Eftirbátur Norðurlandaríkja í hagkvæmum flutningum

Eftirbátur Norðurlandaríkja í hagkvæmum flutningum

Viðtal við Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðing SVÞ Samtök verslunar og þjónustu, í Morgunblaðinu 05.09.2017

Aukin hagkvæmni myndi auka framleiðni og hagvöxt og efla samkeppnishæfni

Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar litið er til hagkvæmni alþjóðlegra flutninga, samkvæmt mælikvarða Alþjóðabankans, Logistics Performance Index. Vísitalan tekur bæði til flutninga og vörustjórnunar.
Ísland skipar 39. sætið af 160. Til samanburðar er Noregur í 22. sæti, Danmörk í 17., Finnland í 15. og Svíþjóð skipar 3. sætið. Efst á blaði er Þýskaland.
„Ef okkur auðnast á ná betri tökum á þessu sviði má auka framleiðni og hagvöxt í landinu og efla samkeppnihæfni fyrirtækja,“ segir Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu, í samtali við Morgunblaðið.

Á mikið undir í flutningum
„Ísland er eyja sem á mikið undir hagkvæmum flutningum. Af þeim sökum er mikilvægt að efla nýsköpun á þessu sviði. Háskólasamfélagið, greiningardeildir og fjölmiðlar þurfa að taka höndum saman til þess að skapa frjóan jarðveg til þess að ýta undir slík vinnubrögð. Háskólinn þyrfti að skoða ofan í kjölinn þessa stafrænu tæknibyltingu sem er að umbylta landslaginu í efnahagslífinu. Það kemur á óvart hve fáar rannsóknir eru til á þessu sviði. Jafnframt þurfa hefðbundin fyrirtæki að haga sér í meira mæli eins og nýsköpunarfyrirtæki og leita leiða til að innleiða nýjungar,“ segir hann.

Ingvar Freyr segir að nýta megi vísitölu Alþjóðabankans sem eins konar vegvísi til þess að efla flutningaþjónustu hér á landi. Til mynda hafnaði Ísland í 51. sæti hvað varðar gæði innviða fyrir samgöngur; í 43. sæti varðandi tolla- og landamæraeftirlit; í 42. sæti þegar litið er til hve auðvelt það er að skipuleggja flutninga á samkeppnishæfu verði; í 40. sæti í hæfni til að fylgjast með og rekja sendingar og loks í 32. sæti þegar litið er til þess hve vel gekk að afhenda sendingar innan áætlaðs afhendingartíma.

Skapar 13 þúsund störf
Að sögn Ingvars Freys er flutningageirinn afar umfangsmikill í íslensku hagkerfi og skapar um 7% starfa í landinu eða 13 þúsund. Velta greinarinnar er um 10,5% af heildarveltu í hagkerfinu. „Vægi flutninga í hagkerfinu hefur farið vaxandi frá árinu 1997. Það má rekja til aukinna hlutdeildar farþegaflutninga til og frá landinu og í vörugeymslu og stoðstarfsemi fyrir flutninga. Aukinn innflutningur og batnandi efnahagur hefur haft góð áhrif á flutningageirann.“ segir hann.

Laun sem hlutfall af verðmætasköpun í flutningageiranum eru hæst á Íslandi af Norðurlöndunum. Litið til meðaltals áranna 2012-2015 er hlutfallið 77% á Íslandi, 64% í Finnlandi, 58% í Danmörku og 56% í Svíþjóð. „Þetta varpar ljósi á að launakostnaður er hlutfallslega hár á Íslandi“ segir Ingvar Freyr.

Viðtalið í Morgunblaðinu