Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem starfar í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi.

Í ljósi þessa sendu SVÞ í apríl 2016 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) enda telja samtökin að núverandi framkvæmd feli í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Samhliða umræddri kvörtun SVÞ til ESA hafði stofnunin þá þegar haft til skoðunar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og afgreiddi ESA það mál í nóvember 2016.

ESA hefur nú lokið skoðun á málinu og birti stofnunin niðurstöðu sína í mars sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið hvað varðar rekstur hins opinbera á fríhafnarverslun feli ekki í sér brot gegn ríkisstyrkjarreglum EES-samningsins. Telur ESA að íslensk stjórnvöld hafi í máli þessu sýnt fram á mikilvægi slíks rekstrar hins opinbera til að sporna gegn smygli og undanskotum hvað varðar opinber gjöld. Þá sé slíkt fyrirkomulag til þess fallið að einfalda tollaeftirlit í flugstöðinni. Niðurstaða þessi er í fullu samræmi við fyrri niðurstöðu ESA frá nóvember 2016 hvað varðar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og ljóst að stofnunin taldi þau sjónarmið sem þar komu fram eiga við hvað varðar svipaða starfsemi hér á landi.

SVÞ harma þessa niðurstöðu ESA í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi fyrirkomulag raski að verulegu leyti samkeppni hér á landi og hafi skaðleg áhrif á þá samkeppni. Er með öllu óumdeilt að innlend verslun getur ekki keppt við opinbera starfsemi á sama sviði sem nýtur yfirburðarstöðu í formi niðurfellingar á opinberum gjöldum í þeirri samkeppni. SVÞ ítreka að samtökin hafa einnig þegar sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins og er það mál enn til skoðunar hjá eftirlitinu.