Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Starfsfólk SVÞ rakst á dögunum á einkar áhugaverða skýrslu sem gefin var út af Euromonitor og fjallar um helstu strauma hvað varðar neytendahegðun á árinu 2019. Þó nú sé vel liðið á árið eiga þeir þó ennþá vel við svo ég ákvað að stikla á stóru í þessum greinarstúf með grófri þýðingu á helstu þáttum skýrslunnar og deila svo skýrslunni í heild sinni með félagsmönnum inni í lokaða Facebook hópnum okkar.*

Í skýrslunni benda höfundarnir, Alison Angus og Gina Westbrook, á tíu atriði sem hafa áhrif og munu halda áfram að hafa áhrif og farið er stuttlega farið yfir hér fyrir neðan:

 

Aldur skiptir ekki máli (e. Age agnostic)

Við erum aldurslaus. Aldur er afstæður. Fólk heldur ekki lengur í gamlar hugmyndir um aldur heldur tengjumst við hvort öðru, sama á hvaða aldri við erum. Lykillinn að því að ná til viðskiptavina og halda tryggð þeirra er að bjóða vörur og þjónustu sem henta öllum aldri, þrátt fyrir að vera hannaðar með eldra fólk í huga. Það sem skiptir fólk máli sem fætt er á áratugunum eftir seinna stríð (e. baby boomers) er mun líkara því sem skiptir þúsaldarkynslóðina og yngra fólk máli heldur en við gerum okkur oft grein fyrir. Við þurfum að skilja þetta hugarfar betur og sníða vörur, þjónustu og markaðssamskipti að því. Það sem skiptir máli er að hugsa vel um sjálfan sig og njóta lífsins. Það sem skiptir máli er jafnvægið á milli hins andlega og hins líkamlega.

 

Minna er meira sem stöðutákn (e. Back to basics for status)

Við viljum sýna að við séum einlæg og ekta. Neytendur eru að leita að vörum sem eru ekta og öðruvísi og upplifun sem gerir þeim kleift að tjá persónuleika sinn. Neytendur í þróuðum hagkerfum eru að endurmeta hvernig þeir eyða peningunum sínum og færast frá neysluhyggju yfir í einfaldleika, einlægni og þörf fyrir að endurspegla sérstöðu sína sem einstaklings. Eftir því sem vaxandi markaðir þróast er líklegt að við sjáum samskonar breytingu þar: Neytendur verða leiðir á almennum vörum og vilja fá meiri gæði, vörur sem eru einstakar og öðruvísi og gefa ákveðna samfélagsstöðu til kynna.

 

Meðvitaðir neytendur (e. Conscious consumer)

Við viljum vera meðvituð. Hinir meðvituðu neytendur dagsins í dag eru sveigjanlegir og velja það sem hentar stað og stund. Þar sem áður fyrr voru lítil sérfyrirtæki sem tileinkuðu sér samfélagslega ábyrgð sækja nú hefðbundin fyrirtæki á með því að gera vörur, sem þegar eru á markaði, sjálfbærari. Meðvitaðir neytendur eru áhrifamiklir og munu hafa sífellt meiri áhrif á aðra.

Dýraverndunarsjónarmið munu þróast ferkar og hafa áhrif á fleiri sviðum en í mat, fegurð og tísku. Við munum sjá dýravernd skipta máli í vörum eins og heimilisvörum, húsgögnum, gæludýrafóðri o.s.frv. Markaðurinn gerir sífellt meiri kröfur um ábyrgð og ætlast til þess að vörur sem við notum dags daglega verði sífellt ábyrgari hvað varðar dýravernd.

 

Stafræn samvera (e. Digitally together)

Við getum raunverulega verið saman – á stafrænan hátt. Útbreiðsla háhraða nettengingar, sérstaklega farsímatenginga, er drifkrafturinn á bakvið gagnvirka upplifun á netinu og rauntíma samvinnu. Hvort sem um ræðir stefnumót eða menntun, þá höfum við vanist raunverulegum samskiptum á netinu. Eftir því sem tæknileg færni okkar verður meiri og eftir því sem okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira munum við geta gert saman á stafrænan hátt.

Eftir því sem við verðum vanari því að deila hlutum á netinu; vinum okkar, staðsetningu, því sem við erum að gera, því meira munu stafrænar samskiptaleiðir þróast. Eftir því sem tæknileg geta okkar eykst og okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira aukast möguleikarnir á því sem við getum skapað og upplifað saman þrátt fyrir að vera ekki á sama stað.

 

Allir eru sérfræðingar (e. Everyone’s an expert)

Við verðum sífellt upplýstari. Völdin eru að færast frá smásölum og til neytenda. Áður treystu viðskiptavinir á ákveðin vörumerki eða ákveðnar upplýsingarveitur í leit að því sem þeir vildu, en í dag verða fyrirtæki sífellt að koma með eitthvað nýtt, lækka verð, straumlínulaga og bæta útlit vara og þjónustu til að laða að viðskiptavini.

Kjarninn í þessari þróun er næstum því áráttukennd þörf neytenda til að nálgast og deila upplýsingum á stafrænan hátt. Eftir því sem netverslun í heiminum eykst munu allir geirar þurfa að aðlaga sig að kröfum neytenda um að fyrirtæki séu með á nótunum.

 

Að finna gleðina í að missa af hlutunum (e. Finding my JOMO)

Við viljum vera meðvituð um það sem við gerum. Hræðslan við að missa af (e. FOMO eða fear of missing out) víkur nú fyrir því að eignast tíma okkar aftur þegar við finnum gleðina í því að missa af hlutunum (e. JOMO eða the joy of missing out). Til að vernda andlega heilsu vill fólk vera meðvitaðra um hvernig það notar tímann sinn, setja mörk og vera vandlátara á það sem það gerir. Á heimsvísu finnur þúsaldarkynslóðin meiri þörf fyrir að efla sig á þennan hátt en aðrar kynslóðir. Skipulagður tími þar sem fólk aftengir sig, gefur sér frelsi til að hugsa og gera hluti sem þau virkilega vilja og njóta þess að gera. Á mörkuðum í þróun þar sem fólk reiðir sig sífellt meira á netið mun það orsaka aukna streitu, sérstaklega eftir því sem nettenging verður sífellt nauðsynlegri fyrir grundvallarþjónustu.

 

Ég get séð um mig sjálf(ur) (e. I can look after myself)

Við erum sífellt að verða meira sjálfum okkur næg. Kjarninn í þessari þróun er allt það sem fólk getur gert til að koma í veg fyrir veikindi, óhamingju og óþægindi án þess að þurfa á aðstoð fagfólks að halda. Fólk nýtir smáforrit og sérsniðnar þjónustu án þess að þurfa sífellt að vera á samfélagsmiðlum eða fylgjast með ímyndamarkaðssetningu fyrirtækja. Að geta séð um sjálfa(n) sig á þennan hátt er álitinn lúxus sem gerir fólki kleift að vera fjölhæfara og auka möguleika þeirra í lífinu. Með því að ráða lífi þínu, hanna það og sérsníða það á þann hátt sem þú vilt hefurðu meiri sveigjanleika.

 

Ég vil plastlausan heim (e. I want a plastic free world)

Við viljum hafa áhrif á heiminn okkar. Óskir fólks um plastlausan heim hafa haldið áfram að vaxa og munu halda áfram að vaxa. Plast mengar umhverfið og fólk er farið að skoða vandlega endingu plastpakkninga. Neytendur munu í sífellt meira mæli nota veskið til að mótmæla óábyrgri plastnoktun, sem getur leitt til jákvæðra áhrifa í ýmsum iðnaði sem aukið getur sjálfbærni sína, s.s. í mat, drykk, fegurðar- og hreinlætisvörum o.fl.

 

Ég vil fá þetta núna! (e. I want it now)

Við viljum að hlutirnir gerist strax. Skilvirkni skiptir sífellt meira máli. Neytendur vilja upplifanir án núnings eða árekstra, upplifanir sem henta lífstíl þeirra og gera þeim kleift að eyða meiri tíma í störf og félagslíf. Helsta áhyggjuefnið er meðferð notendaupplýsinga og aðgangur fyrirtækja að þeim upplýsingum. Traust almennings á því að vel sé farið með þennan upplýsingaaðgang og að hann sé notaður á ábyrgan hátt verður það sem sker úr um hversu lengi þessi þróun heldur áfram.

 

Einfaralíf (e. Loner living)

Við höfum aldrei verið eins mikið ein. Einbúum fjölgar á heimsvísu og það verður algengasta fyrirkomulagið á næstu árum. Búist er við að stór hluti þeirra sem koma til með að búa einir séu og verði fólk fætt á áratugunum eftir seinna stríð (e. Baby boomers). Margir af yngri kynslóðum hafa hafnað hjónabandi og sambúð algjörlega. Þetta er tilhneiging sem virðist ætla að halda áfram með næstu kynslóðum. Um allan heim þykir ekki lengur slæmt að búa ein(n) heldur nýtur fólk sjálfstæðs lífstíls og einfaralífsins. Skv. Pew Research Center er gert ráð fyrir að þegar ungt fólk í Bandaríkjunum í dag verður fimmtugt muni fjórðungur þeirra hafa verið einhleyp allt sitt líf.

 

* Til að fá aðgang að hópnum þarftu sækja um og svara nokkrum laufléttum spurningum svo við getum sannreynt að þú starfir hjá aðildarfyrirtæki í SVÞ. Við hlökkum til að sjá þig í hópnum!

 

Þóranna K. Jónsdóttir
Markaðs- og kynningarstjóri SVÞ

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Hvenær: Fimmtudaginn 12. september kl. 8:30-12:30

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut, Reykjavík

Í september næstkomandi verður boðið upp á einstakt námskeið frá Ritz Carlton á sérkjörum fyrir SVÞ félaga. Ritz Carlton eru margrómaðir fyrir frábæra þjónustu og hafa í næstum tvo áratugi kennt öðrum fyrirtækjum aðferðafræðina til að tryggja topp þjónustugæði. Meðal þeirra framúrskarandi fyrirtækja sem hafa notað aðferðafræði Ritz Carlton við mótun á allri sinni þjónustu eru Apple, en verslanir þeirra vekja heimsathygli fyrir frábæra þjónustu, með hlutum eins og „genius bar“ og fleiru.

Stjórnandi frá Ritz Carlton mun leiða hálfs dags vinnustofu sem hjálpar þátttakendum, á hagnýtan hátt, að láta sín fyrirtæki skara framúr með fyrsta flokks þjónustu.

 

Námskeiðslýsing

 

 • Farið verður yfir fimm lykilþætti sem viðskiptavinir þurfa og vilja að sá sem veitir þjónustu búi yfir, óháð því fyrir hvaða fyrirtæki eða í hvaða geira viðkomandi starfar.
 • Lykilþjónustuþættir Ritz-Carlton: Yfirlit yfir þá þjónustueiginleika sem leiða til raunverulegra sambanda og mikilvægi sálfræði í þjónustu.
 • Skýr þjónustustefna: Það er lykilatriði að þjónustupplifun viðskiptavinarins sé alltaf sú sama. Ein leið til að tryggja það hjá Ritz-Carlton er með því að nota hin þrjú þrep þjónustu.
 • Máttur ráðandi þjónustu: Þú munt komast að því hvernig á að sjá fyrir og vinna með þarfir viðskiptavinarins í gegnum þjónustuupplifunina, þar með talið hvernig á að bæta skynjun með því að nýta augnablikið, hvernig nýta á lykilatriði úr CRM fræðum og hvernig á að notfæra sér það að koma viðskiptavinum á óvart og gleðja þá.
 • Tilfinningalegar tengingar: Umræða um muninn á hlutlægum og tilfinningalegum eiginleikum og af hverju þessi munur er lykilatriði þegar kemur að vörumerkjatryggð.

 

Hagnýtu upplýsingarnar

 

Hvenær: fimmtudaginn 12. september, kl. 8:30-12:30 – Ath! Aðeins þessi eina dagsetning og takmarkað sætaframboð.

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica

Fyrir hverja hentar þetta: Námskeiðið er fyrir alla sem stjórna, móta eða hafa áhrif á þjónustuupplifun viðskiptavina fyrirtækja af öllum stærðum, og í öllum atvinnugreinum.

Verð: Verð fyrir SVÞ félaga er 54.900 kr. per þátttakanda ef bókað er fyrir 7. júní (annars 69.900 kr).

 

Kaupauki fyrir SVÞ félaga!

 

SVÞ félagar eiga að auki kost á tveggja klst. framhaldsvinnustofu þann 16. september þar sem þeir Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Markaðsakademíunni og Árni Árnason frá Árnasonum fara dýpra í efni vinnustofunnar. Nánari upplýsingar síðar.

Takmarkað sætaframboð á framhaldsvinnustofuna – fyrstir koma fyrstir fá!

 

smelltu hér til að skrá þig

 

 

 

ATHUGIÐ! TIL AÐ VIRKJA AFSLÁTTINN ÞARF AÐ SETJA (SVÞ)“ Á EFTIR NAFNI FYRIRTÆKIS VIÐ SKRÁNINGU!

Þessi þjónusta – skiptir hún einhverju máli?

Þessi þjónusta – skiptir hún einhverju máli?

Hvar: Hylur, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudaginn 21. maí kl. 8:30-10:00

Nýverið hlaut verslun Bláa Lónsins við Laugaveg Njarðarskjöldinn, verslunarverðalun sem veitt eru meðal verslana í miðborginni sem miða einkum á ferðamenn. Í umsögn dómnefndar um verðlaunin var sérstaklega tekið fram að verslunin bar af þegar kom að þjónustu.

Mikilvægi góðrar þjónustu verður seint ofmetið, ekki síst nú þegar fólk sækir í auknum mæli verslun og þjónustu í sjálfsafgreiðslu í gegnum netið. Fyrir verslanir getur þjónustuupplifunin skipt sköpum í samkeppni við netið en ekki síður til að ná sölunni þegar viðskiptavinurinn er kominn inn fyrir þröskuldinn. Þjónustufyrirtæki eru í harðri samkeppni og það skiptir öllu máli hvernig upplifunin er af þjónustunni þegar viðskiptavinurinn velur þjónustuaðila. Umsagnir og einkunnagjöf á netmiðlum geta hreinlega verið lífsspursmál fyrir mörg fyrirtæki, einkum í ferðageiranum.

Við fáum til okkar Fanney Þórisdóttur sem sér um þjálfun starfsfólks Bláa Lónsins. Fanney mun tala um mikilvægi þjálfunar starfsfólks þegar kemur að þjónustu og gefa okkur innsýn í hvernig þessir hlutir eru gerðir hjá Bláa Lóninu.

Fanney starfar hjá Bláa lóninu við fræðslustōrf. Fanney hóf stōrf sem gestgjafi Bláa lónsins árið 2016 en undinfarið ár hefur Fanney þróað og kennt fjōlbreyttar fræðsludagskrá innan Bláa lónsins fyrir starfsmenn í SPA á Silica og Retreat hótel og unnið markvisst starf með verslunum Lónsins og sōlu- og þjónustudeild. Hún er einnig annar eigenda markþjálfunar- og fræðslu fyrirtækisins Lífsstefnu og er landsforseti JCI á Íslandi árið 2019.

Fanney er tómstunda- og félagsmálafræðingur og stjórnendamarkþjálfi að mennt. Hennar helsta sérgrein er samskipti og líkamstjáning og hefur hún setið fjölbreytt námskeið hérlendis og erlendis uim það efni. Frá árinu 2012 hefur Fanney leiðbeint bæði börnum og fullorðnum á hinum ýmsu námskeiðum sem miða að ræðumennsku og framkomu, samskiptum og líkamstjáningu, menningarlæsi, viðburðarstjórnun og leiðtogafræði svo dæmi séu tekin.  

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar.

 

SKRÁNING

* indicates required
Fylgstu með!

Örráðstefna: Stafræn þjónusta – spennandi möguleikar

Hvar: Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Hvenær: Þriðjudaginn 2. apríl kl. 8:30-10:00

Þjónusta sem áður hefur verið veitt á staðnum er sífellt meira að færast yfir á stafrænan vettvang. Þó að ekki sé hægt að klippa viðskiptavini eða nudda þá í gegnum netið eru fjölmargar aðrar þjónustur vel til þess fallnar að nýta sér stafrænar lausnir og þar með stækka markaðssvæðið, spara kostnað o.fl. SVÞ fær til sín góða gesti til að ræða stafræna umbreytingu á þjónustu og meðal annars heyrum við frá þremur nýsköpunarfyrirtækjum sem eru að brjóta blað í því hvernig þjónusta er nú veitt í gegnum netið. 

 

Arndís Thorarensen frá Parallel: Leiðin að árangursríkri stafrænni þjónustu

Stafræn þjónusta og krafa um hraðar breytingar krefst nýrrar hugsunar á þjónustuupplifun og framkvæmd verkefna. Fjallað verður um mikilvægi þess að tileinka sér nýsköpun í þjónustuframboði og hvernig hægt er að breyta skipulagi til að framleiða stafræna ferla sem mæta væntingum neytenda. 

 

Sögur frá fyrirtækjum sem gert hafa spennandi hluti í stafrænni þjónustu:

 

Mín líðan: Sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan veitir sálfræðimeðferð við þunglyndi og félgaskvíða og er öll þjónustan veitt í gegnum netið. Sveinn Óskar Hafliðason hagfræðingur segir frá fyrirtækinu, en Sveinn Óskar hefur unnið með fyrirtækinu m.a. að sölu- og markaðsmálum.

 

Kara connect: Hugbúnaður fyrir sérfræðinga í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu

Kara connect gerir meðferðaraðilum í heilbrigðs-, velferðar- og menntakerfinu kleift að vinna með fólki í gegnum netið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara connects segir okkur frá.

 

AwareGO: Tölvuöryggisþjálfun (e. cyber security awareness training)

AwareGO færir tölvuöryggisþjálfun úr löngum (leiðinlegum) fyrirlestrum yfir í stutt myndbönd sem deilt er markvisst í gegnum netið. Ragnar Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri segir okkur frá.

 

SKRÁNING HÉR:

* indicates required
Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu

Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu mun hefja göngu sína í annað sinn í september 2017.

Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum. Áherslan í náminu verður á hagnýta færni og þekkingu. Jafnframt verður áhersla lögð á raunhæf verkefni til að tengja við vinnuumhverfi og áskoranir í starfi þátttakenda.

Námið samanstendur af sjö efnisþáttum,

 • Stjórnun og leiðtogahæfni
 • Mannauðsstjórnun
 • Framsögn og framkoma
 • Tímastjórnun og skipulag
 • Sölutækni og þjónustustjórnun
 • Markaðsmál – Uppstilling og framsetning
 • Rekstur og fjármál

Námslínan hefst 5. september og lýkur 5. desember.

Kennt verður á þriðjudögum frá kl. 13.00-17.00.

Frekari upplýsingar á vef Opna háskólans.