Hver er raunveruleikinn?

Árni Bjarnason skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann talar um allt að því lífshættulegt viðhorf Sigurðar Jónssonar framkvæmdastjóra SVÞ til þungaflutninga á vegum landsins. Árni segir m.a. “Það er öllum ljóst sem ferðast akandi um íslenska þjóðvegi að vegakerfi okkar er verulega fjarri því að þola, hvað þá standast þá geysilegu aukningu sem orðin er staðreynd varðandi þungaflutninga.” Og nokkru síðar segir hann …”Sannleikurinn er sá að allt of þungum farartækjum er leyft að aka um vegi sem aldrei voru byggðir til að þola neitt sem er í líkingu við þá nauðgun sem fram fer á degi hverjum á vegakerfi Íslands.”

Flest í grein Árna er fyllsta ástæða til að taka undir. Það er ekki nokkur vafi að íslenskt vegakerfi er fjarri því að þola þá geysilegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum, þá sérstaklega á tilteknum svæðum. Þá er ekki síður ástæða til að taka undir að íslenskir vegir voru aldrei byggðir með til að þola neitt í líkingu við þá umferð sem nú er um þá. Það sem verður þó að gera stórkostlegar athugasemdir við í títtnefndri grein Árna er sú niðurstaða hans að gefa í skyn að upptaka strandflutninga muni breyta stöðunni í þessum málum svo einhverju nemur eða yfirhöfuð að komast þeirri niðurstöðu að lausnin á þeim samgönguvanda sem við blasir sé upptaka strandflutninga.

Hér er ástæða til að spyrja spurninga og setja hlutina í samhengi. Ef það er ósk manna að íslenska ríkið leggi peninga í rekstur strandsiglinga hlýtur forsenda þess að vera sú að við vitum nokkurn veginn hversu mikið slík aðgerð mundi losa okkur við af “þungaumferð” af vegunum. Er það ekki nokkuð augljós krafa? Hversu stór hluti heildarumferðar um íslenska þjóðvegi eru svokallaðir “þungaflutningar”? Hversu stóran hluta þeirra flutninga má áætla að hægt sé að færa yfir í strandflutninga og það sem meira er, hversu mikil heildaráhrif hefðu strandflutningar á umferð flutningabíla um vegina? Ljóst er að upptaka strandflutninga þýðir mun verri nýtingu þeirra bíla sem eru á vegunum og því er engan veginn tryggt þó að strandflutningar verði teknir upp að umferð flutningabíla muni minnka mikið við það. Áður en strandflutningum var hætt var mikið um það að bílar fóru vel hlaðnir út á land en tómir til baka og ekki er ólíklegt að sú myndi verða raunin ef strandsiglingar hæfust að nýju.

Hér verður ekki öllum þessum spurningum svarað en þó bent á eina mikilvæga staðreynd málsins til að átta sig nokkuð á því hvað um er að ræða. Miðað við þær umferðarkannanir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum má ætla að svokallaðir “þungaflutningar” (sem vel að merkja eru skilgreindir sem bílar sem eru þyngri en 3,5 tonn) séu u.þ.b. 8 – 10% af heildarumferðinni á þjóðvegum landsins. Auðvitað er þetta nokkuð breytilegt eftir árstíðum, tíma dags og vegaköflum en breytileikinn er þó ótrúlega lítill. Umferð bifreiða þyngri en 3,5 tonn er á þessu bili, 8 – 10% af heildarumferðinni.

Halda menn eins og Árni Bjarnason að upptaka strandflutninga muni hafa svo stórkostleg áhrif á þessa tölu að landsmenn muni finna fyrir því í akstri á þjóðvegum landsins? Væri ekki nær að Árni og allir aðrir sem taka undir þennan málflutning með honum einbeiti sér nú að því sem raunverulega skiptir máli, en það er krefjast þess að verulegar úrbætur verði gerðar á vegakerfi okkar og að í þær framkvæmdir verði ráðist án tafar? Getum við öll ekki sameinast um það sem er kjarni málsins, þ.e.a.s. að gera stórátak í því að endurbæta stofnbrautakerfið á Íslandi á fáum árum? Málið þolir enga bið.

(Grein þessi birtist í Mbl. 24.10. 2006)