Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Elko er Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann 2024. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.

ELKO kom með krafti inn á íslenskan raftækjamarkað árið 1998 og er í dag ein stærsta raftækjaverslun landsins með þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri, tvær verslanir á Keflavíkurflugvelli ásamt því að vera með vefverslun. Árið 2019 var mörkuð ný stefna hjá fyrirtækinu þar sem framtíðarsýnin var ánægðustu viðskiptavinirnir og því til stuðnings var lögð enn meiri áhersla á fræðslu og þjálfun og ánægju starfsfólks.

Í tilnefningu Elko koma fram greinargóðar upplýsingar um fræðslustarfið og þau fjölmörgu námskeið og menntaleiðir sem bjóðast starfsfólki í svokölluðum Fræðslupakka Elko . ELKO uppfyllir öll viðmið menntaverðlauna atvinnulífsins með skipulagðri og markvissri fræðslu innan fyrirtækisins þar sem þátttaka starfsfólks er góð enda hvatning til frekari þekkingaröflunar til staðar. Elko sýnir með fræðsluáætlun, skýrum mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfsins er mikill og góður.

Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina. Þá er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur einnig stutt við viðskiptavini sína og sitt ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu, til dæmis með foreldrafræðslu um raftækjanotkun barna.