Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna í maí síðasliðnum samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1% og hefur ekki verið minni frá því RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er vafalítið sterkt gengi krónunnar.

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%. Dagvöruverslun var eini flokkur verslunar þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra. Meðal annarra flokka kortaveltunnar sem drógust saman frá fyrra ári eru bílaleigur en erlend greiðslukortavelta þeirra var 0,6% lægri í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og var 1,7 milljarðar í maí síðastliðnum.

Kortavelta e. flokkum 05 2017
  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu. Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum.

Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí  síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra.

Gengi og verðlag
Gengi krónunnar hefur styrkst mjög hressilega síðasta árið og var 23% hærra í maí síðastliðnum borið saman við sama mánuð í fyrra ef miðað er við viðskiptavog SÍ. Gengi krónunnar hefur styrkst mis-mikið gagnvart viðskiptagjaldmiðlum á tímabilinu en sem dæmi var krónan 35% sterkari gagnvart sterlingspundi en 20% sterkari gagnvart Bandaríkjadal samanborið við maí í fyrra. Í mars greindi RSV frá því að ofan á þá gengistyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Í maí er verðhækkun frá fyrra ári töluvert hóflegri en þá. Sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 1% í íslenskum krónum frá maí í fyrra, verðlag veitingahúsa um 4% og verð pakkaferða innanlands um 3% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegar bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis.

Kortavelta eftir þjóðerni
Töf verður á birtingu talna Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna og því ekki hægt að birta kortaveltu á mann eftir þjóðerni. Í töflunni hér til hliðar má sjá greiðslukortaveltu eftir helstu þjóðernum í maí síðastliðnum samanborið við maí í fyrra.

kortavelti e. þjóðerni 05 2017
  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn
Töflunni er raðað eftir breytingu í milljónum króna í dálknum lengst til hægri. Í töflunni sést að mestu munar um auknar tekjur Bandaríkjamanna frá maí í fyrra en kortavelta þeirra jókst um 1,5 milljarð frá fyrra ári eða um 22,5%. Mest minnkar greiðslukortavelta Norðmanna, um 200 mkr. og Kanadabúa, um 194 mkr. frá fyrra ári.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.