Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.6.2017
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Íslensk verslun stendur nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á hinn litla íslenska markað hefur þegar haft áhrif  á smásölumarkaði, sem  gætu allt eins orðið meiri á næstu mánuðum.  Neytendur hafa tekið þessum breytingum fagnandi og hafa á undanförnum vikum staðið fyrir meiri og víðtækari umfjöllun um hagsmuni neytenda en dæmi eru um. Þessu ber að fagna, enda á verslunin allt sitt undir ánægðum neytendum og verslunin á Íslandi verður að standa sig í aukinni samkeppni.

Eins og oft gerist þegar breytingar sem hér um ræðir ganga yfir, þá falla stór orð í umræðunni. Margir eru óhræddir við að fella dóma. Sá sem harðast hefur gengið fram í þessari umræðu er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Í grein sem birtist eftir hann í DV um s.l. helgi hefur hann uppi stór orð um félaga sína í hópi kaupmanna, en þar heldur hann því blákalt fram að íslensk verslun hafi stundað okur, hækkað verð fyrir útsölur og blekkt fólk.

Á meðan framkvæmdastjóri IKEA gerir ekki nánari grein fyrir því til hverra úr hópi kaupmanna hann beinir þessum orðum sínum, liggur allur sá stóri hópur „undir grun“. Þórarinn er því hér með hvattur til að stíga fram og segja með skýrum og ótvíræðum hætti við hverja hann á. Með því móti einu gefst þeim sem þessum orðum er beint til, möguleiki á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þórarinn hefur oft sýnt það að hann hikar ekki við að segja það sem honum býr í brjósti. Það verður því varla hik á honum að upplýsa þetta. Framkvæmdastjóri IKEA hefur einnig sýnt það að hann er prýðilegur rekstrarmaður, um það vitna nýbirtar afkomutölur um rekstur IKEA, en framlegð þar er með því allra hæsta sem sést í smásöluverslun á Íslandi í dag.  Hann hefur einnig stigið fram í ræðu og riti og talað um hærra verð í IKEA verslun sinni en sambærilegum IKEA verslunum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og gert það vel.  Verslun hans er til fyrirmyndar á erfiðum íslenskum örmarkaði, eykur á fjölbreytileikann á markaðnum eins og þessar verslunakeðjur gera sem eru að koma nýjar á markaðinn.

Íslensk verslun er ekki á villigötum þó hún takist nú á við stærri viðfangsefni en oft áður. Fjölbreytnin og samkeppnin er að aukast og því ber að fagna.  Umræða um íslenska verslun er hins vegar á villigötum á meðan hún er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur. Atvinnugreinin sem slík og þeir 26.000 einstaklingar sem hafa atvinnu sína af verslun eiga skilið málefnalega umræðu, þar sem tekist er á með rökum en ekki með sleggjudómum.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu