Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ og Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur SA, voru hjá Heimi og Gulla Í bítinu í morgun þar sem þau ræddu atvinnulífið á tímum COVID19, aðgerðir yfirvalda, og áskoranir fyrirtækja.

Hér eru helstu punktar (ath. ekki alveg orðrétt) og fyrir neðan geturðu hlustað á þáttinn í heild sinni.

Ásdís: Góðu fréttirnar eru að þetta er tímabundinn vandi. Ef við horfum á þetta núna, miðað við 2008, þá teljum við þetta í mánuðum en 2008 sáum við fram á ár. Viðbrögð stjórnvalda og Seðlabankans miða við að bregðast við þessum tímabundna vanda. Það er verið að stíga mjög stór skref. Seðlabankinn er búinn að stíga tvisvar fram á síðastliðinni viku með talsverðar aðgerðir og segja að þeir séu rétt að byrja og að við munum heyra frá þeim fljótlega. Það gætu verið frekari vaxtalækkanir en líka annarskonar aðgerðir, s.s. að tryggja að það sé nægt lausafé í kerfinu og magnbundnar íhlutanir sem líklega er verið að skoða. Það eru ýmis tæki og tól sem Seðlabankinn getur horft til og er líklega að gera. Svo skiptir líka máli hvað stjórnvöld munu gera. Skilaboð fjármálaráðherra hafa verið mjög skýr um að gert verði meira en minna því ef við gerum of lítið þá mun kostnaðurinn vera meiri. Það er vegna þess að þetta er þetta tímabundna ástand og við höfum svigrúm til þess því staðan er góð á ríkissjóði. Nú mun reyna á Seðlabankann, stjórnvöld og bankana. Það var ekki bara verið að kynna vaxtalækkun heldur var líka verið að afnema þennan svokallaða sveiflujöfnunarauka. Til að setja það í krónusamhengi þá eykur það útlánagetu bankanna, eða svigrúm þeirra til útlána, um 350 milljarða. Bankakerfið, hið opinbera og seðlabankinn hafa nýtt síðastliðin ár til þess að vera viðbúin því að bregðast við svona ástandi og við erum svo sannarlega á góðum stað hvað það varðar.

Jón Ólafur: Ekkert okkar hefur efni á þessu, hvorki fyrirtækin né fjölskyldurnar í landinu. Ég vil taka undir með Ásdísi að mér finnst frábært hvernig stjórnvöld og stofnanir hafa stigið fram og mér finnst sérstök ástæða til að hrósa samhæfingarteyminu sem hefur blásið kjark í okkur. Mér finnst þau taka mjög skynsamlega á málum. Svo er það með fyrirtækin. Ef við tökum bara þessa grein, verslun og þjónustu, þá er hún að verða fyrir miklu áfalli. Fyrsta höggið kannski var hjá ferðaþjónustunni, en við erum mjög samofin ferðaþjónustunni og við sjáum það núna að verslunarmiðstöðvarnar hafa fallið mjög mikið í traffík – ég held að það sé allt að 50% minni umferð í gegnum verslunarmiðstöðvar og verslanir, fataverslun hefur dregist saman sjálfsagt um 80% og svona gætum við lengi talið. Það er margt sem skýrir þetta, en eitt er auðvitað það að ferðamennirnir – það hefur minnkað – það hefur áhrif á okkur því við höfum notið góðs af þessum vexti undanfarin ár. En þetta eru þannig aðstæður núna að það er mjög brýnt að grípa strax inní. Og þessar aðgerðir sem hafa verið kynntar af fjármálaráðherra og ríkisstjórninni, ég er mjög ánægður með þær. Það er orðið töluvert mikið af fé í bönkunum til að styðja við bakið á fyrirtækjunum og fjölskyldunum því það er mjög mikilvægt núna að tryggja það að einkaneyslan haldi áfram því það er ekki margt sem dregur hagvöxtinn áfram nema það. Þess vegna er mjög mikilvægt líka, þegar við fáum fréttir af því, að ef fyrirtæki lenda tímabundið í því, t.d. að minnka starfshutföll starfsmanna, að það skuli vera eitthvað sem grípi þá þetta fólk, að atvinnutryggingasjóður komi þá á móti og bæti fólki upp mögulega þetta launatap sem þarna verður.

Ásdís: Auðvitað er núna bara verkefnið framundan að við náum að lágmarka skaðann, milda höggið eins mikið og við getum. Það breytir þó ekki því að við getum ekki bjargað öllum og við vitum það alveg. Það er bara þannig. Þetta er staðan. En nú er auðvitað verkefnið framundan að fyrirtæki sem eru lífvænleg, sem eru auðvitað að glíma við þennan tímabundna lausafjárvanda, það þarf að bjarga þeim. Það þarf að bjarga þeim yfir þetta tímabil vegna þess, og ég ítreka það aftur, þetta er ástand sem við teljum að muni vara í mánuðum talið – ekki árum. En svo tekur auðvitað við þessi uppbygging, en verkefnið framunda núna er fyrst og fremst að styðja við fyrirtæki sem eru í lífvænlegum rekstri og eru í þessum tímabundna lausafjárvanda þannig að þau séu til staðar þegar uppbyggingin kemur. Og á endanum erum við auðvitað, þannig um leið, að verja störfin í landinu og að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi og þar með heimilunum líka. Þetta er auðvitað bara verkefni okkar allra.

Jón Ólafur: Ég vona það að það verði allavega einhver skynsamleg niðurstaða í þessu og að við munum standa saman sem samfélag í að gera þetta ástand betra heldur en það hefði kannski orðið, og það að þegar nýtt tímabil tekur við, vonandi ekki innan langs tíma, þá getum við haldið áfram. En það er fleira sem kemur til. Þetta er náttúrulega röð aðgerða sem að ríkisstjórnin er að boða. En ég verð þó að nefna það  tryggingagjaldið, sem gæti verið súrefni fyrir okkur strax, að það yrði lækkað. Við höfum haldið þessu fram lengi hjá versluninni. Það stendur til að lækka það. Svona aðgerðir geta skipt máli strax. En ég vil líka nefna það að mér finnst að sveitarfélögin hafi ekki gert nóg. Fasteignagjöldin, sem ég hef oft nefnt áður. Það er eitthvað sem þau geta gert og mér finnst þau ekki geta skorast undan þessu ástandi hér og nú. Þau eru allavega ekki komin að borðinu með einhverjar sérstakar lausnir sem ég hef heyrt af, gagnvart atvinnulífinu. Ég hefði haldið að samstarfið [ríki, Seðlabankinn og sveitarfélögin] þyrfti að vera á breiðum grunni og fara í gegnum allt samfélagið og þar með ættu sveitarfélögin að vera við borðið.

Ásdís: Já, ég er alveg sammála því. Við þurfum auðvitað líka að horfa til þess að fasteignaskattar eru mjög íþyngjandi í rekstri margra fyrirtækja, og það væri alveg eðlilegt að það væri hægt að a.m.k. fresta greiðslum slíkra gjalda eins og annarra opinberra gjalda. Og mér finnst undarlegt hvernig það hefur í raun ekkert heyrst frá sveitarfélögunum – það er auðvitað mjög undarlegt í þeirri stöðu sem að við blasir.

Jón Ólafur: [Finnst þér eitthvað upp á vanta?] Nei, ekki í augnablikinu. Mér finnst hafa tekist að halda ágætis ró yfir þessu. Ég get vel skilið það að fólk sé með kvíða fyrir ástandinu. Mér finnst hafa komist ágætlega til skila, eins og með vörur, það er til nóg af vörum í landinu. Maður finnur það bara frá síðustu viku þar til núna hvernig pressan hefur minnkað, þetta var gríðarlegt álag á verslunina, sérstaklega matvöruna, þegar fólk var að ná í nauðsynjar. En það er nóg af vörum í landinu og það er nóg af lyfjum. En það eru fleiri svona aðgerðir sem ég held að gætu skipt máli, sem væri hægt að nefna hér. Nú sjáum við það að lönd eins og Ítalía og Spánn, þar er ekkert fólk orðið til að sækja grænmeti og ávexti sem við þurfum, þannig að ég held t.d. að það væri lag að lækka tímabundið gjald á þessar nauðsynjar því nú er að koma ákveðið framboðsfall, kannski á einhverjum ákveðnum tegundum, og ég efast um það að íslensk framleiðsla, þó hún sé frábær, að hún geti mætt þeirri þörf sem nú er. Þegar við sjáum t.d. verð hækka á einhverjum vörum erlendis, þá væri t.d. þessi tímabundna leið möguleg. En það er eitt af því sem við kannski sjáum fyrir okkur núna sem ákveðið vandamál, að þegar krónan hefur veikst eins og hún hefur gert, þá myndast ákveðinn verðbólguþrýstingur og við erum að horfast í augu við hækkanir frá birgjum. [Lækkanir á gjöldum frekar en inngrip í krónuna?] Ja, ég held að Seðlabankinn geti best svarað þessari spurningu, og hann hefur svo sannarlega verið að stíga fram og grípa inn með krónuna, og hann verður bara að monitora þetta ástand og ég hef heyrt Seðlabankann segja það að þeir treysti sér til að halda verðbólgunni í skefjum. Það getur komið eitthvað upp en ég veit að þeir vaka yfir þessu og ég treysti þessu fólki mjög vel. [Erum við að tala um að allir taki höndum saman og jafnvel lækki raforkuverð til grænmetisbænda og sveitarfélögin, eins og Reykjavík, hitann og styðji við framleiðsluna á grænmeti?] Ja, ég myndi ekki útiloka neitt í þessu samhengi.

Ásdís: Ég held að verkefnið núna sé að lágmarka skaðann. Hvernig getum við frestað greiðslum, lækkað gjöld, þannig að fyrirtækin komist yfir þetta tímabil og nái að sporna gegn því að þurfa að grípa til aðgerða eins og uppsagna. Og við bíðum auðvitað öll eftir aðgerðapakka stjórnvalda. [Saknar þú einhvers í því samtali? Vantar eitthvað í viðbót?] Já, það á auðvitað eftir að koma aðgerðapakki og við vitum auðvitað ekki hvað felst í honum. Mér finnst samt sem áður rosalega mikilvægt hvernig Seðlabankastjóri talar og hvernig fjármálaráðherra talar, að það er verið að grípa til aðgerða. Þeir tala í takt og bara að ráðherra segir að við ætlum að gera meira en minna, þetta skiptir máli. Þetta eru hárrétt viðbrögð við því sem þarf að gera núna – að það þarf að gera meira en minna þegar hagkerfið er nánast í frjálsu falli. Við sjáum það bara að það er eiginlega engin framleiðsla í gangi, þannig séð. Þess vegna verðum við að grípa til stórra aðgerða en svo auðvitað verðum við bara að endurskoða stöðuna eftir 2-3 mánuði, eftir því hvernig tíminn líður.

[Þeir sem eru, á samfélagsmiðlum, að líkja þessu við hrunið, þeir eru á algjörum villigötum?] Ég skil vel að við erum að fá þessa tilfinningu aftur, og ég upplifi það alveg en við erum á algjörlega gjörólíkum stað. Í fyrsta lagi er þetta öðruvísi áfall, þetta er tímabundið, við erum að telja þetta í mánuðum en ekki árum, og í annan stað þá er þetta ekki bankahrun. Það má segja að þetta sé einskonar ferðaþjónustuhrun, sem er þá að smitast yfir allt hagkerfið, en undirstöðurnar okkar eru sterkar. Við erum viðbúin, við erum tilbúin til að bregðast við. Horfum á skuldastöðu ríkissjóðs, Seðlabankinn með öll sín tæki og tól, sameinaður Seðlabanki með fjármálaeftirlitið þarna inni, og horfum á bankakerfið, viðnámsþróttur bankakerfisins er allt annar. Við vorum í raun með ósjálfbæra skuldastöðu fyrir rúmum 10 árum síðan, þetta er ekki staðan í dag. Og tala nú ekki um þegar gjaldeyrisvaraforðinn okkar er um 930 milljarðar. Þannig að krónan er sannarlega búin að veikjast en Seðlabankinn hefur 930 milljarða til að beita til að bregðast við.

[En hvað með fiskinn okkar? Það er hrun í útflutningi.] Já, við sáum það. Það voru fréttir í gær að það er hrun í útflutningi á ferskum fiski, það eru allar atvinnugreinar að finna fyrir þessu með einum eða öðrum hætti.

Jón Ólafur: [Nú ert þú framkvæmdastóri Olís, og bensínið skiptir okkur mörg máli, og ekki síst fyrirtækin og auðvitað heimilin. Kemur til greina að draga eitthvað úr álagningunni núna, tímabundið?] Það er ekkert útilokað í því, en bensín og dísel hefur nú verið að lækka jafnt og þétt og við fylgjumst auðvitað mjög grannt með markaðnum. Við höfum séð það frá áramótum hefur heimsmarkaðurinn fallið á bensíni um 65%, en auðvitað er þetta ekki beinn eftirspurnartími eftir bensíni, veturinn, en dísel hefur lækkað um 50% og við höfum svona verið að lækka þetta í takt við það sem við sjáum á mörkuðunum. Hinsvegar hefur krónan veikst á sama tíma, þannig að það vinnur aðeins gegn þeirri lækkun sem við getum annars komið út. Við fylgjumst að sjálfsögðu með þessu ástandi en á sama tíma erum við að sjá eins og aðrir að það er bara minnkun, eftirspurnin hefur fallið gríðarlega og við verðum bara að glíma við það. Eftir sem áður erum við með okkar kerfi uppi og erum að reyna að halda úti þjónustunni um allt land fyrir alla. [Lækkið þið verðið á bensíninu alltaf jafn hratt og þið hækkið það, þegar heimsmarkaðsverð breytist?] Já já, þetta er í sama takti. Þetta er pottþétt í sama takti. [Eins og Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra]. En ég vil þó taka undir með Ásdísi, mér finnst tímasetning aðgerða ríkisstjórnarinnar hárrétt. Það er betra að grípa strax inní núna og reyna þá að styrkja undirstöðurnar til næstu mánaða. Það væri alveg skelfilegt ef, eftir tvo mánuði, við hefðum sagt af hverju gerðum við ekki neitt í byrjun? Núna skiptir þetta öllu máli.

Ásdís: Eða af hverju gerðum við ekki meira. Við viljum ekki fá að  heyra það eftir 2-3 mánuði. Við verðum að gera eins mikið og við getum núna.

Jón Ólafur: [Sjáið þið hjá Olís fram á að þurfa að fara í einhverjar aðgerðir innanhúss hjá ykkur?] Við höfum nátturulega gripið til aðgerða útaf því sem sóttvarnarlæknir og samhæfingarnefndi hefur sagt, þá höfum við brugðist við því í okkar skipulagi. Við munum náttúrulega horfa síðan á tekjunar hjá félaginu næstu mánuði, í hvaða takti það verður. Ef það verður mikið tekjufall þá verðum við að grípa til einhverra aðgerða. En við, eins og aðrir, munum að sjálfsögðu gera allt sem við getum til þess að halda og verja störfin hjá félaginu. Það skiptir öllu máli.

Hér geturðu hlustað á þáttinn: