FRAMKVÆMDASTJÓRN ESB LEGGUR FRAM TILLÖGU UM FRAMLEIÐENDAÁBYRGÐ Á TEXTÍLVÖRUM

FRAMKVÆMDASTJÓRN ESB LEGGUR FRAM TILLÖGU UM FRAMLEIÐENDAÁBYRGÐ Á TEXTÍLVÖRUM

Hinn 5. júlí 2023 var birt tilkynning á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að leggja fram tillögu þess efnis að textílvörur verði háðar framlengdri framleiðendaábyrgð (e. Extended Producer Responsibility, skammstöfuð EPR).

Í stuttu máli felur EPR í sér að mengunarbótareglan er teygð út þannig að framleiðendur og innflytjendur textílefna, þ. á m. fatnaðar, verða látnir bera ábyrgð á slíkum vörum frá upphafi til enda. Hér á landi hefur EPR verið þannig útfærð að framleiðendur og innflytjendur vara greiða úrvinnslugjald við innflutning, tekjur af gjaldinu renna í Úrvinnslusjóð sem nýtir þær til að stuðla að því vörur sem eru orðnar að úrgangi rati í æskilegan úrgangsfarveg sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, þ.e. undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, aðra endurnýtingu, t.d. orkuvinnslu eða förgun.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB stefnir m.a. að því að fjölga störfum innan ESB-ríkjanna og spara neytendum á svæðinu fé. Ætlunin er að hvetja neytendur til að draga úr textílúrgangi og velja vörur sem eru bæði hannaðar til að endast lengi og eru þægilegar viðfangs m.t.t. úrgangsmeðhöndlunar. Samhliða er lagt upp með að vinna gegn útflutningi slíks úrgangs til landa utan ESB.

Enn á tillagan eftir að rata á borð Evrópuþingsins og -ráðsins en svo virðist sem stefnt sé að því að hún taki gildi í ESB-ríkjunum árið 2025. Ekki liggur þó endanlega fyrir hvernig tillagan muni líta út en gera má ráð fyrir að hún verði innleidd í íslenskan rétt.

Eftirfarandi er vefslóð á tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB: https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_23_3635

Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt@svth.is, s. 864-9136.

 

Frá lögfræðisviði SVÞ | Mikilvægi réttra verðmerkinga

Frá lögfræðisviði SVÞ | Mikilvægi réttra verðmerkinga

Á þessu ári hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa fellt þrjá úrskurði sem tilefni er til vekja athygli á. Í öllum tilvikum var deilt um hvort verslun væri bundin við ranga verðmerkingu á söluvörum. Úrlausnir kærunefndarinnar gefa til kynna að vanda þarf til verka við verðmerkingar, hvort heldur er á verslunarvörum í hefðbundinni verslun eða þegar slíkar vörur eru seldar í netverslun.

Í tveimur úrskurðum kærunefndarinnar frá 28. janúar 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samninga um sölu á verkfærasettum þar sem mistök höfðu leitt til þess að uppgefið tilboðsverð nam aðeins 10% af því verði sem til stóð að bjóða. Ekki var fallist á kröfu neytanda og var verslunin því óbundin af hinu ranga verði. Í úrskurði kærunefndarinnar frá 18. október 2022 var deilt um hvort verslun væri skylt að efna samning um kaup á fjórhjóli þar sem mistök höfðu leitt til þess að verð þess hafði verið merkt einni milljón króna lægra en til stóð. Fallist var á kröfu neytanda og var úrskurðurinn efnislega á þá leið að versluninni væri skylt að standa við hið rangt merkta verð.

Af lestri úrskurðanna verður ráðið að það hallar í verulegum atriðum á verslunina þegar mistök verða við verðmerkingu. Því er afar brýnt að ganga úr skugga um að vörur sé rétt verðmerktar. Hafa ber í huga að ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, eru svohljóðandi:

Fyrirtæki skal selja vöru á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.

Mjög mikið þarf að koma til eigi að takast á sýna fram á að kaupanda hafi verið mistökin ljós.

Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.

Frá lögfræðisviði SVÞ | Mikilvægi réttra verðmerkinga

Frá lögfræðisviði SVÞ | Hækkun úrvinnslugjalds framundan

Um þessar mundir er frumvarp til fjárlaga 2023 til umfjöllunar á Alþingi. Því fylgir svokallaður bandormur sem inniheldur tillögur um breytingar á ýmsum skattalögum. Meðal þeirra atriða sem eru til umfjöllunar í bandorminum eru breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.

Næstu áramót taka gildi lög sem hafa það í för með sér að Evrópuskuldbindingar sem snúa að hringrásarhagkerfinu verða innleiddar í innlendan rétt. Í þeim felst m.a. að lögð verður skylda á innflytjendur og framleiðendur ýmissa vara til að fjármagna úrvinnslu úrgangs fleiri vöruflokka en áður. Jafnframt ber þessum aðilum að fjármagna sérstaka söfnun heimilisúrgangs en samhliða verða merkingar sorptunna samræmdar um allt land, þeim fjölgað, ásamt fjölgun íláta á grenndarstöðvum.

Af bandorminum leiðir að í farvatninu er umtalsverð hækkun úrvinnslugjalds sem er annars vegar er lagt á innflutning samhliða tollafgreiðslu vara og hins vegar á innlenda framleiðslu. Eru dæmi um að hækkun muni í tilviki nokkurra vöruflokka verða allt að þreföld. Grundvallast hækkunin á mati Úrvinnslusjóðs á væntum kostnaðarauka sem innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur í för með sér.

Rétt er að taka fram að frekari breytinga er að vænta á næstunni þar sem Evrópuskuldbindingarnar fela m.a. í sér skyldu aðildarríkjanna til að aðlaga gjaldhæð úrvinnslugjalds að endurnýtingar- og endurvinnslumöguleikum vara.

Skrifstofa SVÞ hyggst á næstunni boða til félagsfundar þar sem framangreindar breytingar og forsendur þeirra verða kynntar. Meira um það síðar.

Nánari upplýsingar veitir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.