Hamingjuóskir! Krónan fær Umhverfisverðlaun atvinnulífsins – myndband

Hamingjuóskir! Krónan fær Umhverfisverðlaun atvinnulífsins – myndband

Í dag fengu félagsmenn okkar í Krónunni verðlaun fyrir Framtak ársins við afhendingu Umverfisverðlauna atvinnulífsins. Krónan hefur verið að vinna frábært starf í umhverfismálum og sjálfbærni síðastliðin misseri og óhætt að segja að eftir því hafi verið tekið í samfélaginu.

Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með verðlaunin, vonum að þau veiti öðrum fyrirtækjum innblástur til að gera vel í umhverfismálunum og hlökkum til að fylgjast með þeim áfram.

Hér má sjá áhugavert kynningarmyndband sem gefur betri innsýn í þá flottu hluti sem Krónan hefur verið að gera!

Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Starfsfólk SVÞ rakst á dögunum á einkar áhugaverða skýrslu sem gefin var út af Euromonitor og fjallar um helstu strauma hvað varðar neytendahegðun á árinu 2019. Þó nú sé vel liðið á árið eiga þeir þó ennþá vel við svo ég ákvað að stikla á stóru í þessum greinarstúf með grófri þýðingu á helstu þáttum skýrslunnar og deila svo skýrslunni í heild sinni með félagsmönnum inni í lokaða Facebook hópnum okkar.*

Í skýrslunni benda höfundarnir, Alison Angus og Gina Westbrook, á tíu atriði sem hafa áhrif og munu halda áfram að hafa áhrif og farið er stuttlega farið yfir hér fyrir neðan:

 

Aldur skiptir ekki máli (e. Age agnostic)

Við erum aldurslaus. Aldur er afstæður. Fólk heldur ekki lengur í gamlar hugmyndir um aldur heldur tengjumst við hvort öðru, sama á hvaða aldri við erum. Lykillinn að því að ná til viðskiptavina og halda tryggð þeirra er að bjóða vörur og þjónustu sem henta öllum aldri, þrátt fyrir að vera hannaðar með eldra fólk í huga. Það sem skiptir fólk máli sem fætt er á áratugunum eftir seinna stríð (e. baby boomers) er mun líkara því sem skiptir þúsaldarkynslóðina og yngra fólk máli heldur en við gerum okkur oft grein fyrir. Við þurfum að skilja þetta hugarfar betur og sníða vörur, þjónustu og markaðssamskipti að því. Það sem skiptir máli er að hugsa vel um sjálfan sig og njóta lífsins. Það sem skiptir máli er jafnvægið á milli hins andlega og hins líkamlega.

 

Minna er meira sem stöðutákn (e. Back to basics for status)

Við viljum sýna að við séum einlæg og ekta. Neytendur eru að leita að vörum sem eru ekta og öðruvísi og upplifun sem gerir þeim kleift að tjá persónuleika sinn. Neytendur í þróuðum hagkerfum eru að endurmeta hvernig þeir eyða peningunum sínum og færast frá neysluhyggju yfir í einfaldleika, einlægni og þörf fyrir að endurspegla sérstöðu sína sem einstaklings. Eftir því sem vaxandi markaðir þróast er líklegt að við sjáum samskonar breytingu þar: Neytendur verða leiðir á almennum vörum og vilja fá meiri gæði, vörur sem eru einstakar og öðruvísi og gefa ákveðna samfélagsstöðu til kynna.

 

Meðvitaðir neytendur (e. Conscious consumer)

Við viljum vera meðvituð. Hinir meðvituðu neytendur dagsins í dag eru sveigjanlegir og velja það sem hentar stað og stund. Þar sem áður fyrr voru lítil sérfyrirtæki sem tileinkuðu sér samfélagslega ábyrgð sækja nú hefðbundin fyrirtæki á með því að gera vörur, sem þegar eru á markaði, sjálfbærari. Meðvitaðir neytendur eru áhrifamiklir og munu hafa sífellt meiri áhrif á aðra.

Dýraverndunarsjónarmið munu þróast ferkar og hafa áhrif á fleiri sviðum en í mat, fegurð og tísku. Við munum sjá dýravernd skipta máli í vörum eins og heimilisvörum, húsgögnum, gæludýrafóðri o.s.frv. Markaðurinn gerir sífellt meiri kröfur um ábyrgð og ætlast til þess að vörur sem við notum dags daglega verði sífellt ábyrgari hvað varðar dýravernd.

 

Stafræn samvera (e. Digitally together)

Við getum raunverulega verið saman – á stafrænan hátt. Útbreiðsla háhraða nettengingar, sérstaklega farsímatenginga, er drifkrafturinn á bakvið gagnvirka upplifun á netinu og rauntíma samvinnu. Hvort sem um ræðir stefnumót eða menntun, þá höfum við vanist raunverulegum samskiptum á netinu. Eftir því sem tæknileg færni okkar verður meiri og eftir því sem okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira munum við geta gert saman á stafrænan hátt.

Eftir því sem við verðum vanari því að deila hlutum á netinu; vinum okkar, staðsetningu, því sem við erum að gera, því meira munu stafrænar samskiptaleiðir þróast. Eftir því sem tæknileg geta okkar eykst og okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira aukast möguleikarnir á því sem við getum skapað og upplifað saman þrátt fyrir að vera ekki á sama stað.

 

Allir eru sérfræðingar (e. Everyone’s an expert)

Við verðum sífellt upplýstari. Völdin eru að færast frá smásölum og til neytenda. Áður treystu viðskiptavinir á ákveðin vörumerki eða ákveðnar upplýsingarveitur í leit að því sem þeir vildu, en í dag verða fyrirtæki sífellt að koma með eitthvað nýtt, lækka verð, straumlínulaga og bæta útlit vara og þjónustu til að laða að viðskiptavini.

Kjarninn í þessari þróun er næstum því áráttukennd þörf neytenda til að nálgast og deila upplýsingum á stafrænan hátt. Eftir því sem netverslun í heiminum eykst munu allir geirar þurfa að aðlaga sig að kröfum neytenda um að fyrirtæki séu með á nótunum.

 

Að finna gleðina í að missa af hlutunum (e. Finding my JOMO)

Við viljum vera meðvituð um það sem við gerum. Hræðslan við að missa af (e. FOMO eða fear of missing out) víkur nú fyrir því að eignast tíma okkar aftur þegar við finnum gleðina í því að missa af hlutunum (e. JOMO eða the joy of missing out). Til að vernda andlega heilsu vill fólk vera meðvitaðra um hvernig það notar tímann sinn, setja mörk og vera vandlátara á það sem það gerir. Á heimsvísu finnur þúsaldarkynslóðin meiri þörf fyrir að efla sig á þennan hátt en aðrar kynslóðir. Skipulagður tími þar sem fólk aftengir sig, gefur sér frelsi til að hugsa og gera hluti sem þau virkilega vilja og njóta þess að gera. Á mörkuðum í þróun þar sem fólk reiðir sig sífellt meira á netið mun það orsaka aukna streitu, sérstaklega eftir því sem nettenging verður sífellt nauðsynlegri fyrir grundvallarþjónustu.

 

Ég get séð um mig sjálf(ur) (e. I can look after myself)

Við erum sífellt að verða meira sjálfum okkur næg. Kjarninn í þessari þróun er allt það sem fólk getur gert til að koma í veg fyrir veikindi, óhamingju og óþægindi án þess að þurfa á aðstoð fagfólks að halda. Fólk nýtir smáforrit og sérsniðnar þjónustu án þess að þurfa sífellt að vera á samfélagsmiðlum eða fylgjast með ímyndamarkaðssetningu fyrirtækja. Að geta séð um sjálfa(n) sig á þennan hátt er álitinn lúxus sem gerir fólki kleift að vera fjölhæfara og auka möguleika þeirra í lífinu. Með því að ráða lífi þínu, hanna það og sérsníða það á þann hátt sem þú vilt hefurðu meiri sveigjanleika.

 

Ég vil plastlausan heim (e. I want a plastic free world)

Við viljum hafa áhrif á heiminn okkar. Óskir fólks um plastlausan heim hafa haldið áfram að vaxa og munu halda áfram að vaxa. Plast mengar umhverfið og fólk er farið að skoða vandlega endingu plastpakkninga. Neytendur munu í sífellt meira mæli nota veskið til að mótmæla óábyrgri plastnoktun, sem getur leitt til jákvæðra áhrifa í ýmsum iðnaði sem aukið getur sjálfbærni sína, s.s. í mat, drykk, fegurðar- og hreinlætisvörum o.fl.

 

Ég vil fá þetta núna! (e. I want it now)

Við viljum að hlutirnir gerist strax. Skilvirkni skiptir sífellt meira máli. Neytendur vilja upplifanir án núnings eða árekstra, upplifanir sem henta lífstíl þeirra og gera þeim kleift að eyða meiri tíma í störf og félagslíf. Helsta áhyggjuefnið er meðferð notendaupplýsinga og aðgangur fyrirtækja að þeim upplýsingum. Traust almennings á því að vel sé farið með þennan upplýsingaaðgang og að hann sé notaður á ábyrgan hátt verður það sem sker úr um hversu lengi þessi þróun heldur áfram.

 

Einfaralíf (e. Loner living)

Við höfum aldrei verið eins mikið ein. Einbúum fjölgar á heimsvísu og það verður algengasta fyrirkomulagið á næstu árum. Búist er við að stór hluti þeirra sem koma til með að búa einir séu og verði fólk fætt á áratugunum eftir seinna stríð (e. Baby boomers). Margir af yngri kynslóðum hafa hafnað hjónabandi og sambúð algjörlega. Þetta er tilhneiging sem virðist ætla að halda áfram með næstu kynslóðum. Um allan heim þykir ekki lengur slæmt að búa ein(n) heldur nýtur fólk sjálfstæðs lífstíls og einfaralífsins. Skv. Pew Research Center er gert ráð fyrir að þegar ungt fólk í Bandaríkjunum í dag verður fimmtugt muni fjórðungur þeirra hafa verið einhleyp allt sitt líf.

 

* Til að fá aðgang að hópnum þarftu sækja um og svara nokkrum laufléttum spurningum svo við getum sannreynt að þú starfir hjá aðildarfyrirtæki í SVÞ. Við hlökkum til að sjá þig í hópnum!

 

Þóranna K. Jónsdóttir
Markaðs- og kynningarstjóri SVÞ

Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ásamt forsvarsfólki SVÞ og skólastjórnendum í Verzlunarskóla Íslands hittu á dögunum nemendur á nýrri stúdentsbraut skólans þar sem áherslan er á stafræna verslun og viðskipti. Brautin er samstarfsverkefni SVÞ, Verzló og fleiri aðila og er ætlað að undirbúa nemendur betur undir störf í viðskiptalífi þar sem stafrænar lausnir skipa sífellt stærri sess. Spennandi nýbreytni í náminu er náið samstarf skólans og atvinnulífsins, en nemendur á brautinni munu stunda starfsnám innan hinna ýmsu fyrirtækja. Er starfsnáminu ætlað að styrkja bönd menntunar og atvinnulífs, undirbúa nemendur undir störf í raunumhverfi og skapa hagnýta leið til kennslu.

Fjör var á viðburðinum þar sem til máls tóku menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, skólastjóri Verzlunarskólans, Ingi Ólafsson, þróunarstjórinn Guðrún Inga Sívertsen auk Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandsklippu frá þessum skemmtilega morgni:

Hagsmunasamtök mótmæla UPU lögum

Hagsmunasamtök mótmæla UPU lögum

Nýlega sendi fjöldi hagsmunasamtaka í verslun víða um heim frá sér sameiginlegt bréf til samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins þar sem farið var fram á að jöfnuð væri samkeppnisstaða evrópskra verslana (hefðbundinna og vefverslana) gagnvart ríkjum á borð við Kína þegar kemur að sendingarkostnaði. Vegna samnings UPU, Universan Postal Union, sem á rætur sínar að rekja allt til ársins 1874, eru sendingar frá svokölluðum þróunarríkjum, þ.á.m. Kína, verulega niðurgreiddar af þróuðum ríkjum.

Samningurinn hefur litlum breytingum tekið í gegnum tíðina eða engan veginn nægum til að mæta þeirri gríðarlegu breytingu sem alþjóðleg netverslun hefur haft í för með sér. Í dag þýðir samningurinn í raun að ríki á borð við Kanada, Bandaríkin og EES ríki, þ.m.t. Ísland, niðurgreiða verulega póstsendingar frá löndum á borð við Kína og verslun í þessum löndum á því mjög undir högg að sækja vegna þessarar ójöfnu samkeppnisstöðu. Nú í september verður haldið sérstakt þing um þessi mál í Genf og hvetja hagsmunasamtökin hlutaðeigandi aðila til að nota þetta einstaka tækifæri til að gera endurbætur á UPU samningnum. Eru mismuandi leiðir kynntar til sögunnar, sem ýmist fela í sér takmarkaða aukningu á föstum gjöldum frá þróunarlöndum, að gera sendingarþjónustuaðilum kleift að rukka sendingarkostnað að fullu eða einhverskonar blanda af þessum leiðum. Líklegt þykir að fyrsta leiðin, takmörkuð aukning á föstum gjöldum, hugnist fólki ekki og hafa Bandaríkjamenn hafa hótað að draga sig úr UPU verði sú leið valin eða ef samningunum verður ekki breytt yfir höfuð.

Ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir verslun um allan heim, og ekki síst á Íslandi, sem finnur verulega fyrir áhrifum m.a. frá kínverskum verslunarrisum sem eru ráðandi á markaðnum í krafti stærðar, lágra verða og niðurgreidds sendingarkostnaðar.

Undir bréfið rita fulltrúar hagsmunasamtaka verslunar frá 14 löndum, þ.á.m. Norðurlöndunum, Þýskalandi, Ástralíu. Samtök verslunar og þjónustu eru ein þeirra samtaka sem undirrita bréfið.

Bréfið  sjá hér: Joint industry letter Creating a level playing field for European retail and ecommerce through Universal Postal Union reform

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 29. maí sl.:

Umhverfi þeirra sem vinna við smásölu breytist hratt um þessar mundir. Á sama tíma og hlutfall atvinnulausra lækkar í Bandaríkjunum og störfum fjölgar á heildina litið í apríl um rúmlega fjórðung úr milljón fækkar störfum í smásölu þó velta hafi aukist.

Upplýsingar um þróun starfa í Bandaríkjum gefa glögga mynd af þeirri hröðu þróun sem á sér stað um þessar mundir í verslun og þjónustu. Grunngerð verslunarinnar er að breytast, m.a. vegna aukinnar netverslunar og annarra tengdra tæknibreytinga. Unnt er að greina áhrif bandarísku uppsveiflunnar á marga mismunandi vegu eftir því hvaða atvinnugrein á í hlut en upplýsingar um hlutfall atvinnulausra eftir atvinnugreinum gefa ágæta vísbendingu um hvert stefnir í þeim efnum.

Þegar heildarsamhengið er skoðað virðast þau störf sem skapast samfara aukinni smásöluverslun vegna góðs efnahagsástands einkum hafa orðið til í starfsemi sem flokkast undir vöruflutninga og vörugeymslu. Þetta bendir til þess að smásölustarfsemi sé í auknum mæli að færast yfir á netið og að stórir smásöluaðilar hafi í auknum mæli beint sjónum að rekstri vörugeymslu- og dreifingarmiðstöðva í stað hefðbundinna smásöluverslana. Þeir geta þannig jafnvel sleppt því að reka hefðbundnar sölubúðir. Afleiðingin er sú, að í stað þess að aukin umsvif í smásölu komi fram í auknum umsvifum í hefðbundnum verslunum, aukast vöruflutningar og umsvif í vörugeymslum (tiltektir og frágangur sendinga) í takt við stóraukin umsvif netverslananna.

Það er eðlilegt að undrun séu fyrstu viðbrögð margra við þessari þróun. Það er jafnframt eðlilegt að þeir sem þekkja vel til hefðbundins verslunarreksturs spyrji hvort þróunin sé alfarið af hinu góða. Þegar litið er til framþróunar í atvinnugreinum og þeirra áhrifa sem slíkar breytingar hafa á þjóðfélög og efnahagslíf virðast kostir netbundinnar verslunar yfirgnæfandi. Leiguverð vörugeymslu er mun lægra en leiguverð verslunarhúsnæðis í miðborgum eða í verslunarkjörnum. Auðveldara er að nýta sjálfvirkni í netbundinni verslun en í hefðbundinni verslun. Ný framleiðslutækni eykur jafnan framleiðni vinnuaflsins og aukin sjálfvirkni í framleiðslu getur lækkað kostnað fyrirtækja og þar með verðlag. Samhliða þessu verða oft til ný störf ásamt tilfærslu á vinnuafli milli atvinnugreina.

Þrátt fyrir þá óvissu sem verið hefur í Bretlandi vegna BREXIT hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist í Bretlandi að undanförnu. Atvinnustig þar er nú afar hátt í sögulegu samhengi. Samkvæmt gögnum frá systursamtökum SVÞ í Bretlandi (British Retail Consortium/BRC) fækkaði störfum í smásölu hins vegar á fjórða ársfjórðungi 2018 og fyrsta ársfjórðungi 2019. Er þá byggt á upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum BRC sem saman telja rúman fimmtung af veltu á breskum smásölumarkaði. Tölurnar endurspegla leitni niður á við í smásölu sem einnig má sjá í gögnum bresku hagstofunnar. Eins og í Bandaríkjunum er atvinnuþróun í breskri smásöluverslun önnur en í hagkerfinu í heild en um þessar mundir er atvinnuþátttaka með því mesta sem um getur. Ástæðan virðist vera sú að smásölugeirinn þar er að ganga í gegnum sömu breytingar og í Bandaríkjunum. Ljóst er að ráðast þarf í fjárfestingar til að ná árangri á tímum umbreytinga en hætt er við að hiks gæti þar sem útlit er fyrir kostnaðarútlát vegna óvissu sem ríkir um stefnumörkun stjórnvalda.

Nýir möguleikar

Einhverjum kann að þykja sú þróun sem nú á sér stað í Bretlandi og Bandaríkjunum varhugaverð. Það er hins vegar vafasamt að horfast ekki í augu við framtíðina, láta skeika að sköpuðu, því eins og rakið hefur verið geta breytingar orðið á grunngerð þjóðarbúskaparins samfara tæknivæðingu og mörg störf tapast í einni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Sterkar vísbendingar eru hins vegar uppi um að á sama tíma opnist möguleikar á fjölgun starfa annarsstaðar í hagkerfinu. Það er því full ástæða til að gæta varúðar og undirbúa hraða aðlögun að breytingum og nýjum tækifærum sem skapast. Breytingar í rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu kalla m.a. á nýja hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika.

Þegar áætlanir eru gerðar og ákvarðanir teknar um framkvæmdir þurfa atvinnurekendur að velja milli fleiri eða færri möguleika við notkun á því fjármagni sem er fyrir hendi á hverjum tíma. Jafnan verður margt útundan og annað dregst úr hömlu. Við áætlunargerð þarf ekki aðeins að velja verkefni heldur einnig að ákveða tímasetningu og staðsetningu á markaði. Staðsetning á markaði skiptir oft ekki minna máli en tímasetningar og jafnvel ákvarðanataka um hvort ráðist er í aðgerð eður ei. SVÞ leggja áherslu á mikilvægi þess að fagfólk í verslun og þjónustu verði sem best í stakk búið til að aðlagast fyrirsjáanlegum breytingum og  geti nýtt sér tækifæri í heimi stafrænna lausna. Slíkur undirbúningur þarf að eiga sér stað í frum- og endurmenntun sem standi öllum landsmönnum til boða.

Nám á framhaldsskólastigi

Mjór er mikils vísir segir máltækið en næstkomandi haust hefst kennsla á nýrri stafrænni viðskiptalínu á framhaldsskólastigi í Verzlunarskóla Íslands. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaði og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og veitir þeim innsýn í starfsumhverfið en heldur einnig að þeim þeirri hröðu þróun sem á sér stað í verslun og þjónustu um þessar mundir. Með hvata að og aðkomu að undirbúningi þessa náms leggur SVÞ sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta breyttum veruleika í íslenskri smásölu.