Jólatónleikar að toppa kortanotkun?

Jólatónleikar að toppa kortanotkun?

Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir í dag áhugaverða greiningu á kortanotkun á Íslandi í október s.l.

Þar segir m.a.; Heildar greiðslukortavelta í október sl. nam rúmum 94 milljörðum kr.  Veltan stóð nánast í stað á milli mánaða en jókst um 35% samanborið við október 2020. Sprenging er á milli ára í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsi, kvikmyndasýningum og viðburðum.

Um kortaveltu Íslendinga hérlendis

Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam 79,6 milljörðum kr. í október sl., 16,9% hærri en í október í fyrra og 20,1% hærri en í október 2019. Veltan jókst um 6% á milli mánaða. Velta skiptist nokkuð jafnt á milli verslunar og þjónustu, 54% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 46% í þjónustu.

Sprenging er á milli ára í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsi, kvikmyndasýningum og viðburðum. Velta í flokknum nam 1.089 milljónum kr. í október sl. samanborið við 61 milljón kr. á sama tíma í fyrra, þegar samkomutakmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins voru í hávegum hafðar. Skv. frétt mbl.is frá 5. október sl. er framboð jólatónleika í ár svipað og í venjulegu árferði. Miðasala á jólatónleika hefur venjulega hafist í byrjun september en fór seinna af stað í ár þegar miðasala á vinsælustu jólatónleikana hófst í byrjun október. Þegar kortavelta er skoðuð m.t.t. miðasölu á tónleika og aðra viðburði má sjá skýrt jólatónleika trend með tilheyrandi toppum í kring um september ár hvert. Miðað við innlenda kortaveltu bendir allt til að miðasala á jólatónleika hafi aftur náð sér á strik eftir mikinn skell árið á undan, en eins og næsta mynd sýnir var velta í flokknum nánast enginn þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst í apríl og nóvember 2020 en er nú að nálgast toppinn frá september 2018.

Velta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir hefur dregist saman um rúm 17%…

hinsvegar er velta í flokknum rúmlega tífalt hærri en hún var á sama tíma í fyrra!

Ferðahugur landans er því greinilega mikill. Velta með tollfrjálsa verslun jókst um 48,5% á milli mánaða og nam rúmum 523 milljónum kr. í október sl. Sem er næstum sjöföld aukning frá fyrra ári þegar ferðalög voru í lágmarki sökum faraldursins.

NÁNARI UPPLÝSINGAR ER HÆGT AÐ NÁLGAST HÉR

 

NETVERSLUNARPÚLSINN nýtt mælaborð íslenskra vefverslana

NETVERSLUNARPÚLSINN nýtt mælaborð íslenskra vefverslana

71% Íslendinga versla oftar við innlenda vefverslun en erlenda vefverslun.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem hefur verið keyrð vikulega frá því í mars 2021 á íslensku þjóðinni kemur m.a. í ljós að um 71% Íslendinga versla frekar í innlendri vefverslun en í erlendri vefverslun.  „Þetta eru ánægjulegar fréttir og sýnir að Íslendingar kunna að meta íslenskar vefverslanir, segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Bæta má vöruúrval í íslenskum netverslunum

Samkvæmt niðurstöðum kemur í ljós að um 50% Íslendinga versla frekar við erlenda vefverslun þar sem að varan fékkst einungis þar en ekki í íslenski netverslun. Dæmi um vörur sem Íslendingar versluðu erlendis voru t.d. föt og skór, íþrótta- og stundavörur og snyrtivörur.

Aldurinn 25 til 34 ára verslar oftast á netinu

Samkvæmt niðurstöðum könnunar kemur einnig í ljós að Íslendingar á aldrinum 25 til 34 ára versla oftast á netinu eða um 48 sinnum á ári.  Einnig eru Íslendingar oftar að nota snjallsímann við kaupin í stað tölvu sem dæmi þó að hlutfallið er mismunandi eftir markhópum.

61% Íslendinga kynna sér vörurnar áður en keypt er

Íslendingar kynna sér einnig vel vöruna áður en hún er keypt.  Í ljós kemur að um 61% kaupenda kynna sér vörurnar á einhvern hátt áður en þær eru keyptar, eins og að kynna sér vörueiginleika, bera saman verð og lesa umsagnir.

Áframhaldandi aukning í netverslun Íslendinga

Þrátt fyrir mikla aukningu í netverslun á undanförnum misserum kemur að ljós að um 23% Íslendinga gera samt ráð fyrir að versla meira á netinu á næstu 12 mánuðum en áður.

Mikilvæg gögn fyrir verslanir á Íslandi

Með aðgang að gögnum um „Netverslun Íslendinga“ geta íslenskar verslanir fengið aðgang að ítarlegum gögnum um hegðunarmunstur Íslendinga.  Dæmi er að hægt er að sjá hvernig sá markaður sem viðkomandi verslun er að keppa í er að koma út, hvaða markhópar eru helst að versla, hvað skiptir mestu máli og hvað þarf að bæta til að auka sölu hjá sér.

Um könnunina „Netverslun Íslendinga“

Ákveðið var á síðasta ári að setja á laggirnar markvissar og reglulegar kannanir til að fylgjast með og mæla stöðu og þróun Íslendinga þegar kemur að netverslun. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sér um reglulegar mælingar hér á Íslandi þar sem 200 svörum einstaklinga á aldrinum 18 ára og eldri er safnað í hverjum mánuði.  Mælitækið er m.a. byggt á e-barometern (sænsk mæling á netverslun) og FDIH (dönsk mæling á netverslun).  Með þessari nálgun getum við einnig borið okkur saman við Norðurlöndin, segir Andrés Magnússon.

_______

Kynning á Netverslunarpúlsinum verður haldin miðvikudaginn 10.nóvember í húsi Atvinnulífsins, Borgartúni 35
Skráning hér!

Nýtt sjálfsafgreiðslu- og þjónustuapp Húsasmiðjan Blómaval

Nýtt sjálfsafgreiðslu- og þjónustuapp Húsasmiðjan Blómaval

Húsasmiðjan hefur sett í loftið nýtt sjálfsafgreiðslu- og þjónustuapp. Með smáforritinu geta viðskiptavinir Húsasmiðjunnar og Blómavals afgreitt sig sjálfir með lausn sem kallast „Skanna, borga út“ og komist þannig hjá afgreiðslukössum.

Meðal nýjunga býður appið einnig upp á greiðsludreifingu til allt að tólf mánaða sem getur hentað við stærri kaup. Þá geta einstaklingar og fyrirtæki í reikningsviðskiptum stýrt lánsheimild sinni þar sem umsóknarferillinn er að fullu rafrænn.

SVÞ óskar Húsasmiðjunni Blómaval til hamingju með áfangann!

SJÁ UMFJÖLLUN UM NÝJA APPIÐ Í VIÐSKIPTABLAÐINU HÉR

Mikil þátttaka og fjölmargar spurningar um ný lagaákvæði um einnota plastvörur

Mikil þátttaka og fjölmargar spurningar um ný lagaákvæði um einnota plastvörur

3. júli 2021 tekur í gildi bann við að setja hinar ýmsu einnota plastvörur á markað ásamt nýjum ákvæðum um endurgjaldsskyldu, merkingarskyldu og samsetningarskyldu. Ákvæði laganna hafa víðtæk áhrif á birgja, verslanir og matsölustaði og því mikilvægt að byrja nú þegar að skipuleggja starfssemi sína í samræmi við lögin. Dr. Gró Einarssdóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunnar, fór í veffyrirlestri yfir hvað felst í lögunum, hvað verði leyfilegt og hvað ekki og hvaða lausna er hægt að leita. Fjallað var um hvað plast er, hvað einnota er, hvað er bannað að setja á markað, hvað er bannað að afhenda án endurgjalds og hvernig beri að merkja einnota plastvörur. Umhverfisstofnun sér um upplýsingagjöf og eftirlit með ákvæðunum við banninu um einnota plastvörur á markað.

Mikil þátttaka var á fundinum og fjölmargar spurningar kviknuðu í kjölfar fyrirlestursins sem sést best á því að það sem átti að vera klukkustundarlangur veffundur varð 20 mínútum lengri. Ljóst er að ýmsu er að huga í þessum málum.

Hér má hlaða niður glærum Dr. Gró úr fyrirlestrinum: Einnota plastvörur kynning fyrir SVÞ 14 april 2021

Hér á vefnum SamanGegnSoun.is má sjá leiðbeiningar um einnota plastvörur fyrir fyrirtæki: https://samangegnsoun.is/einnota-plastvorur/

Félagsfólk í SVÞ getur nú séð upptöku af fundinum á félagasvæðinu á innri vefnum. Ef þú ert ekki þegar komin/n með aðgang, þá finnurðu upplýsingar um hann hér: svth.is/fa-adgang

Dr. Gró verður aftur með okkur í næstu viku til að ræða bann við afhendingu á burðarpokum úr plasti. Ljóst er af fyrri fyrirlestrinum að þar kann að þurfa að huga að fleiri atriðum ef fólk hefur áður gert sér grein fyrir. Frekari upplýsingar og skráning á þann viðburð má finna hér.