Stofnfundur Faghóps um stafræna verslun var haldinn mánudaginn 12. nóvember sl. í Hyl, Húsi atvinnulífsins.

Farið var yfir hvernig faghópar innan SVÞ starfa og þann ramma sem þarf að skapa til að tryggja að farið sé eftir lögum og reglum. Einnig var farið var yfir þau mál sem rædd voru á stofn-undirbúningsfundi hópsins þann 29. október og talið er að verði helstu verkefni hópsins. Þar má helst nefna:

  • Hvernig jafna megi samkeppnisstöðu íslenskra netverslana við erlenda samkeppnisaðila.
  • Aðgengi íslenskra netverslana að greiðslugáttum sem auðvelda samkeppni við erlenda aðila.
  • Flutninga- og sendingamál og hvort mögulegt sé að jafna samkeppnisstöðu íslenskra netverslana gagnvart erlendum samkeppnisaðilum í þeim málaflokki.
  • Afnám niðurgreiðslna á póstsendingum frá Kína.
  • Tolla- og skattaumhverfið með því tilliti að auðvelda íslenskum netverslunum samkeppni við erlenda samkeppnisaðila og auðvelda íslenskum netverslunum að selja og senda á erlenda markaði.
  • Aðgengi að nýsköpunarsjóðum fyrir verslunar og þjónustufyrirtæki.
  • Eflingu menntunar og þekkingar á sviði stafrænnar verslunar.

Var Braga Þór Antoníussyni, markaðsstjóra Elko, falið að fara með formannsembættið til bráðabirgða þar til stjórn verður formlega skipuð. Formlegur stofnfundur þar sem stjórn verður skipuð og gengið verður frá gögnum í kringum stofnun hópsins mun fara fram miðvikudaginn 5. desember kl. 13:30 í Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Rvk.

Þátttaka í hópnum er heimil félagsmönnum og aðildarfyrirtækjum SVÞ.