Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var erlend greiðslukortavelta hér á landi alls 9,4 milljarðar kr. í desember síðastliðnum sem var 2,9 milljörðum kr. hærri upphæð en í sama mánuði fyrir ári eða hækkun sem nemur um 44,5% á milli ára. Ef borin er saman erlend kortavelta desembermánaða síðustu fjögurra ára sést að hún hefur aukist um 133% á tímabilinu
Vörukaup útlendinga í verslunum í desember var kærkomin viðbót við jólaverslun Íslendinga. Erlend kortavelta í verslunum nam alls 1,6 milljarði kr. í mánuðinum. Hæstum upphæðum var varið til kaupa í dagvöruverslunum, 316 millj. kr., og þar næst til fatakaupa (líklega aðallega útivistafatnaður), 309 millj. kr.
Ferðamenn greiddu í desember jafn háa upphæð með kortum sínum fyrir gistingu eins og í verslun,  eða 1,6 milljarð kr.

Þá greiddu ferðamenn rúmlega einn milljarð kr. á veitingahúsum í desember síðastliðnum sem er 55% hærri upphæð en í desember fyrir ári.
Greinilegt er að erlendir ferðamenn hafa verið á ferð og flugi innanlands í desember, því aukning í kortaveltu fyrir farþegaflutninga tvöfaldaðist á milli ára. Þar vega flugferðir þyngst. Erlend kortavelta vegna flugferða nam 1,3 milljarði kr. í desember. Þá greiddu útlendingar 470 millj. kr. fyrir bílaleigubíla í desember sem er 49% hærri upphæð en fyrir ári.


Meira en þriðjungsaukning árið 2015
Erlend kortavelta hér á landi allt árið 2015 nam alls 154,4 milljörðum kr. sem er 37,6% hærri upphæð en sambærileg kortavelta 2014. Gisting var stærsti útgjaldaliðurinn, eða 30,7 milljarðar kr. og þar á eftir velta í verslunum sem nam 22,7 milljörðum kr. Að meðaltali greiddi hver erlendur ferðamaður með greiðslukorti sínu hér á landi árið 2015 um 122 þús. kr. sem er 6% hærri upphæð en meðalferðamaðurinn greiddi árið 2014.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í desember greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 133 þús. kr. Það er 9,5% hærri upphæð en meðalferðamaðurinn eyddi  í desember í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam hækkunin um 7,4% á milli ára.
Athyglisvert er að ferðamenn frá Sviss greiddu langhæstu meðalupphæðina í desember, eða 621 þús. kr. á hvern ferðamann. Þá greiddi meðalferðamaðurinn frá Noregi 369 þús. kr.  Í þriðja sæti voru ferðalangar frá Danmörku sem greiddu að meðaltali 234 þús. kr. í mánuðinum.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.

Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson (arni@bifrost.is, GSM 868 4341) og Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is).

www.rsv.is