Samgönguáætlun fagnaðarefni

nwb00532.jpgÍ október sl. skoraði stjórn SVÞ á stjórnvöld að hefja 10 ára stórátak í vegamálum þar sem áhersla væri lögð á að tvöfalda stofnbrautir í austur og vestur út frá höfuðborginni og endurgera síðan aðrar stofnbrautir vegakerfisins. Jafnframt bentu samtökin á að sjálfsagt væri að kanna allar framkvæmdaleiðir, m.a. einkaframkvæmd. Síðan héldu samtökin fjölmennan fund um vegamálin þar sem ráðherra ásamt framkvæmda- og hagsmunaaðilum reifuðu hugmyndir sínar og áskorun samtakanna.

SVÞ hljóta því að fagna framlagðri samgönguáætlun til 12 ára, sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi, en þar er að verulegu leyti tekið undir þær áherslur sem SVÞ fjallaði um í áskorun sinni áformað að framkvæmda þær á gildistíma áætlunarinnar. Að sjálfsögðu eru forgangsröðun og áherslur mótaðar af ráðherranum og e.t.v. ekki allar eins og SVÞ hefðu stillt þessu upp, en ekki fer á milli mála að þarna er um metnaðarfulla áætlun að ræða sem vonandi hlýtur framgang á Alþingi. SVÞ munu eins og hingað til kappkosta að eiga gott samstarf við stjórnvöld samgöngumála um úrbætur sem leiða til öruggra samgangna og góðra rekstrarskilyrða flutningafyrirtækja.