Hamingjuóskir! Krónan fær Umhverfisverðlaun atvinnulífsins – myndband

Hamingjuóskir! Krónan fær Umhverfisverðlaun atvinnulífsins – myndband

Í dag fengu félagsmenn okkar í Krónunni verðlaun fyrir Framtak ársins við afhendingu Umverfisverðlauna atvinnulífsins. Krónan hefur verið að vinna frábært starf í umhverfismálum og sjálfbærni síðastliðin misseri og óhætt að segja að eftir því hafi verið tekið í samfélaginu.

Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með verðlaunin, vonum að þau veiti öðrum fyrirtækjum innblástur til að gera vel í umhverfismálunum og hlökkum til að fylgjast með þeim áfram.

Hér má sjá áhugavert kynningarmyndband sem gefur betri innsýn í þá flottu hluti sem Krónan hefur verið að gera!

Umhverfisdagur atvinnulífsins á morgun – ertu búin(n) að skrá þig?!

Umhverfisdagur atvinnulífsins á morgun – ertu búin(n) að skrá þig?!

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2019 verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 9. október í Hörpu Norðurljósum kl. 8.30-12.

Um árlegan viðburð er að ræða en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Dagskrá samtakanna hefst kl. 8.30 og stendur til að verða 10 þegar gert verður kaffihlé. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir m.a. Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2019, fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað.


Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar og skrá þig á vef SA.

Loftslagsáhætta

Loftslagsáhætta

Ingvar Freyr Ingvarsson aðalhagfræðingur og Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, skrifa í Viðskiptablaðið 29. ágúst:

Ríkisstjórnin hefur gefið út metnaðarfullar yfirlýsingar í loftslagsmálum. Við höfum fyrir löngu spilað út okkar helsta trompi; orkuframleiðsla á Íslandi er að langmestu leyti sjálfbær. Við þurfum því að takast á við flóknar áskoranir til að draga úr losun. Í því liggja hins vegar jafnframt tækifæri því við munum þurfa að skapa og vinna með lausnir sem önnur ríki þurfa hugsanlega ekki að leggja jafn ríka áherslu á næstu ár. Haldi menn rétt á spilunum geta Íslendingar orðið nk. fyrirmyndarríki og slík ásýnd eykur seljanleika vöru og þjónustu frá Íslandi. Snemmbærar fjárfestingar í losunarsamdrætti draga úr framtíðaráhættu vegna kostnaðarhækkana. Undir þessum kringumstæðu þurfa bæði stjórnvöld og einkaaðilar að koma auga á tækifærin og nýta þau til hins ýtrasta.

Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar tengjast skuldbindingum á vettvangi Parísarsamkomulagsins. Efasemdum hefur verið lýst um niðurstöður loftslagsráðstefnu SÞ árið 2015. Um þessar mundir hafa komið fram upplýsingar sem sýna að losun koltvísýrings heldur áfram að aukast þrátt fyrir tilvist samkomulagsins. Margir eru þó þeirrar skoðunar að árangur ráðstefnunnar sé meiri en menn gátu vonast eftir. Þeim fer einnig fjölgandi sem telja að það hefði verið æskilegt að ganga mun lengra en gert var. Hvað sem öðru líður er ljóst að árangurinn er m.a. háður því hvernig aðilar Parísarsamkomulagsins haga sér næstu missiri og ár.

Vísbendingar eru um að Parísarsamkomulagið hafi hið minnsta vakið menn til umhugsunar og skapað baráttunni gegn hlýnun jarðar nýjan farveg. Þó að með samkomulaginu hafi aðildarríkin sett sér töluleg markmið verður árangur a.m.k. fyrst um sinn helst mældur í skilgreindum aðgerðum sem aðildarríkin boða. Aðilar samkomulagsins hafa verið meðvitaðir um að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og því er aðildarríkjunum gert að endurmeta gerðar áætlanir fimm ára fresti auk þess sem upplýsingagjöf og eftirlit verður gegnsærra en áður hefur tíðkast. Líkur eru á að samanburður verði í því ljósi einfaldari og aðgengilegri.

Óhjákvæmilega krefst metnaður í loftslagsmálum þess að áætlanir einstakra ríkja séu verði skjótvirkar. Fjölmörg ríki stefna að góðum árangri hverjar svo sem heimturnar verða. Ætla verður að þær aðgerðir sem ráðist verður í muni með einhverjum hætti kalla á breytta hegðun fyrirtækja og einstaklinga.

Virðismat fyrirtækja er m.a. háð þróun rekstrarkostnaðar. Stjórnendur fyrirtækja sem standa í virkri samkeppni hafa það viðvarandi verkefni að lækka slíkan kostnað m.a. með upptöku nýrra rekstraraðferða og nýrra tæknilausna.

Til dæmis standa stjórnendur fyrirtækja sem reiða sig á notkun ökutækja frammi fyrir því að leggja mat á rekstrarkostnað þeirra yfir áætlaðan notkunar- eða líftíma. Efnahagslegir hvatar til orkuskipta í samgöngum eiga að stuðla að því að matið verði nýorkuökutækjum hagfellt. Ábati fyrirtækjanna gefur til kynna það verð sem fyrirtækið greiðir beinlínis fyrir losun. Til viðbótar kann að koma sá ábáti sem hlýst af góðu orðspori.

Kostnaður við losun í fluggeiranum endurspeglast í kostnaði vegna kaupa á ETS losunarheimildum og sama á við um önnur fyrirtæki sem eru háð slíkum kaupum. Flugfélög draga m.a. úr rekstrarkostnaði með því að draga úr eldsneytisnotkun. Verðið sem þau greiða fyrir losun endurspeglast í rekstrarhagræðinu sem þau ná fram annars vegar með minni eldsneytiskaupum og hins vegar sparnaði vegna minni þarfar fyrir losunarheimildir. Í mörgum tilvikum er losunarkostnaður hins vegar óljós til skemmri og lengri tíma litið enda eru loftslagsaðgerðir stjórnvalda enn í mörgu tilliti ófullburða. Þetta á t.d. við í tilviki margra fyrirtæki í orkuiðnaði.

Þessi fyrirtæki standa þannig frammi fyrir nokkrum vanda annars vegar þegar þau vinna rekstraráætlanir og hins vegar þegar þau taka ákvarðanir um fjárfestingar sem eiga að nýtast í meðallangan eða langan tíma. Ákveðin hætta er á að loftslagskostnaður verði þar með látinn liggja á milli hluta. Sterkar líkur eru á að þær aðgerðir sem ráðist verður í því skyni að draga úr losun í starfsemi fyrirtækja muni til framtíðar litið hafa áhrif á afkomu og eignaverð. Skyndilegar loftslagsaðgerðir geta því haft veruleg áhrif á horfur í rekstri fyrirtækja auk þess sem verðlækkun eigna kann að draga úr lánshæfi. Skyndileg áhrif loftslagsaðgerða geta því haft leitt til lakari efnahags- og fjármálastöðugleika.

Í framangreindu ljósi er nauðsynlegt að tryggja að stjórnendur og fjárfestar hafi tök á að taka tillit til loftslagsáhættu. Öðrum kosti geta þeir ekki baktryggt fyrir mögulegum áföllum. Óvissan kann þannig að leiða til lakari viðskiptakjara fyrirtækjanna. Skilvirk loftslagsstefna er helsta tækið sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr loftslagsáhættu. Verði of seint í taumana gripið er hætt við að samfélagslegur kostnaður aukist. Því meira sem það dregst að stefnan liggi fyrir því meira eykst hættan á harðri aðlögun. Liggi loftslagsstefna fyrir snemma þannig að unnt verði að grípa til aðgerða fyrr en ella eykst hagkvæmni og fyrirsjáanleiki. Það kemur öllum til góða.

Markaðstengd stjórntæki hafa þótt ákjósanlegur kostur í loftslagsmálum. Með þeim er leitast við að fella kostnað vegna losunar inn í beinan kostnað við framleiðslu eða þjónustu sem veldur losun. Samfélagsleg áhrif losunar eru m.ö.o. verðlögð og sá sem losar ber þannig fjárhagslega ábyrgð henni sem aftur endurspeglast í verði sem kaupendur vara og þjónustu greiða. Með þessu móti er skapaður fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki og neytendur til að velja loftslagsvænar lausnir. Þá aukast  líkur á að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem skila mestum árangri. Stjórntækin geta því dregið úr heildarkostnaði mótvægisaðgerða, stýrt fjármagni í loftslagsvænar tækninýjungar og stuðlað að því að ríkisstjórnin standi við metnaðarfullar yfirlýsingar. Þegar horft er til þess hve mikil áhrif loftslagsbreytingar geta haft á samfélagið er ljóst að stjórntækin eru gríðarlega mikilvæg.

Eitt af mikilvægustu verkefnum fjármálamarkaðarins er að meta áhættu. Svo unnt sé að leggja raunhæft mat á loftslagsáhættu þurfa bestu mögulegu upplýsingar að liggja fyrir. Tilvist slíkra upplýsinga er því veruleg forsenda réttra ákvarðana. Án þeirra ríkir óvissa um kostnaðaráhrif losunaraukningar eða -samdráttar á rekstur og eignir. Þar með er hætt við að mat á félags- og efnahagslegri arðsemi verði skeikult. Engin er betur í stakk búin til að veita upplýsingarnar en stjórnvöld.

 

Lambakjötsútflutningur og kolefnisfótspor

Lambakjötsútflutningur og kolefnisfótspor

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst sl.:

Á undanförnum mánuðum hefur verulegt magn lambakjöts verið flutt út, m.a. til fjarlægra landa á borð við Japan og Víetnam. Þessi útflutningur varð það mikill að skortur myndaðist á innanlandsmarkaði, sérstaklega á lambahryggjum. Afurðastöðvar í landbúnaði sköpuðu skortinn vísvitandi í þeim tilgangi að geta hækkað verð á lambakjöti til íslenskra neytenda. Plottið gekk upp, verð frá afurðastöðvum hækkaði um tugi prósenta og íslenskir neytendur voru, eins og fyrri daginn, þeir sem borguðu brúsann. Forsvarsmenn afurðastöðvanna gerðu ekki minnstu tilraun til að fela þessa stöðu og greindu frá yfirvofandi skorti á fundi með sauðfjárbændum síðastliðið vor, þegar fjórir mánuðir voru þar til sláturtíð hæfist.

Þegar innlend framleiðsla getur ekki annað eftirspurn, ber lögum samkvæmt að heimila innflutning á viðkomandi vöru. Samtök verslunar og þjónustu sendu því erindi til ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara í júní sl., þar sem farið var fram á að heimild yrði veitt til tollfrjáls innflutnings á lambahryggjum. Eftir að hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, ákvað nefndin að leggja til við ráðherra að innflutningur, með lækkuðum tollum, yrði heimilaður í einn mánuð. Ekkert benti til annars en að heimildin yrði veitt, enda lögboðnar forsendur til staðar. Þá gripu pólitískir hagsmunaaðilar í taumana, landbúnaðarráðherra lét undan og heimildin var ekki veitt. Íslenskir neytendur sátu eftir með sárt ennið, lambahryggir voru fluttir inn á fullum tollum og neytendur nutu þ.a.l. ekki þess ábata sem að var stefnt. SVÞ hafa þegar sent viðeigandi stofnunum erindi vegna þeirra viðskiptahátta sem afurðastöðvarnar sýndu af sér í þessu máli.

Á Íslandi er nú framleitt um 30% meira af lambakjöti en þörf er fyrir á innanlandsmarkaði, eða um 3 þúsund tonn. Það magn er allt flutt út, á verði sem er langt undir því sem innlendri verslun stendur til boða. Kolefnisfótspor af þeim útflutningi hefur hins vegar ekki verið kannað. SVÞ munu því á næstunni senda erindi til um­hverfis­ráðherra þar sem óskað verður eftir að kolefnisfótspor útflutnings á lambakjöti verði kannað sérstaklega.

Það er nefnilega full ástæða til að allur herkostnaður þess útflutnings sé uppi á borðinu. Skattgreiðendur eiga heimtingu á því.

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 17. apríl sl.:

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Í hagfræðinni er rætt um harmleik almenninganna (e. tragedy of the commons) þegar einstakir aðilar nýta sameiginlegar auðlindir óhóflega þegar litið er til heildarhagsmuna samfélagsins. Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, lét þá skoðun sína í ljós í ræðu hinn 29. september 2015 að harmleikur væri á sjóndeildarhringnum (e. tragedy on the horizon). Þar vísaði hann til loftslagsmála þar sem vandinn er sá að borgarar dagsins í dag eiga erfitt með að sjá afleiðingar gjörða sinna fyrir þar sem þær munu ekki koma að fullu fram fyrr en næstu kynslóðir hafa tekið við keflinu.

Í ræðu sinni fjallaði Carney um áskoranir sem þessu fylgja en hann telur hættu á að loftslagsbreytingar geti leitt til fjármálakreppu og versnandi lífskjara. Til þess að gefa mynd af harmleiknum í nútímanum telur Carney rétt að upplýsingar um koltvísýringslosun liggi fyrir. Af þeim sökum hefur hann mælst til þess að leiðandi ríki heimshagkerfisins hvetji fyrirtæki til þess annars vegar að upplýsa hreinskilnislega um losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að gera áætlanir um að draga úr umhverfisáhættu. Í ræðu Carney, þar sem hann fjallar um loftslagsmál og fjármálakerfið og ber ensku yfirskriftina „A global approach to sustainable finance“ segist hann fullviss um vangetu leikenda á fjármálamarkaði til að leiða umbreytingar hagkerfisins í átt til minni koltvísýringslosunar.

Carney telur lykilatriði að ríkisstjórnir setji leikreglur og skapi umgjörð um loftslagsmál sem einkageirinn geti tekið mið af við ákvarðanatöku um fjárfestingar. Þó að Carney ætli stjórnvöldum þannig leiðandi hlutverk leggur hann hins vegar áherslu á að fjármálamarkaðir verði að leggja sitt af mörkum. Þá telur hann skynsamlegt að ríkt tillit sé tekið til umhverfisáhættu við greiningu kerfisáhættu.

 

Þung áhersla á aðgerðir

Í ljósi smæðar og öfgakenndra hagsveiflna í íslensku hagkerfi er afar mikilvægt að hafa augun á þróun helstu áhættuþátta hverju sinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð þung áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu en um þessar mundir eru 197 ríki aðilar að því og svo virðist sem 185 þeirra hafi lokið við að fullgilda það.

Með samkomulaginu er stefnt að því að halda hlýnun jarðar vel innan við 2 gráður á öldinni, bæta aðlögunargetu fyrirtækja og stofnana og tryggja að fjármagn flæði í þróunarverkefni sem eru loftslagsvæn. Þar kveður við nýjan tón í þeim skilningi að ætlunin virðist að hvetja til mun meiri samdráttar koltvísýringslosunar en áður, atvinnulífinu er ætluð virk þátttaka og áformað er að nýta markaði til að ná árangri.

Alþjóðastofnanir kalla eftir því að losun gróðurhúsalofttegunda verði rétt verðlögð á skilvirkum mörkuðum og þannig verði fyrirtæki hvött til þróunar í átt til loftslagsvænni lausna. Efndir skuldbindinga samkvæmt samkomulagi kalla á verulegar umbreytingar og í því felast áskoranir. Ef rétt er haldið á spilunum felast hins vegar einnig töluverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í þeim breytingum sem efndirnar hafa í för með sér.

 

Íslenskur fjármálamarkaður

Gerð íslenska hagkerfisins kallar á að tekið sé tillit til umhverfisáhættu við gerð áfallasviðsmynda fyrir íslenskan fjármálamarkað. Gera má ráð fyrir að sú áhætta birtist um þessar mundir einkum sem umbreytingaráhætta (e. transition risk) vegna óljóss kostnaðarauka sem fyrirtæki gætu þurft að takast á við vegna breytinga á starfs- og rekstrarháttum í ljósi hertra umhverfiskrafna.

Ef við bregðumst ekki við með réttum hætti með vel undirbúnum aðgerðum munu tekjuáföll og glötuð tækifæri hafa ófyrirséðar afleiðingar. Allt útlit er fyrir að staða loftslagsmála eigi eftir að hafa mikil áhrif annars vegar á daglegan rekstur fyrirtækja og hins vegar á fjárfestingaákvarðanir. Það er því skynsamlegt og í mörgum tilvikum orðið löngu tímabært fyrir fjárfesta og fyrirsvarsmenn fyrirtækja að taka tillit til loftslagsmála við undirbúning fjárfestingar- og stefnumótunarákvarðana.

Stjórnendur efnahagsmála hafa sýnt merkjanlegan og aukinn áhuga á að tryggja að íslenska fjármálakerfið ráði við umbreytingar í víðum skilningi. Möguleikar fjármálakerfisins til að takast á við áföll virðast um þessar mundir mun betri en oft áður. En betur má ef duga skal. Það ríður á að íslensk stjórnvöld og seðlabanki átti sig á í sameiningu á stóru myndinni af því hvernig íslensk fyrirtæki geta lagað sig á skilvirkan hátt að umbreytingum vegna loftslagsmála. Með öðrum orðum verða stjórnendur efnahagsmála að senda frá sér sem skýrust skilaboð sem fyrirtæki geta tekið tillit til við áætlanagerð.

Gera verður ráð fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum kalli á mikið fjármagn sem mun að mestu leyti koma beint eða óbeint frá einkageiranum. Í því samhengi mun áhugi fjárfesta og fjármálastofnana á fjármögnun ráðast af þeim áhættum sem henni fylgja, þ.m.t. áhættu vegna ófyrirséðra breytinga á leikreglum og beitingu efnahagslegra hvata til aukinna fjárfestinga. Hagstæð fjármögnun mun aðeins nást undir fyrirsjáanlegum kringumstæðum.

Sérfræðingar frá háskólanum í Cambridge hafa bent á þrjá þætti sem þeir telja ráða miklu um hve berskjölduð fyrirtæki eru vegna breytinga á leikreglum um loftslagsmál: a) Losun í starfsemi fyrirtækis, b) óbein losun í aðfangakeðju fyrirtækis og þá sérstaklega vegna notkunar jarðefnaeldsneytis, og c) losun vegna notkunar á vöru og þjónustu sem fyrirtæki selur.

 

Þörf á markvissum aðgerðum

Ljóst er að þörf er á markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi er samþætting loftslags- og tæknistefnu mikilvæg. Erlendis munu stjórnvöld líklega einkum beina aðgerðum sínum að starfsemi sem felst t.d. í námurekstri, olíuvinnslu og orkufrekum iðnaði. Aðgerðirnar verða væntanlega í formi reglusetningar eða -breytingar eða annarra aðgerða sem munu hafa mikinn kostnað í för með sér.

Það getur ekki talist óábyrgt að ætla að þær atvinnugreinar sem óundirbúnar verða fyrir mestum umbreytingaráhrifum geti lent í svipaðri stöðu og fjármálageirinn eftir áföll alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Með fyrirsjáanleika að leiðarljósi þurfa stjórnendur efnahagsmála að senda atvinnulífinu skýr og samræmd skilaboð þannig að einkageirinn hafi möguleika á að tileinka sér nýja hugsun í fjárfestingum og fjármögnun verkefna.

Geirar atvinnulífsins búa við mismikla umbreytingaráhættu. Augljóst er að námuvinnsla, raforkuframleiðsla úr jarðefnaeldsneyti og olíuiðnaður lenda í hæsta áhættuflokki. Áhættan kann svo að smitast yfir á skuldabréfamarkaði þar sem skuldabréf útgefin af þessum fyrirtækjum eru seld. Þau fyrirtæki sem menga mest eru hins vegar í bestum færum til þess að bæta sig og því kann samstarf við stjórnendur þeirra að vera lykillinn að lausn sem skilar góðum árangri. Fjárfestar geta haldið stöðum í þessum greinum en freistað þess á móti að hafa áhrif á stjórnendur í átt til minni losunar.

 

Gróðurhúsalofttegundir verðlagðar

Stjórnvöld geta verðlagt losun gróðurhúsalofttegunda og með því haft áhrif á kauphegðun neytenda. Með því móti verða framleiðendur óhjákvæmilega að takast á við neikvæð ytri áhrif framleiðslunnar. En skilaboðin verða að vera skýrari því enn er kolefnisskattlagning opin fyrir þeirri gagnrýni að vera bara enn ein skattlagningin.

Þá ættu stjórnvöld að styrkja stoðir þeirra geira sem vinna hvað harðast að loftslagsjákvæðum tæknibreytingum.Benda má að Alþjóðaorkumálastofnunin (e. International Energy Agency – IEA) hefur gefið út leiðbeiningar um hagkvæm stýritæki sem henta í hverju tilfelli. Stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að auka þekkingu á stöðu tækniþróunar á sviði losunarmála.

Með vel ígrunduðum aðgerðum geta stjórnvöld dregið úr áhættu sem tengist þróun tækninýjunga en smám saman dregið úr stuðningi sínum og hleypt tækninni óstuddri í samkeppnisumhverfi. Stuðningur stjórnvalda ætti þannig að vera ríkur í upphafi, dragast hægt og rólega saman og falla niður um það leyti þegar tæknin verður samkeppnishæf eða þegar ljóst er að tækniþróun skilar ekki tilætluðum árangri. Mat á virkni aðgerða kallar óhjákvæmilega á losunarbókhald í einhverri mynd.

Í ljósi framangreinds má benda á að Evrópusambandið hefur ýtt undir þróun markaða fyrir græn skuldabréf. Á þeim veita fjárfestar lán til fyrirtækja gegn skuldbindingum um að lánsfjármunir verði nýttir í umhverfisvænum tilgangi. Mikil aukning hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa síðustu ár. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) beitt sér fyrir samræmdri verðlagningu losunar og mælst til þess að aðildarríkin leggi mat á losunaráhrif við fjárlagagerð (e. Green budgeting). Alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki bjóða þegar upp á aðstoð við gerð græns bókhalds sem hefur þann tilgang að kortleggja umhverfisáhættuþætti og gera fyrirtækjum mögulegt að undirbúa breyttar áherslur.