Aukið fjármagn til vegamála

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu fyrir nokkru frá sér áskorun til stjórnvalda um að gera stórátak í vegamálum. Að mati samtakanna er það augljóslega eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í dag að færa samgöngukerfið inn í nútímann. Það dylst engum sem á leið um íslenska þjóðvegi að gerð þeirra tilheyrir fortíðinni og það þarf ekkert minna en stórátak í þessum málaflokki. Vegfarendur á ferð um landið eiga ekki að upplifa sig sem þátttakendur í rússneskri rúllettu eins og oft er raunin.

Samtökin leggja áherslu á að það er ekki nægilegt að veita sama fjármagni í þennan málaflokk á næstu árum og hingað til, til að hraða útbótum í þessum málaflokki þarf verulega aukið fjármagn á næstu árum. Umferð um þjóðvegi landsins hefur fjórfaldast á síðustu 20 árum. Svo aukin umferð þýðir verulega aukna innkomu frá vegfarendum í ríkiskassann. Fjárframlög til vegamála endurspegla engan veginn þessa fjármuni.  Framlög til viðhalds vega hafa nánast staðið í stað síðustu 10 ár, voru tæpir 2 milljarðar árið 1995, 2,6 milljarðar árið 2005. Það er hér sem átaksins er þörf. Það þarf að tryggja verulega aukningu fjármagns í þennan lið á næstu 10 árum til að koma samgöngukerfinu okkar inn í nútímann í eitt skipti fyrir öll. 

Í síðustu viku kynnti Vegagerðin framkvæmdaáætlun sína um breikkun Suðurlandsvegar. Framkvæmdin gerir ráð fyrir að byggja upp 2 + 1 veg á þessari leið. Í samantekt þeirra kemur fram að meðaltalsumferð á veginum sé 6.000 – 7.300 bílar á dag og að umferðarspár þeirra geri ráð fyrir að meðaltalsumferð á dag verði um 15.000 bílar í kringum 2025 – 2030. Í þessu sambandi er áhugavert að skoða muninn á meðalumferð yfir sumarið annars vegar og á veturna hins vegar. Skv. tölum frá Vegagerðinni er meðalumferð yfir sumarið á vegkaflanum frá gatnamótum Hafravatnsvegar að sýslumörkum Árnessýslu 10.192 bílar á dag. Á veturna er þetta sama meðaltal 5.653 bílar á dag. Hversu lýsandi er “meðaltalsumferð pr. dag yfir árið” þegar um er að ræða slíkar tölur og hversu nýtilegar upplýsingar vegna framkvæmda? 

Það er mikilvægt að við uppbyggingu og endurgerð vegakerfisins verði horft til lengri framtíðar. Skammtímaávinningur getur verið óhagkvæmur til lengri tíma. Í þessu dæmi hér að ofan um Suðurlandsveg er ekki laust við að maður spyrji sig – hversu takmarkandi þáttur er vegakerfið á umferðarþunga á veturna? Getur verið að ef tekin verður ákvörðun um 2 + 2 veg á þessari leið að þar með muni umferðin aukast mun hraðar en hún mundi annars gera? Þegar ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir er mikilvægt að stefnt sé að  varanlegum lausnum. Það er áríðandi og mikilvægara en flest annað hvað varðar samgöngumál á Íslandi að horft sé til lengri framtíðar við áætlanir og framkvæmdir.