SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR sendu í dag hvatningu og tillögur til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. 

Heimsfaraldur COVID-19 hefur hraðað stafrænni þróun gríðarlega og ýtir enn frekar undir það bil sem þegar var farið að myndast meðal þeirra sem hafa og ekki hafa stafræna hæfni, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Einnig hafa fjölmargir aðilar, á borð við OECD, World Economic Forum og Sameinuðu þjóðirnar, lýst því yfir að faraldurinn hafi aukið enn á mikilvægi þess að brúa hið stafræna bil og að stafræn þróun muni leika lykilhlutverk við að koma efnahagskerfum heimsins úr kórónuveirukreppunni. 

Í hvatningunni lýsa SVÞ og VR miklum áhyggjum af stöðu stafrænnar þróunar í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði og skorti á stafrænni hæfni. Í greinargerð með tillögunum er m.a. vitnað í alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að Ísland er að dragast verulega aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við, ekki síst Norðurlandaþjóðunum, sem allar eru í fararbroddi í stafrænni þróun á heimsvísu. Þá er einnig bent á að mikil tækifæri séu til norræns samstarfs á þessu sviði og eru SVÞ og VR til að mynda þegar búin að koma á samstarfi við öfluga norræna aðila, m.a. um samstarf við Stafrænt hæfnisetur, sem er einn hluti af tillögum þeirra. 

Lesa má hvatninguna í heild sinni hér.

Lagðar eru fram fimm tillögur til að hraða stafrænni þróun hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki: 

  • Komið verði á samstarfsvettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskólasamfélags til að vinna að öflugri stafrænni framþróun í íslensku samfélagi og atvinnulífi,   
  • Mótuð verði heildstæð stefna í stafrænum málum fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf og farið í markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænni framþróun,   
  • Sett verði á fót Stafrænt hæfnisetur til eflingar stafrænni hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði, 
  • Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna verði útvíkkaður til að ná til stafrænna umbreytingaverkefna,
  • Áhersla verði lögð á það í menntastefnu og aðgerðum að efla stafræna færni á öllum skólastigum. 

Þegar er hafið samtal við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið og undirbúningur að Stafrænu hæfnisetri er hafinn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. 

Tillögurnar verða kynntar frekar á aðalfundi faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi sem fram fer í dag og verður sá hluti fundarins sýndur í beinni útsendingu í Facebook hóp SVÞ sem helgaður er stafrænum málum hér.

Nánari upplýsingar um tillögurnar, og greinargerð sem þeim fylgir má lesa hér fyrir neðan:

Click to read Stafræn þróun – hvatning til stjórnvalda

Upptaka: Fullt út úr dyrum á fyrirlestri um kortlagningu notendaupplifunar!

Upptaka: Fullt út úr dyrum á fyrirlestri um kortlagningu notendaupplifunar!

Fullt var út úr dyrum á fyrirlestri Berglindar Ragnarsdóttur, stjórnendaráðgjafa og þjónustuhönnuðar hjá CoreMotif þriðjudaginn 18. febrúar sl. Í einstaklega fróðlegum fyrirlestri fór Berglind yfir helstu atriði og ferli hönnunarhugsunar (e. design thinking) og kortlagningu notendaupplifunar (e. journey mapping). Hún lagði áherslu á að hlusta á notandann og hanna út frá hennar þörfum. Hún deildi líka með okkur fjölmörgum dæmum um áhugaverð verkefni, lausnir og árangur í tengslum við efnið.

Upptöku frá fyrirlestrinum má sjá hér fyrir neðan:

SVÞ félagar eiga kost á að taka þátt í frírri vinnustofu þriðjudagsmorguninn 25. febrúar nk. þar sem Berglind leiðir þá í gegnum kortlagningu notendaupplifunar. Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar og skrá þig.

Mikill áhugi á þróun í greiðslumiðlun

Mikill áhugi á þróun í greiðslumiðlun

Fundur SVÞ og KPMG um vegferð greiðslumiðlunar sem haldinn var 25. september sl. var mjög vel sóttur.

Á fundinum fluttu erindi þau Björg Anna Kristinsdóttir, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG og Ásgeir Ö. Ásgeirsson, tæknistjóri Meniga, þar sem þau fóru yfir núverandi landslag greiðslumiðlunar hérlendis, breytingar framundan og mögulega framtíðarþróun.

Þegar horft er til greiðslumiðlunar á Íslandi liggur fyrir að ekki hafa orðið breytingar á lögum og regluverki frá árinu 2011 þegar núgildandi lög voru sett. Hins vegar hafa neyslumynstur, væntingar viðskiptavina og krafa um snerpu og hraða breyst mikið á þessum tíma.

Ný atvinnugrein, fjártækni hefur komið fram, sem liggur á krossgötum fjármálaþjónustu og tækni, og mikill fjöldi nýrra fyrirtækja hefur sprottið upp. Ljóst er að fyrir þessa nýju leikendur og þá sem lengur hafa verið á markaði búa mikil tækifæri í PSD2 tilskipun Evrópusambandsins.

Með PSD2 er m.a. nýjum, leyfisskyldum þjónustuveitendum veittur aðgangur að greiðslureikningum og greiðslum af þeim, með samþykki viðskiptavinar. Tilskipunin hefur ekki verið innleidd hérlendis, sem hefur áhrif á framþróun og getur mögulega hægt á vexti á smágreiðslumiðlunarmarkaði. Það þýðir að öllum líkindum að úrræði og aðgengi verslunar- og þjónustufyrirtækja að nýjum lausnum mun ekki taka stórtækum breytingum fyrr en PSD2 verður lögleidd hérlendis og aðlögunartími innleiðingar er liðinn. Fram að þeim tíma verður flækjustig töluvert og má segja að markaðurinn sé á röskunarstigi (e. disruption).

SVÞ mun halda áfram að fylgjast náið með þróun á þessum markaði og halda félagsmönnum sínum upplýstum. Stefnt er að því að halda annan viðburð þegar frekar kemur í ljós hvernig PSD2 reglugerðin verður innleidd en athygli vekur að frumvarp varðandi hana er ekki á nýútkominni þingmálaskrá. Einnig er vinna í gangi hjá greiðsluráði Seðlabankans við kortlagningu á markaðnum. Við vonum að sú vinna muni varpa frekari ljósi á málin og hjálpi verslunar- og þjónustufyrirtækjum að átta sig betur á þessum frumskógi sem nútíma greiðslulausnir eru orðnar.

Fundinum var streymt og má sjá upptökuna hér fyrir neðan: