Samtök verslunar og þjónustu stóðu fyrir fundi þriðjudaginn 1. mars undir yfirskriftinni „Skipta búvörusamningar neytendur máli?“ásamt Félagi atvinnurekenda, Viðskiptaráði Íslands, Neytendasamtökunum, ASÍ, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtökum skattgreiðenda og Öryrkjabandalagi Íslands.

Framsögu hafði Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Beindi Daði Már sjónum að því hvort hagsmuna neytenda væri gætt í nýjum búvörusamningum. Í framsögu Daða Más kom m.a. fram að kjúklingaræktin hér á landi fengi í raun 66% stuðning í formi tollverndar, þrátt fyrir að ekki væri um neinn beinan stuðning við greinina að ræða. Daði Már var gagnrýninn á þá skort á framsýni f.h. landbúnaðarins sem birtist í nýgerðum búvörusamningum og sagði að þær breytingar sem þó væri lagt upp með gerðust mjög hægt. Á fyrstu fimm árum samningsins yrðu t.a.m. engar raunverulegar breytingar á því styrkjafyrirkomulagi sem greinin hefði búið við undanfarna áratugi.

Hér má nálgast glærur Daða Más Kristóferssonar.

Að lokinni framsögu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

Í pallborði sátu:
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Reifuðu þau niðurstöður í erindi Daða Más og svöruðu fyrirspurnum fundargesta ásamt framsögumanni.

Fundarstjóri var Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu

Umfjöllun í fjölmiðlum:
visir.is
mbl.is
Stöð 2
RÚV