Hvað gengur Neytendasamtökunum til?

Nokkur umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu um samgöngumál undanfarin misseri og er ekki að undra. Það sem hins vegar vekur nokkra furðu er í hvaða farvegi umræðan hefur farið. Í stað þess að ræða brýna þörf fyrir stórátak til að bæta íslenska vegi er mönnum tíðrætt um nauðsyn þess að taka upp strandflutninga að nýju. Gefið er í skyn að það muni verða til þess að við losnum við vöruflutningabílana af vegunum sem virðast vera sökudólgar fyrir öllu slæmu í umferðinni á þjóðvegum landsins þessa dagana. 

Nú nýlega hefur þing Neytendasamtakanna talið ástæðu til að blanda sér í þessa umræðu. Í samþykkt þeirra um stefnumótun í neytendamálum frá 30. sept. sl. eru fullyrðingar í þá veru að strandflutningar séu þjóðhagslega hagkvæmastir og því beri stjórnvöldum með aðgerðum sínum að beina vöruflutningum til og frá landsbyggðinni yfir í strandflutninga. Auk þess er bent á að strandflutningar séu umhverfisvænni kostur en vöruflutningabílar og klikkt út með því að fullyrða að vöruflutningabílar séu skattlagðir mun minna en sem nemur kostnaði hins opinbera við þá. 

Í ljósi þessara fullyrðinga er vert að benda á eftirfarandi: Í greinargerð sem unnin var af Samgönguráðuneyti, Vegagerð og Siglingastofnun 2004 í tengslum við að Mánafoss hætti áætlunarsiglingum á ströndina var gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda mundi minnka við það eitt um 57%. Komist var að þessari niðurstöðu á þeim forsendum að fyrir breytinguna voru tvö kerfi í gangi sem bæði losuðu gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið þ.e. bæði skipið og landflutningakerfið en eftir breytinguna var bara annað kerfið eftir og samanlögð áhrif voru þau að gróðurhúsaáhrif minnkuðu í stað þess að aukast. 

Hvað varðar þá fullyrðingu að vöruflutningabílar séu skattlagðir mun minna en sem nemur kostnaði hins opinbera við þá má benda á að í skýrslu Hagfræðistofnunar frá því í mars 2005 er komist að þeirri niðurstöðu að þungir flutningabílar greiði um 13% meira til hins opinbera en nemur ytri kostnaði. Því er óskiljanlegt hvernig Neytendasamtökin, sem einnig vitna í sömu skýrslu komast að þeirri niðurstöðu að “vöruflutningabílar séu skattlagðir mun minna en sem nemur kostnaði við þá”.

Þá má og spyrja – hver er ætlan Neytendasamtakanna með slíkri fullyrðingu? Er það vilji Neytendasamtakanna að hækka stórkostlega álögur á landflutninga og yrði það til hagsbóta fyrir neytendur í hinum dreifðu byggðum landsins? Eða er það svo að Neytendasamtökin standa einungis vörð um hagsmuni neytenda á höfuðborgarsvæðinu? Sú staðreynd að Neytendasamtökin láti frá sér fara svo afgerandi pólitískar fullyrðingar eins og vitnað er til hér að ofan um að ein atvinnugrein umfram aðra sé þeim svo þóknanleg hlýtur að vekja spurningar um hvert hlutverk samtakanna sé. 

Að síðustu er vert að benda á að þegar Eimskip hætti strandflutningum árið 2002 hafði heildarmagn þeirra flutninga staðið í stað á árunum 1997 til 2002. Á sama tíma hafði heildar inn- og útflutningur aukist um 1 milljón tonna. Á þeim árum sem liðin eru síðan hefur Kísiliðjan lagt upp laupana en vægi hennar í heildarmagni strandflutninga Mánafoss var u.þ.b. 20%. 

Það er ljóst að þau fyrirtæki sem sjá um vöruflutninga á vegum landsins eru síður en svo á móti því að strandflutningar verði teknir upp. Ef einhver aðili finnur rekstrargrundvöll til þess að reka skip í flutningum á ströndina er það hið besta mál og ekki meira um það að segja. Öðru máli gegnir ef hugmyndir eru uppi um ríkisstyrki til handa strandflutningum. Slíkar hugmyndir eru dæmi um fortíðarhyggju og til þess eins fallnar að slá ryki í augu almennings. Ástæða þess að strandflutningum var hætt var ekki sú að vondir karlar í flutningafyrirtækjunum hafi ákveðið að hrekkja landsmenn með auknum vöruflutningum um vegi landsins heldur sú að hagkvæmni þess að reka tvö kerfi, annars vegar landflutninga og hins vegar strandflutninga var engin. Strandflutningarnir lögðust af vegna þess að eftirspurnin var of lítil. 

SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu eru hagsmunasamtök fyrirtækja í vöruflutningaþjónustu.  Þau hafa átt góð og hreinskiptin skoðanaskipti við stjórnvöld um þessi mál og vonast til að stórfelldar endurbætur verði á næstu árum gerðar á stofnbrautum vegakerfisins þannig að öryggi og hagkvæmni allrar umferðar á landi verði ásættanlegar.

(Grein þessi birtist í Mbl. 15.10. 2006)