Aðalfundur Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í gær í Húsi atvinnulífsins. Alls bárust sex framboð um almenna stjórnarsetu í stjórn SVÞ en kosið var um þrjú stjórnarsæti fyrir kjörtímabilið 2018 til 2020. Á fundinum var lýst kjöri þriggja meðstjórnenda en þeir eru Elín Hjálmsdóttir hjá Eimskipum, Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum koma ný inn í stjórnina og Jón Ólafur Halldórsson hjá Olís var endurkjörinn. Aðrir í stjórn SVÞ eru Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Gústaf B. Ólafsson hjá Bitter ehf. og Ómar Pálmason hjá Aðalskoðun. Margrét Sanders er formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014 en kosið er um formann til tveggja ára í senn.

„Ég hlakka til að vinna með nýkjörinni stjórn SVÞ að þeim stóru viðfangsefnum sem við okkur blasa ekki síst í kjaramálum og í menntamálum atvinnulífsins. Auk þess standa fyrirtæki í verslun og þjónustu nú frammi fyrir miklum breytingum þar sem ný tækni, breytt neysluhegðun, og möguleiki á annars konar nálgun í þjónustu mun hafa afgerandi áhrif á starfsemi fyrirtækja innan okkar raða. Verkefni stjórnarinnar verður því ekki síst að aðstoða fyrirtækin við að aðlaga sig að þeim breytingum sem framundan eru,“ segir Margrét Sanders formaður SVÞ