Skýrslan Íslensk netverslun komin út

Skýrslan Íslensk netverslun komin út

Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur gefið út skýrsluna „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“, en útgáfa skýrslunnar var styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og VR. Höfundur er Emil B. Karlsson.

Skýrslan sem greinist í þrjá kafla og fjallar á greinargóðan hátt um miklu breytingar sem verslun sem atvinnugrein stendur nú frammi fyrir, vegna þeirra stórstígu breytinga sem eru að verða í verslun og verslunarháttum hvar sem er í heiminum.

Í fyrsta kafla skýrslunnar er farið yfir áhrif og afleiðingar stafrænnar tækni á verslun almennt, með sérstakri áherslu á þau áhrif sem líklegt er að slíkt hafi á íslenska verslun. Í öðrum hluta skýrslunnar eru birtar niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskri verslun, þar sem m.a. er birt ítarleg samantekt á umfangi netverslunar hér á landi og netverslunar frá útlöndum, upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Einnig er þar að finna niðurstöður úr viðamikilli skoðanakönnun á netverslunarhegðun Íslendinga. Í þriðja kafla skýrslunnar eru síðan settar fram ályktanir byggðar á þeim rannsóknum sem kynntar eru í skýrslunni.

SVÞ fagna útkomu skýrslunnar, en hún kemur út á hárréttum tíma og er tímabært innlegg í umræðu um stöðu greinarinnar nú þegar hún stendur frammi fyrir meiri og víðtækari breytingum á allra næstu árum, en orðið hafa marga síðustu áratugi. Eru allir hagsmunaaðilar og áhugamenn um íslenska verslun og framtíð hennar hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.

Notkun á gervigreind hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Notkun á gervigreind hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Samantekt

Neytendur eru í vaxandi mæli að tileinka sér stafrænan lífstíl.  Val neytenda á vörum getur að miklu leyti ákvarðast af upplýsingum og samskiptum á veraldarvefnum. Í þessu samhengi verður sífellt mikilvægara fyrir netverslanir að fylgjast með og kortleggja ferðalag viðskiptavinarins — fyrir, á meðan og eftir kaupin — til að fylgjast með neysluhegðun hans. Í eftirfarandi greiningu verður fjallað um alþjóðlega þróun netverslunar á Norðurlöndum, utan Íslands . Stafræn tækniþróun felur í sér að kaup á vörum á netinu erlendis frá fer vaxandi sem hluti af alþjóðlegri smásölu. Á árinu 2017 hafði þriðjungur kaupenda á Norðurlöndum keypt vörur erlendis frá í gegnum netið.

 

Skýrsluna má nálgast hér.

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt álit sitt vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutning á svokölluðum sérostum. Um er að ræða mál sem upp kom í kjölfar lögfestingu á búvörusamningum en við þinglega meðferð málsins kom fram vilji Alþingis um að liðka fyrir innflutningi á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Því átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári tollasamningsins, þ.a. á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þá skyldi þeim ostum vera úthlutað samkvæmt hlutkesti en ekki undirorpnir útboðsgjöldum. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.

Fyrir liggur að mistök þessi voru tilkomin vegna atvika er varða lagaskrifstofu Alþingis og var í kjölfarið þrýst á um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum til að koma þessum tollfrjálsa innflutningi á. Því lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á tollalögum til að leiðrétta þessi mistök og var í frumvarpinu lagt til að opna skyldi tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði 230 tonn.

Hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga. Þá leggur nefndin einnig til að fyrir 1. nóvember 2018 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum.

SVÞ gagnrýna harðlega þessa afgreiðslu atvinnuveganefndar og telja hana atlögu af þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækanna sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Telja SVÞ afgreiðslu þessa ganga freklega gegn hagsmunum bæði verslunar og neytenda til þess eins að vernda innlenda hagsmuni án þess þó að framleiðsla sérosta eigi sér hér stað.

Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28.03.18.

Á Íslandi jafnt sem annars staðar vex netverslun nú hröðum skrefum. Sífellt stærri hópur neytenda kýs að haga viðskiptum sínum með þessum hætti, ekki síst yngra fólkið, s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials eða Generation Y). Þessi þróun mun ekkert gera nema halda áfram á næstunni, aðeins á mun meiri hraða en hingað til.

Nýjar áskoranir fyrir alla
Breytingar sem þessar hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki. Samkeppnin tekur á sig nýjar myndir, en í netverslun er samkeppnin fyrst og fremst alþjóðleg og þannig þvert á landamæri ríkja. Þó að samkeppnin sé alþjóðleg er engu að síður mikilvægt að allir aðilar á markaði, standi jafnt að vígi, hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum. Þessar breytingar hafa nefnilega ekki aðeins í för með sér áskoranir fyrir fyrirtækin sem keppa á þessum markaði. Áskorunin er ekki síðri fyrir tollayfirvöld, en þeim ber að tryggja að greidd séu lögboðin gjöld af viðskiptum sem fara fram með þessum hætti og þannig stuðla að heilbrigðri samkeppni hvað innheimtu gjalda varðar.

Netverslun eykst hröðum skrefum
Á sl. ári voru um 550.000 sendingar til einstaklinga sem keypt höfðu vöru í netviðskiptum tollafgreiddar hér á landi. Var þar um 60% aukningu að ræða frá árinu 2016 og óhætt er að fullyrða að þessi tala fer hækkandi með hverju ári. Samkvæmt lögum eru eingöngu sendingar sem eru annað hvort gjafir eða þar sem verðmæti innihaldsins er 2.000 kónur eða minna undanþegnar virðisaukaskatti. Eins og staðan er núna má fullyrða að stór hluti sendinga komi til landsins án þess að greidd séu af þeim lögboðin opinber gjöld, fyrst og fremst virðisaukaskattur. Ríkissjóður verður þar með af verulegum skatttekjum, sem miðað við umfangið hljóta að nema hundruðum milljóna króna. Þess utan er póstþjónusta í Kína, þaðan sem stærstur hluti þessara sendinga kemur, niðurgreidd af stjórnvöldum þar í landi sem augljóslega vegur þungt í alþjóðlegri samkeppni.

Allir sitji við sama borð
Eins og öllum má ljóst vera er samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar mjög þröng við þær aðstæður sem hér er lýst, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Aftur á móti er samkeppni mikilvægur hlekkur í að efla innlenda starfsemi og stuðla að framþróun á þeim mörkuðum þar sem samkeppni ríkir. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að aðilar sitji við sama borð er viðkemur opinberum kröfum og samspil við leikreglur á samkeppnismarkaði. Því er krafan vegna netviðskipta einfaldlega sú að tryggt verði að greiddur verði virðisaukaskattur af öllum vörum sem keyptar eru í formi netviðskipta til landsins, nema af þeim vörum sem óumdeilanlega eru undanþegnar skattskyldu. Þar sem hér fara saman hagsmunir hins opinbera og hagsmunir íslenskrar verslunar, er þetta svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það.

Rannsókn á viðhorfi til íslenskrar verslunar

Rannsóknarfyrirtækið Zenter framkvæmdi nýlega rannsókn á viðhorfi Íslendinga til íslenskrar verslunar. Hér á eftir fylgja lýsing á aðferðarfræði rannsóknarinnar, þær spurningar sem lagðar voru fyrir þátttakendur, ásamt helstu niðurstöðum.

Lýsing á rannsókn
Framkvæmdaraðili: Zenter rannsóknir
Framkvæmdatími 4. til 18. desember 2017.
Aðferð: Netkönnun meðal könnunarhóps Zenter rannsókna, einstaklingar 18 ára og eldri.
Svarfjöldi: 1038 einstaklingar.
Svarhlutfall: 57%

Þátttakendur voru spurðir eftirfarandi spurninga:
„Hversu mikla eða litla þekkingu hefur þú á verslun á Íslandi?“
„Þegar á heildina er litið, hversu jákvæð eða neikvæð er upplifun þín af verslun á Íslandi?“
„Hversu mikið eða lítið traust berð þú til verslunar á Íslandi?“
„Hver af eftirfarandi fullyrðingum endurspeglar best viðhorf þitt til verslunar á Íslandi?“

Niðurstöður rannsóknar um ímynd verslunar á Íslandi
Nýlega framkvæmdi Zenter rannsóknir könnun fyrir Samtök verslunar og þjónustu á ímyndarþáttum er varða verslun á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum könnunar ber meirihluti Íslendinga mikið eða eitthvað traust til verslunar á Íslandi (67%). Niðurstöður sýna einnig að mikill meirihluti Íslendinga telur sig hafa mikla eða einhverja þekkingu á verslun á Íslandi (88%). Þar að auki benda niðurstöður til að flestir hafa jákvæða (40%) eða hvorki jákvæða né neikvæða (38%) upplifun á verslun á Íslandi. Að lokum voru þátttakendur spurðir um viðhorf til verslunar á Íslandi og sögðust 17% tala vel um verslun á Íslandi, 44% voru hlutlausir og 30% tala um hana á gagnrýninn hátt. Um 9% svarenda höfðu ekki sterka skoðun á verslun á Íslandi eða tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Hversu mikla eða litla þekkingu hefur þú á verslun á Íslandi?

Þekking

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar á heildina er litið, hversu jákvæð eða neikvæð er upplifun þín af verslun á Íslandi?Upplifun

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hversu mikið eða lítið traust berð þú til verslunar á Íslandi?

Traust

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hver af eftirfarandi fullyrðingum endurspeglar best viðhorf þitt til verslunar á Íslandi?

Viðhorf

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Könnunin á pdf sniði

Íslensk verslun nýtur trausts

Íslensk verslun nýtur trausts

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 7. 2.2018
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu

Í nýrri könnun eins virtasta markaðsfyrirtækis landsins mælist íslensk verslun með 67% traust íslensku þjóðarinnar. Til hamingju verslunarmenn, til hamingju Íslendingar.

Sjálfstæðisbaráttan tengdist verslun
Það er mikilvægt hverri atvinnugrein að starfa í sátt og samlyndi við samfélag sitt. Íslensk verslun hefur um aldir verið nátengd hagsmunum þjóðarinnar, enda var það eitt af stóru hagsmunamálunum í sjálfstæðisbaráttu okkar, að verslunin kæmist í okkar eigin hendur. Sú barátta stóð lengi og var að lokum farsællega til lykta leidd af sjálfstæðishetjum okkar, eins og svo vel er lýst í því stórkostlega ritverki “ Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900 – 2010”, sem nýlega kom út.

Samfélagsmiðlar gefa rödd
Fullyrða má að fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafn óvæga gagnrýni og verslunin hefur mátt sæta, og hefur verslunin margoft verið skotspónn þeirra sem hafa séð sér hag í því að tortryggja hana. Nú í seinni tíð hefur almenningur fengið rödd í gegnum samfélagsmiðlana. Virðist sú umræða vera að ná jafnvægi og snúast meira um neytendavernd, þjónustu og upplýsta umræðu sem verslunin fagnar. Það vita allir sem reynt hafa hversu erfitt getur verið að rísa undir gagnrýni sem þessari. Íslensk verslun hefur hingað til staðið allt slíkt af sér og það er engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.

Tæplega 70% traust
Það er sérstakt ánægjuefni að finna hversu mikillar velvildar íslensk verslun nýtur núna meðal þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi umræðunnar. Í fyrrgreindri könnun kemur fram að um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi. Þessi niðurstaða er mjög ánægjuleg, ekki síst í því ljósi þess að opinber umræða um atvinnugreinina var óneitanlega fremur neikvæð á s.l. ári. Að finna að verslunin nýtur svo mikils trausts og velvildar hjá þjóðinni er greininni mikil hvatning til þess að gera enn betur.

Sóknarhugur á tíma breytinga
Íslensk verslun er í sóknarhug. Framundan eru miklar áskoranir í síbreytilegu umhverfi, umhverfi sem tekur meiri og hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Íslensk verslun er staðráðin í því að aðlaga sig að þessum breytingum, vera áfram öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi og halda áfram að þjóna vel kröfuhörðum neytendum. Þannig gerum við betur, þannig eflist íslensk verslun og þannig höldum við þessu öfluga trausti Íslendinga – okkur öllum til hagsbóta.

Blaðagrein 7.2.2018 – Íslensk verslun nýtur trausts