Um þessar mundir er frumvarp til fjárlaga 2023 til umfjöllunar á Alþingi. Því fylgir svokallaður bandormur sem inniheldur tillögur um breytingar á ýmsum skattalögum. Meðal þeirra atriða sem eru til umfjöllunar í bandorminum eru breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.

Næstu áramót taka gildi lög sem hafa það í för með sér að Evrópuskuldbindingar sem snúa að hringrásarhagkerfinu verða innleiddar í innlendan rétt. Í þeim felst m.a. að lögð verður skylda á innflytjendur og framleiðendur ýmissa vara til að fjármagna úrvinnslu úrgangs fleiri vöruflokka en áður. Jafnframt ber þessum aðilum að fjármagna sérstaka söfnun heimilisúrgangs en samhliða verða merkingar sorptunna samræmdar um allt land, þeim fjölgað, ásamt fjölgun íláta á grenndarstöðvum.

Af bandorminum leiðir að í farvatninu er umtalsverð hækkun úrvinnslugjalds sem er annars vegar er lagt á innflutning samhliða tollafgreiðslu vara og hins vegar á innlenda framleiðslu. Eru dæmi um að hækkun muni í tilviki nokkurra vöruflokka verða allt að þreföld. Grundvallast hækkunin á mati Úrvinnslusjóðs á væntum kostnaðarauka sem innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur í för með sér.

Rétt er að taka fram að frekari breytinga er að vænta á næstunni þar sem Evrópuskuldbindingarnar fela m.a. í sér skyldu aðildarríkjanna til að aðlaga gjaldhæð úrvinnslugjalds að endurnýtingar- og endurvinnslumöguleikum vara.

Skrifstofa SVÞ hyggst á næstunni boða til félagsfundar þar sem framangreindar breytingar og forsendur þeirra verða kynntar. Meira um það síðar.

Nánari upplýsingar veitir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.