Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fræðslusjóður stóðu fyrir málþingi um nýjar áskoranir í framhaldssfræðslu 7. sept. sl. Málþingið var vel sótt og greinilega mikill áhugi á þróun framhaldsfræðslunnar og þeim leiðum sem farnar verða í þeim breytingum sem framundan eru. Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu var með erindi á ráðstefnunni þar sem hún fór yfir sýn atvinnurekenda á námi í fyritækjum. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra setti ráðstefnuna og aðrir framsögumenn voru: Sveinn Aðalsteinsson, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Fjóla Jónsdóttir, Efling stéttarfélag, Inga Dóra Halldórsdóttir, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Særún Rósa Ástþórsdóttir, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi Strategía ehf og formaður Fræðslusjóðs stýrði fundi.

Í erindi Áslaugar Huldu kom m.a. fram:

Það skiptir máli að einstaklingar sem sækja sér meiri menntun fái eignarhald á því sem þeir hafa á sig lagt, fái vottun og viðurkenningu á sínu framlagi. Við verðum að tryggja að allt nám, þjálfun og fræðsla sé skráð og fylgi einstaklingnum – hvort sem það er í formlegu námi, hjá símenntunarmiðstöðvunum eða þálfun og námi innan fyrirtækis. Og svo þarf fjármagnið að fylgja þeim einstaklingum sem sækja sér endurmenntun – hvar sem hún er svo framarlega sem hún er viðurkennd. Það má ekki vera lokað inni í einhverju kerfi.

Það liggja gríðarleg tækifæri í stafrænum lausnum. Og við verðum að grípa þau! Við þurfum ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma, og fara yfir mikið efni í alltof langan tíma. Við getum streymt efninu. Tekið upp. Og starfsmenn geta farið yfir námsefnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við líka á skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana en ekki þegar fyrirtækið er búið að bóka sal og fyrirlesara. Tæknin kemur svo sterk inn með alla þá fjölbreyttu möguleika sem stafræn þjálfun gefur okkur.

Til eru rannsóknir sem sýna að einstaklingar sem hafa tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika innan fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækisins öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Þetta hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Allt þetta skiptir fyrirtækin máli, ör starfsmannavelta er fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast – vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.

Starfslýsingar og hæfnikröfur þurfa að vera lagðar til grundvallar þegar námsframboð er skipulagt. Hæfnigreiningar þurfa að liggja að baki námsskráa þegar þær eru unnar eða endurskoðaðar. Þær eiga að leggja grunn að menntun. Og það er mikilvægt að atvinnulífið takið formlega þátt í mótun stefnu um menntun. Menntun þarf að taka mið að þörfum atvinnulífsins.