Fræðslustjóri að láni

kynningarfundur_19.1.2012_-_frslustjri_leigu_002_f._vef.jpgHaldinn var kynningarfundur á Fræðslustjóra að láni, fimmtudaginn 19. janúar 2012, í Húsi Atvinnulífsins.  Á fundinn voru þeir boðaðir sem bera ábyrgð á fræðslu- og mannauðsmálum sinna fyrirtækja og voru gestir um þrjátíu talsins.

Fyrst tók til máls Ástríður Valbjörnsdóttir, starfsmaður Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofugreina og kynnti sjóðinn, markmið hans og réttindi fyrirtækja, en þeir sem hafa hug á að sækja um Fræðslustjóra að láni, sækja um það til sjóðsins.  

Björn Garðarsson, kynningarfulltrúi Fræðslustjóri að láni,  tók við af Ástríði og renndi yfir verkefnið. Hann fór m.a. yfir það af hverju fyrirtæki ættu að nýta sér Fræðslustjóra að láni, hver ávinningurinn væri og hvert fyrirtæki, sem hefði áhuga, ætti að snúa sér.   Hann sagði einnig frá því að 40 fyrirtæki hafi nýtt sér Fræðslustjóra að láni, allt frá litlum fyrirtækjum upp í fyrirtæki með á annað þúsund starfsmenn.

Árný Elíasdóttir og Ingunn B. Vilhjálmsdóttir frá Attentus sögðu frá verkefnum sem þær hafa tekið að sér svo sem  „Fræðslustjóri að láni“  og gáfu fundargestum dæmi um aðkomu, greiningu og framsetningu á niðurstöðum slíkrar greiningar. 

Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri Olíuverzlunar Íslands hf,  sagði að lokum frá því hvernig til hefði tekist með Fræðslustjóra að láni innan Olís. Mikil ánægja var með alla framkvæmd þar en starfsmaður frá Fræðslumiðstöð Suðurnesja hélt utan um verkefnið og séð var til þess að starfsmenn á landsbyggðinni væru virkjaðir til jafns við starfsmenn í höfuðborginni.  Ragnheiður sagði að þessi markvissa vinna sem farið hefði verið í skilaði sér á margan hátt til fyrirtækisins, s.s. að nú þætti starfsfólki það eiga hlutdeild í fræðslustefnunni. 

Dagskrá fundarins
Glærur Ástríðar
Glærur Björns
Glærur Árnýjar og Ingunnar