Samkaup hlutu Menntasprota atvinnulífsins

Samkaup hlutu Menntasprota atvinnulífsins

Samkaup hf. hlutu Menntasprota atvinnulífsins 2020 en verðlaunin voru veitt í Hörpu í gær, 5. febrúar, í tilefni af Menntadegi atvinnulífins. Þetta er í sjöunda sinn sem verðlaunin eru veitt.

SVÞ óskar þessu öfluga félagsfólki okkar til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu á öflugu fræðslu- og menntastarfi!

„Þau hafa sett sér metnaðarfulla fræðslustefnu og þetta hefur sannarlega skilað miklum árangri og þess vegna hljóta þau þessi verðlaun,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra eftir að hafa afhent fulltrúum Samkaupa verðalaunin. „Þið eruð vel að þessu komin,“ skaut Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands inn í.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Samkaup sé til fyrirmyndar og að stjórnendur fyrirtækisins hafi tekið markvissa ákvörðun um nýtt upphaf í fræðslu- og þekkingarmálum innan fyrirtækisins. Dómnefnd trúir því einnig að skuldbinding fyrirtækisins í þessum efnum sé komin til að vera. Samkaup hefur sett fram skýr markmið með átaki sínu og sérstök áhersla lögð á hæfni og færni starfsfólks á öllum sviðum reksturins samkvæmt dómnefndinni. Jákvætt viðhorf stjórnenda, mikil starfsánægja, gott almennt viðhorf og möguleikar fyrir nýtt starfsfólk og viðskiptavini félagsins er einnig hrósað. Sérstakur vettvangur símenntunar meðal starfsfólks Samkaupa, sem fékk nafnið „Fræðsluskot Kaupmannsins“ er einnig mikið hampað af dómnefndinni. Tilgangurinn með verkefninu er að dýpka þekkingu starfsfólks Samkaupa. Fræðsluskot Kaupmannsins eru stutt og hnitmiðuð í eðli sínu og kennd á mismunandi vegu til þess að geta aðlagast þörfum og óskum bæði fyrirtækisins og starfsfólks hverju sinni.

„Samkaup leggur ríka áherslu á að styðja starfsfólk sitt til áframhaldandi starfsþróunar og er eitt af megin markmiðum fyrirtækisins að starfmenn Samkaupa fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu sem opnar tækifæri til frekari starfsþróunar innan fyrirtækisins og utan þess,“ segir Gunnur Líf Gunnardóttir, mannauðsstjóri Samkaupa. „Við hjá Samkaupum erum mjög stolt af þessum verðlaunum enda höfum við lagt mikla vinnu í skipulagða og markvissa fræðslu innan fyrirtækisins. Samkaup reka 60 verslanir víðs vegar um landið og það starfa tæplega 1.300 manns hjá okkur í 660 stöðugildum. Það er því mikið verk að stuðla að þekkingaröflun fyrir allt þetta fólk og að fá verðlaun fyrir vel unnin störf skiptir okkur miklu máli.“

Haldið er vel utan um starfsfólk sem sækir sér fræðslu og menntun, um leið og starfsfólk er hvatt til að auka við þekkingu sína. Þá hefur Samkaup verið leiðandi í þróun og mótun á Fagnámi fyrir verslun og þjónustu, ásamt því að fara nýjar leiðir í eflingu fræðslu innan fyrirtækisins.

„Þó við höfum fengið verðlaunin í ár stefnum að því að bæta okkur enn frekar í menntamálum á þessu ári. Í haust stefnum við til dæmis að því að setja af stað leiðtogaþjálfun Samkaupa sem er hluti af endurmenntun stjórnenda“ segir Gunnur Líf.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka Iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífins.

 

Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla var á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember sl. ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.

Rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar og mál því tengd.

Sara Dögg bendir m.a. á að kjarasamningar kennara séu íþyngjandi að því leyti að þar sé of mikil stýring á
störfum kennara. Það skapi umhverfi með endalausum hindrunum fyrir framþróun og vexti skólastarfs og skortur sé á trausti milli sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara.

Hlusta má á þennan hluta þáttarins hér: https://www.visir.is/k/154a02c4-ae95-4ed0-bc5c-d27addf2b7d0-1575802502064

Sara Dögg í Brennslunni um sjálfstæða skóla

Sara Dögg í Brennslunni um sjálfstæða skóla

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, var í viðtali í Brennslunni á FM957 þann 6. desember sl. í kjölfar greinar sem hún skrifaði á Vísi 5. desember sl. Hún ræddi um hægagang menntakerfisins og hversu erfitt virðist vera að gera breytingar. Einnig ræðir hún m.a. þröngar tímaskorður í kjarasamningum kennara sem koma í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika, kerfið sem ver sjálft sig og að í þessum málum virðist gleymast að eiga samtalið við kennara. Sjálfstæðir skólar eru hlutfallslega mun fleiri í nágrannalöndunum, þ.á.m. á Norðurlöndunum, gefa fólki valkosti í menntakerfinu og reynslan af þeim er almennt mjög góð. Þrátt fyrir það eiga sjálfstæðir skólar á brattann að sækja í íslensku menntakerfi.

Hlusta má á viðtalið í upptöku af þættinum hér, og hefst viðtalið á ca. 54:35 mín: https://www.visir.is/k/617dc052-3d40-4dc1-82b7-20c0314c3ac7-1575626409684