis.

Starfið er mjög fjölbreytt og krefst mikilla samskipta, bæði við fólk í mínu teymi og annarra innan og utan fyrirtækisins. Ég og mitt teymi leiðum öll þau mál sem heyra undir verslanarekstur fyrirtækisins sem telur í heildina 13 verslanir, 11 á Íslandi og 2 í Danmörku.

Stefnt er að opnun 14 verslunarinnar á næstu vikum. Það hefur verið mikill vöxtur hjá félaginu síðustu ár og búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gefandi að fá að vera hluti af þeirri vegferð sem við erum á. Þessa dagana er ég mikið með hugann við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins á erlendri grunndu og þá hvað þurfi að gerast til að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. 

Hvað er skemmtilegast við starfið þitt? 

Ég myndi segja að það sem væri skemmtilegast væri fjölbreytnin sem fylgir starfinu en ásamt því þá er ótrúlega dýrmætt að eiga góða liðsfélaga innan fyrirtækisins sem allir hafa svo mikið fram að færa, með ólíkan bakgrunn og þekkingu.

Sömuleiðis er vinnustaðurinn sjálfur frábær, mikið um að vera og vel hugsað um starfsfólk. Mikið lagt uppúr því að hafa gaman af vinnunni og í vinnunni!

Hvernig viðhelduru ástríðunni fyrir starfinu?

Ég leitast mikið eftir því að afla mér aukinnar þekkingar, takast á við nýjar og spennandi áskoranir ásamt því að setja mér háleit markmið sem heldur manni við efnið og viðheldur ástríðunni fyrir starfinu. 

Hvernig er hinn týpiski vinnudagur? 

Hann er alla jafna mjög fjölbreyttur.

Enginn dagur er eins en ætli ég sé ekki nokkuð mikið á milli hinna ýmsu funda, eða það myndu allavega mínir nánustu samstarfsmenn segja. Ég er orðin nokkuð sjóuð í að halda mörgum boltum á lofti og hef gaman af að hendast úr einu í annað. Annars byrja ég vinnudaginn langoftast á einum kaffibolla, fer yfir dagskrá dagsins og renni yfir tölvupósta.

Að halda teyminu mínu upplýstu og inní málum skiptir mig miklu máli og því fer alltaf ákveðinn tími dagsins í að ræða við hópinn minn, taka stöðuna á verkefnum og fylgja eftir því sem er í gangi. Annars eru stóru verkefnin þessa stundina búðaropnanir erlendis sem tekur ágætis tíma úr dagatalinu þessa dagana.

Hvaða vana myndir þú vilja breyta?

Ég veit ekki hvort það er eitthvað sem ég myndi endilega vilja breyta eins og staðan er núna.

Ég gæti eflaust talið upp ýmislegt eins og að vakna aðeins fyrr, yfir í að drekka minna kaffi og borða minna súkkulaði. En finnst hreinlega mikilvægara að njóta þess eins og staðan er núna, lifa í núinu og finna ákveðið jafnvægi á hlutunum.

Ef þú værir hundur, hvernig hundur værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér? 

Held ég sé ekki nógu vel að mér um hunda til að átta mig á því hvaða tegund það gæti verið. Ætli ég væri ekki einhver sem hefði gaman að því að vera í kringum fólk, myndi hlaupa um allar trissur ef mér yrði sleppt út og ætti kannski örlítið erfitt með að fylgja fyrirmælum, en að sama skapi með fínasta jafnaðargeð.

Hvað ertu að læra eða bæta við þekkingu hjá þér þessa dagana?

Ég hlusta töluvert á hlaðvörp og hef mjög gaman af því að læra af fólki sem er að vinna að áhugaverðum hlutum eða er að gera það gott í atvinnulífinu. Sömuleiðis læri ég mikið af fólkinu í kringum mig, bæði í vinnunni og utan hennar.

Ég hef t.d. mjög gaman af því að vinna með fólki sem nálgast hlutina á annan hátt en ég. Annað slagið tek ég svo uppá því að hlusta á áhugaverðar bækur sem snúa að leiðtogahæfni eða ákveðnu málefni sem mig langar að styrkja mig í.

Núna síðast hlustaði ég á Measure what matters eftir John Doerr, hef hlustað nokkrum sinnum á hana og því var það fínasta upprifjun. Bókin fjallar um markmiðasetningu eða OKR´s (Objective and Key Results) sem er aðferðafræði sem hefur gagnast okkur í 66°Norður vel í þó nokkurn tíma. 

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Árið hefur einkennst af búðaropnunum en við opnuðum í sumar glæsilega verslun í nýjum verslunarkjarna á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.

Samhliða því hefur London átt hug minn og hjarta. Við erum að opna okkar fyrstu verslun í Bretlandi, á Regent Street í London, núna á næstu vikum og því nóg að gera í kringum það. Verkefnið er mikil fjárfesting og hefur átt sér langan aðdraganda.

Það má segja að við séum búin að vera að undirbúa okkur fyrir vöxt erlendis frá því ég kem inní fyrirtækið fyrir 11 árum. Framtíðarsýnin hefur á þeim tíma verið mjög skýr og opnun í London í samræmi við það.

Sjálfbærni er ein af þremur áherslum SVÞ þessi misserin  Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?

Sjálfbærni er fyrirtækinu mjög mikilvæg og hefur verið hluti af okkur frá stofnun, við framleiðum flíkur sem eiga að endast og ganga á milli kynslóða. Við erum með viðgerðastofu sem gerir við fatnað og erum sömuleiðis með okkar eigin verksmiðjur sem gefur okkur tækifæri til þess að nýta allt umfram efni og framleiða úr því t.d. fylgihluti, töskur ofl.

Fyrirtækið hefur verið Kolefnisjafnað síðan 2019 og sömuleiðis hlaut fyrirtækið alþjóðlega sjálfbærnivottun B Corp™ fyrst íslenskra fyrirtækja fyrr á þessu ári.

Vottunin hljóta þau fyrirtæki sem hafa uppfyllt hæstu kröfur um samfélagslega og umhverfislega frammistöðu í starfsemi sinni á ábyrgan og gagnsæjan hátt.

____________

Um 66°Norður

66°Norður er eitt elsta framleiðslufyrirtæki á Íslandi. Árið 1926 hóf fyrirtækið framleiðslu á sérstökum hlífðarfatnaði fyrir sjómenn og fiskverkunarfólk á norðurslóðum.

Með tímanum þróaðist fyrirtækið yfir í hönnun og framleiðslu á hágæða útivistarfatnaði. Í dag starfa um 400 manns hjá fyrirtækinu og starfar fyrirtækið í fjórum löndum, á Íslandi, í Danmörku, Bretlandi og Lettlandi.

Á Íslandi rekur Sjóklæðagerðin ellefu verslanir undir vörumerkinu 66°Norður og í Kaupmannahöfn eru tvær verslanir þar sem sú fyrsta opnaði í lok árs 2014.

Árið 2019 var opnuð skrifstofa í Lundúnum. Í lok árs 2022 mun fyrirtækið opna nýja verslun 66°Norður í Lundúnum.

66°Norður hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2014.

Leiðtogi september mánaðar segist vera nörd á hæsta stigi sem spilar enn tölvuleiki

Leiðtogi september mánaðar segist vera nörd á hæsta stigi sem spilar enn tölvuleiki

Samtök verslunar og þjónustu kynnir leiðtoga september mánaðar!

Dagbjört Vestmann, rekstrarstjóri netverslunar Samkaupar, Nettó

En hver er Dagbjört? Fyrir hverju brennur hún og hvað er hún að gera þessi misserin?

Við byrjuðum á að forvitnast um starf rekstrarstjóra netverslunar Nettó.  Segðu okkur Dagbjört, hvað einkennir starfið þitt?

Starfið mitt er mjög fjölbreytt, svarar Dagbjört, og snertir flesta fleti netverslunar. Vefumsjón og verkefnastýri þeim ólíku verkefnum sem unnin eru til að koma nýju netverslun Nettó í loftið ásamt daglegum rekstri í tiltekt á pöntunum og afhendingu.

Hvað er skemmtilegast við að vera rekstrarstjóri netverslunar hjá Samkaup?

Skemmtilegast er að vinna með þeim ólíku aðilum sem koma að netto.is. Að sjá svo verkefni vaxa frá því að vera hugmynd á teikniborðinu og verða að veruleika. Það er líka ótrúlega gaman að sjá jákvæð viðbrögð við höfum fengið við nýja vefnum og hversu margir hafa tekið þátt í notendaprófunum.

Hvernig viðheldurðu ástríðunni fyrir starfinu?

Það sem viðheldur ástríðu er þessi öra þróun sem á sér stað í netverslun og hvernig hún auðveldar fólki lífið. Matvaran er einstaklega spennandi þar sem hún er órjúfanlegur hluti af daglegu lífi einstaklinga. Líka alltaf þessi vinna að gera betur í dag en í gær.

Hvernig er hinn staðlaði vinnudagur hjá þér?

Minn staðlaði vinnudagur undanfarið hefur einkennst af mörgum verkefna fundum með ólíkum samstarfsaðlum sem koma að netverslunni. Fundir tengt hönnun og viðmóti, tenginum við sölukerfi, tínslu og aksturskerfi. Allt þarf að tala saman svo kaupferlið gangi smurt fyrir sig. Svo koma inn mál á milli funda tengd daglegum rekstri sem þarf að leysa og þau eru mismunandi dag frá degi.

Hvaða vana myndir þú vilja breyta?

Það væri að hætta að drekka Monster orkudrykk, á mjög erfitt með að hætta því.

Ef þú værir bíll, hvaða bíll værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér?

Ég veit svo lítið um bíla og þekki ekki muninn á Benz og BMW. En myndi lýsa mér sem frekar vanaföst í persónulega lífinu en lifi og hrærist í stöðugum breytingum í vinnunni. Er nörd á hæsta stigi sem spilar enn tölvuleiki og hef ótrúlega gaman að því að læra og tileinka mér nýja hluti.

Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu?

Þar sem ég hef mikinn áhuga á netverslun og stafrænni markaðssetningu þá er ég að lesa Building a Storybrand eftir Donald Miller. Á Udemy er ég að taka námskeið sem heitir Growth Hacking with Digital Marketing. Er líka með nokkur hlaðvörp tengd stafrænni markaðssetningu og netverslun sem ég hlusta á til og frá vinnu. Reyni að ná a.m.k 30 mín á dag í eitthvað fræðandi efni.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Núna er ég helst að vinna í að koma netverslun Nettó úr notendaprófunum og yfir á netto.is ásamt að fínpússa viðmótshönnun netverslunar inn í Samkaupa appinu sem er væntanleg bráðum.

Stafræn þróun, sjálfbærni og sí-og endurmenntun er mál málanna í dag. Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?

Stafræn Þróun er orðin órjúfanlegur hluti af fyrirtækjum ásamt samfélagslegri ábyrgð að vera sjálfbær. Sí-og endurmenntun myndi ég telja mikilvægan part í þeirri árangri þeirrar vinnu. Tæknin og hvaða lausnir eru í boði er að breytast það hratt að ef þekking er ekki uppfærð reglulega með símenntun þá eiga fyrirtæki í hættu að dragast aftur úr.

____________________________________

Um Samkaup:
Samkaup reka 60 verslanir víðsvegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland og Samkaup strax. Samkaup hefur verið félagi í SVÞ frá árinu 1999.

____________________________________

SVÞ leitar eftir tilnefningum til leiðtoga mánaðarins.  Hver er að gera góða hluti í kringum þig og hafa jákvæð áhrif á samfélagið?
SMELLTU HÉR til að tilnefna þinn leiðtoga.

Leiðtogi ágúst mánaðar hoppar af kæti þegar hún sér samstarfsfólkið vaxa!

Leiðtogi ágúst mánaðar hoppar af kæti þegar hún sér samstarfsfólkið vaxa!

Samtök verslunar og þjónustu kynnir leiðtoga ágúst mánaðar!

Helga Birna Brynjólfsdóttir, sviðsstjóri skrifstofu og þjónustu hjá JÁ

En hver er Helga Birna? Fyrir hverju brennur hún og hvað er hún að gera þessi misserin?

Við byrjum á að biðja Helgu Birnu að segja okkur frá starfinu sínu, hvað einkennir það?

Sem sviðstjóri skrifstofu og þjónustu þá mundi ég segja að starfið einkennist af samvinnu við alla á skrifstofunni. Hvort sem það er að upplýsa um rekstrartölur, viðhalda þjónustu í 1818, innleiða jafnlaunavottun, vökva blómin og allt þar á milli.

Hvað er skemmtilegast við starfið?

Það er auðvelt að svara þessari spurningu, það er starfsfólkið 😉 

Það er ótrúlega skemmtilegt og metnaðarfullir starfsfólk sem vinna hér. Umhyggjan á vinnustaðnum er mikil og sýnir það sig að fólk leggur sig fram við að hjálpa hvort öðru í starfi og utan vinnu. Það er auðvelt að ræða verkefnin sem eru í gangi og spegla þau við starfsemina. Með því að ræða málin koma oft nýir vinklar á verkefnin sem hjálpar okkur að þróast.

Hvernig viðheldurðu ástríðunni fyrir starfinu?

Það gefum mér mestu orkuna í vinnunni að sjá framfarir og ánægju starfsmanna. Þegar við höfum verið að vinna að einhverju verkefni og við sjáum starfsfólk vaxa og eflast, þá fæ ég algjört kikk. Þetta er svona eins og ef ég væri að þjálfa handbolta og væri búin að vera æfa einhverja taktík sem gengur svo upp í leikjum, 1-0! Þá hoppa ég af kæti.

Hvernig er hinn staðlaði vinnudagur?

Ég er svo heppin að dagarnir eru fjölbreyttir hjá mér, það fer eiginlega eftir því hvaða tími mánaðar er, hver verkefnin eru. Þar sem ég er með marga hatta þá fara oft dagarnir í lok mánaðar í að klára mánaðaruppgjör, senda út reikninga og sjá til þess að allar kröfur séu greiddar, það þarf allt að skila sér í bókhaldið. Svo koma verkefni inn á milli eins og umhverfisstefnan, jafnlaunavottun, öryggi í vinnuumhverfi og þess háttar sem þarf að innleiða og viðhalda.

Hvaða vana myndir þú vilja breyta?

Oft finnst mér svo mörg spennandi verkefni í gangi og mig langar að taka þátt í öllu. Það þýðir að of margir boltar eru á lofti. Þá er mikilvægt að forgangsraða sem getur oft verið snúið. Sum verkefni eru skemmtilegri en önnur en hafa minni forgang. Það er hlutur sem ég þarf að breyta í vinnulagi mínu, bæta forgangsröðun.

Ef þú værir bíll, hvaða bíll værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér?

Ég væri vel bónaður grænn sportbíll sem er kraftmikill og tekur góða spretti. Hann er kvikur, ferskur og sportlegur því ég elska allar íþróttir. Grænn er uppáhalds liturinn minn.

Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu?

Ég er í stjórn handknattleiksdeildar Víkings og það hefur kennt mér ýmislegt. Í svona sjálfboðavinnu þarf að ganga í öll verk og vinna óeigingjarnt starf. Þá er lykillinn að hafa gaman, ef við gerum leiðinleg verkefni skemmtileg þá er það engin fórn heldur bara árangur.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Þessa dagana er ég mest að vinna í uppgjöri þar sem mánuðurinn er að klárast. Svo erum við að jafnlaunavotta fyrirtækið sem þarf að klárast fyrir áramót þannig að mikil vinna fer í það. Við erum líka að breyta ja.is vefsíðunni okkar þar sem sjálfsafgreiðslan verður meiri og viðskiptavinir geta uppfært upplýsingarnar á vefnum sjálfir. Þetta er verkefni sem er búið að vera í gangi lengi og við erum núna að sjá blómið blómstra. Svo verð ég að minnast á vöruleitina á ja.is því hún er algjör snilld, mæli með að skoða hana þegar þú ert að leita að einhverju.

Stafræn þróun, sjálfbærni og símenntun og endurmenntun er mál málanna í dag. Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?

Já gaf út símaskrá á sínum tíma, nú er hún komin á ja.is og við erum svo að fara enn lengra með það verkefni og færa skráningar í sjálfsafgreiðslu með allri þeirri stafrænu þjónustu sem því fylgir.

Gallup hefur einnig verið að þróa nýtt platform þar sem viðskiptavinir geta sótt gögn og upplýsingar á aðgengilegan hátt með fjölbreyttri gagnvirkni. Starfsmannarannsóknir Gallup voru að innleiða sjálfsafgreiðslulausn sem heldur utan um vinnustaðakannanir þar sem fyrirtæki geta valið spurningar úr stórum gagnabanka af sannprófuðum spurningum og fengið niðurstöður birtar strax ásamt samanburði við önnur fyrirtæki, bæði á heimsvísu sem og innanlands.
Í allri þessari þróun innan fyrirtækisins fylgir heilmikill lærdómur fyrir starfsfólk og nýjar áskoranir.

 

________________________________________________________________________________________

Um JÁ:

Já hf. samanstendur af ja.is, 1818, Gallup og Markaðsgreiningar. Vörumerkin eru öll á sviði upplýsingatækni á Íslandi þar sem Já hf. auðveldar viðskipti, samskipti og ákvarðanatöku viðskiptavina og hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2010.

________________________________________________________________________________________

SVÞ leitar eftir tilnefningum til leiðtoga mánaðarins.  Hver er að gera góða hluti í kringum þig og hafa jákvæð áhrif á samfélagið?
SMELLTU HÉR til að tilnefna þinn leiðtoga.